Messa og sögustund 11. júní kl. 11

Næstkomandi sunnudag 11. júní kl. 11 er Þrenningarhátíð í Hallgrímskirkju og jafnframt Sjómannadagurinn. Allir velkomnir til messu.

Sr. Þorvaldur Karl Helgason þjónar fyrir altari ásamt sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur sem prédikar. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr karmmerkórnum Schola cantorum syngja. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Umsjón með barnastarfinu hefur Inga Harðardóttir. Kaffisopi eftir messu.

Messuskrána er hægt að finna hér:

170611.Þrenningarhátíð

Textar:

Lexía: 1Mós 18.1-5
Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Matt.11.25-27
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.