Messa og barnastarf sunnudaginn 15. nóvember kl. 11

Sunnudagurinn 15. nóvember er messa  11.00 í Hallgrímskirkju. Dr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari. Í prédikun verður rætt um ást og ofbeldi og voðaverk í París og viðbrögð okkar. Messuþjónar aðstoða ásamt fermingarungmennum. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju leiða söng og orgelleik annast Steinar Logi Helgason. Inga Harðardóttir hefur umsjón með barnastarfinu og henni til aðstoðar eru Rósa Árnadóttir og Sólveig Anna Aradóttir. Tekið verður samskot til Hjálparstarfs Kirkjunnar. Kaffisopi eftir messu.

Verið velkomin til messu.

Eftir messu verða líka tvær fræðslusamverur sem hefjast báðar kl. 12.30.

– Við orgelið upp á 2. hæð hittast fermingarungmenni og foreldrar til fræðslu.

– Í Norðursal mun sr. Árni Svanur Daníelsson flytja erindið Fjórir prestar og jarðarför: Kirkjan í kvikmyndum. Sýnd verða fyndin en líka grafalvarleg dæmi úr nýlegum kvikmyndum og rætt um það hvernig kirkja og prestar birtast í kvikmyndum. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Sálmar:

22 Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu

584 Stjörnur og sól

204 Fyrir þá alla, er fá nú hvíld hjá þér

—-

591 Ó Guð ég veit hvað ég vil

47 Gegnum Jesú helgast hjarta

712 Dag í senn

Lexía: Jes 66.10-13
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Pistill: Opb 15.2-4
Og ég leit sem glerhaf eldi blandið.

Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess,

og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér,

stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs.

Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Guðspjall: Matt 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“