Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju með Elmari Gilbertssyni

Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju með Elmari Gilbertssyni

Laugardaginn 9. desember kl. 17 / Sunnudaginn 10. desember kl. 17

 

Það verður hátíðleg jólastemming í fallegra skreyttri Hallgrímskirkju um helgina en hinir árlegu jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju eru haldnir laugardaginn 9. desember kl 17 og aftur sunnudaginn 10. desember á sama tíma. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er „O magnum mysterium“ eða „Hið mikla undur“. Efnisskráin endurspeglar þetta hjartnæma viðfangsefni og má þar finna hugljúfa blöndu af klassískum jólalögum eftir Adam, Eccard, o.fl., gleðilegum endurreisnarverkum eftir Victoria og Sweelinck og yndisfögrum kórverkum frá 20. öld eftir Lauridsen, Poulenc, Whitacre o.fl.

 

Sérstakur gestur að þessu sinni verður Elmar Gilbertsson, tenór. Elmar er einn virtasti og vinsælasti söngvari sígildrar tónlistar á Íslandi í dag og hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir frammistöðu sína m.a. tvisvar verið valinn söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Nú síðast árið 2016 fyrir hlutverk sitt í Don Giovanni og einnig árið 2014 fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiði og hlaut hann líka Grímuverðlaunin það árið. Hann hefur oft komið fram í Hallgrímskirkju með Mótettukórnum einkum í barokkuppfærslum, seinast í sumar við flutning á Messu í h-moll eftir J. S. Bach.

 

Mótettukór Hallgrímskirkju hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir söng á alþjóðlegum kórakeppnum og eru jólatónleikar kórsins margrómaðir og í huga margra sannkallaður hápunktur í aðdraganda jólanna enda dásamleg jólastemming í vændum.

 

Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel. Hörður Áskelsson stjórnar.

Miðasala í Hallgrímskirkju (510-1000) og á midi.is.