Sýningaropnun – Birtingarmyndir

Birtingarmyndir / Manifestations

Listsýning Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur Birtingarmyndir verður opnuð í forkirkju Hallgrímskirkju sunnudaginn 10. mars 2019 við messulok kl. 12:15.

Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Sýningastjórar eru Rósa Gísladóttir, Þórunn Sveinsdóttir og G.Erla Geirsdóttir.

Allir eru hjartanlega velkomnir og verða léttar veitingar í boði Hallgrímssafnaðar.

 

Guðrún Sigríður Haraldsdóttir myndlistarmaður fæddist 28. febrúar 1956 á Hvanneyri í Borgarfirði en lést langt um aldur fram í Lundúnum þann 5. október 2018. Guðrún Sigríður lærði tækniteiknun við Tækniskóla Reykjavíkur en stundaði jafnframt myndlistarnám undir handleiðslu Hrings Jóhannessonar listmálara sem hvatti hana mjög til áframhaldandi myndlistarnáms og -iðkunar. Í Englandi lauk hún síðan námi við Wimbledon School of Art and Design með láði. Að loknu námi vann hún lengi sem leikmynda- og búningahönnuður hér heima, hjá öllum þremur atvinnuleikhúsunum og frjálsum leikhópum. Fyrir tæpum þremur áratugum fluttist Guðrún Sigríður fyrst til Danmerkur en síðan til Englands þar sem hún bjó og starfaði upp frá því. Auk eigin myndlistar starfaði hún við hönnun og uppsetningu sýninga víða um heim. (IÁ).

 

Guðrún Sigríður var byrjuð að undirbúa sýninguna í Hallgrímskirkju fyrir rúmu ári síðan og þá skrifaði hún þennan texta: „Verkin sem ég er að vinna að eru öll að skoða mannlega tilvist – human existence – og hvernig við tökumst á við hana – bæði persónulega og alhliða. Fyrir form og hlutföll verkanna leitast ég við að sækja innblástur í kirkjuumhverfið, s.s. gluggana og steinda glerið í hurðinni.”

 

Því miður gripu forlögin í taumana og henni entist henni ekki aldur til að gera þau verk. Um nokkurt skeið hafði þetta þema verið listakonunni sérstaklega hugleikið og mannleg tilvist var einmitt meginefni stórrar einkasýningar hennar í The Crypt Gallery (í hvelfingum undir St. Pancras kirkjunni í miðborg Lundúna) snemma árs 2016. Nú þegar þessi minningarsýning um hana er sett upp hér í Hallgrímskikrkju eru flest listaverkin sem sonur hennar, Óðinn Örn Hilmarsson, hefur valið af þeirri sýningu. Guðrún Sigríður var stórhuga og ætlaði sér ekki aðeins anddyri kirkjunnar, heldur einnig kirkjuskipið.

 

Verk Guðrúnar Sigríðar eru unnin með blandaðri tækni sem hún þróaði. Sum eru nánast eins og brothætt. Umfjöllunarefnið er byrðar lífsins. Mörg sýna konur og menn sem kvatt hafa þennan heim. Þau horfa til okkar, oft þungbúin á svip. Spurningar vakna: Hver voru þau? Hvernig var líf þeirra? Hugurinn reikar til þeirra sem á undan eru gegnir. Svipaðan og þegar farið er um kirkjugarð og leiði skoðuð. Verkin einkennast af næmri tilfinningu fyrir því illsegjanlega. Þau vísa til einhvers utan myndefnisins. Ljósmyndirnar í verkum Guðrúnar Sigríðar eru valdar af kostgæfni. Nokkrar sýna konur í sínu fínasta pússi. Aðrar andlit karla, líkt og þeir séu að guða á glugga. Eru þeir að koma eða kveðja? Sagt hefur verið að ljósmyndin sé áminning um hverfulleika lífsins – dauðann. (G.EG)

Texti er fenginn úr greinum G.Erlu Geirsdóttur og Ingunnar Ásdísardóttur í sýningarskrá.

 

Sýningin stendur til 26. maí 2019.