Fimmtudagstónleikar Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju, 4. júlí kl. 12.00

Fimmtudagstónleikar Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju, 4. júlí kl. 12.00

Guðmundur Sigurðsson organisti Hafnarfjarðarkirkju leikur verk eftir Friðrik Bjarnason, Smára Ólason, Johann Pachebel, George Shearing og Huga Guðmundsson.

Miðasala opnar kl. 11.00 en einnig er hægt að nálgast miða á www.midi.is

Miðaverð 2500 kr.

 

Guðmundur Sigurðsson hefur verið organisti Hafnarfjarðarkirkju frá 2006. Hann lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1996, þar sem Hörður Áskelsson var orgelkennari hans, og burtfararprófi frá sama skóla 1998. Vorið 2002 lauk hann meistaraprófi með láði frá Westminster Choir College í Princeton þar sem orgelkennari hans var Mark A. Anderson og kórstjórnarkennari hinn nafntogaði Joseph Flummerfelt. Til námsins í Princeton hlaut Guðmundur styrk úr minningarsjóði Karls Sighvatssonar. Guðmundur hefur komið fram á tónleikum hérlendis og erlendis, ýmist sem einleikari eða meðleikari með einsöngvurum og kórum. Hann er reynslumikill orgelkennari, var formaður FÍO/Organistadeildar FÍH á árunum 2004-2009 og er nú formaður Kirkjutónlistarráðs. Guðmundur var helsti ráðgjafi Hafnarfjarðarkirkju við endurnýjun orgels kirkjunnar. Sú vinna leiddi til smíði á tveimur stílhreinum orgelum, Scheffler orgeli í þýskum síðrómantískum stíl 2008 og Wegscheider mið-þýsku barokkorgeli 2009. Guðmundur, söngkonan Magnea Tómasdóttir og tónvísindamaðurinn Smári Ólason unnu saman að gerð geisladisksins„… allt svo verði til dýrðar þér“ árið 2003 þar sem þau Guðmundur og Magnea fluttu útsetningar Smára á perlum úr þjóðlagaarfinum í útgáfu Smekkleysu. Vorið 2007 stofnaði hann Barbörukórinn sem haustið 2012 gaf út geisladiskinn „Syngið Drottni nýjan söng.” Undir stjórn Guðmundar hefur kórinn komið fram við fjölda kirkjulegra athafna og á tónleikum hérlendis og erlendis. Árið 2009 hleypti hann af stokkunum tónleikaröðinni „Hádegistónleikar í Hafnarfjarðarkirkju“ þar sem fram koma íslenskir orgelleikarar. Í febrúar sl. kom út fyrsta orgeleinleiksplata Guðmundar „Haf“, sem Hafnarfjarðarkirkja gefur út í tilefni af 10 ára afmæli orgelanna. Um síðustu áramót voru Guðmundi veitt starfslaun listamanna í sex mánuði til að fylgja útgáfu plötunnar eftir með tónleikahaldi.

 

Friðrik Bjarnason 1880-1962

Prelúdía í e-moll / Prelude in E minor

Smári Ólason 1946-

Orgelhugleiðing um íslenskt þjóðlag/ Organ meditation on an Icelandic folk song Greinir Jesús um græna tréð/ Jesus meditates on the green and dry tree

Johann Pachelbel 1653-1706

Sálmalag og níu tilbrigði (partítur) / Hymn and nine variations (partitas)

Was Gott tut, das ist wohlgetan / What God does, is done well

George Shearing 1919-2011

Orgelútsetning á amerískum sálmi / Organ meditation on an American hymn

So fades the lovely blooming flower

Hugi Guðmundsson 1977-

Haf / Ocean