Hvar er heima? Boltinn, Boris og kúlan.

Hvar áttu heima? Ég fékk merkilegt svar í Gautaborg fyrir viku síðan sem lyfti mér yfir hið lágsækna og óttalega sem populismi nútímans hamrar á. Erindi mitt til Gautaborgar var Gothia-fótboltamótið, sem þar er haldið árlega. Ég mun hugleiða fótboltan, Boris Johnson, Apollomyndir af bláu kúlunni og heimaskilning. Auk mín þjóna messuþjónar, Kjartan Jósefsson Ognibene spilar á orgelið og félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Isabelle Demers leikur útspilið en hún er konsertorganisti helgarinnar. Messan í Hallgrímskirkju hefst kl. 11. Verið velkomin og svo verður auðvitað kirkjukaffi eftir messu. Guðsþjónusta á ensku í umsjón sr. Bjarna Þórs Bjarnasonar kl. 14.

Sigurður Árni Þórðarson

Sálmar sem við syngjum á þessum 6. sunnudegi eftir þrenningarhátíð:

538 Heilagi Guð á himni og jörð

540 Ljós ert þú lýði

367 Eigi stjörnum ofar

——-

591 Ó, Guð, ég veit hvað ég vil

47 Gegnum Jesú helgast hjarta

712 Dag í senn eitt andartak í einu

Textar sunnudagsins skv B-röð eru:

Lexía: Jes 42.5-7

Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga: Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti og held í hönd þína.Ég móta þig, geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19

Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.

Myndin er af skólalóð Lerlyckeskólans í Hisingen í Gautaborg.