Kirkjulistahátíð 3. júní, mánudagur

kl. 12.00 Myndlistarspjall í Ásmundarsal – Hallgrímskirkjuprestarnir Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson ræða við við myndlistarmanninn Finnboga Pétursson.

Kl. 21.00 ÚTLENDINGURINN

Verk í hljóðum, tali og tónum eftir Halldór Hauksson um leit mannsins að samastað í staðlausum heimi, innblásið af samnefndri skáldsögu eftir Albert Camus.

„Mamma dó í dag. Eða var það kannski í gær. Ég veit það ekki. Ég fékk skeyti frá elliheimilinu: „Móðir látin. Jarðarför á morgun. Virðingarfyllst.“ Það segir mér ekki neitt. Kannski var það í gær.“ Þannig hefst skáldsagan Útlendingurinn (L‘Étranger) eftir franska rithöfundinn og heimspekinginn Albert Camus. Bókin var skrifuð 1939–40 og gefin út í Frakklandi árið 1942. Hún hefur æ síðan verið ein umtalaðasta og áhrifamesta bók tuttugustu aldar. Útlendingur Camus er burðarásinn í samnefndu verki Halldórs Haukssonar á Kirkjulistahátíð. Í verkinu fléttast lesin og leikin brot úr skáldsögunni saman við samtöl og raddir úr íslenskum veruleika og tónlist sem verður til á staðnum. Hvelfingar Hallgrímskirkju bergmála samslátt guðlausrar söguhetju Camus og trúlauss nútímamanns við fáránleika og tilgangsleysi tilverunnar. Hvar á útlendingur heima? Hvar finnur hann samastað í staðlausri veröld?

Leikraddir: Guðjón Davíð Karlsson, Þröstur Leó Gunnarsson og Davíð Þór Jónsson

Flutningurinn fer fram í Hallgrímskirkju. Miðaverð 2.900 kr.