Hádegistónleikar fimmtudag 1. ágúst, kl. 12. Steinar Logi Helgason organisti leikur verk eftir Hafstein Þórólfsson. Hafsteinn Þórólfsson, Fjölnir Ólafsson og Örn Ýmir Arason syngja.

Hádegistónleikar Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju fimmtudag 1. ágúst kl. 12. Steinar Logi Helgason, organisti leikur verk eftir Hafstein Þórólfsson. Hafsteinn Þórólfsson, Fjölnir Ólafsson og Örn Ýmir Arason syngja. Miðaverð 2500 kr.

 

 

Steinar Logi (f.1990) lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Nýja Tónlistarskólanum hjá Jónasi Sen og í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Önnu Þorgrímsdóttur. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og kláraði þar kirkjuorganistapróf og lauk síðar bakkalársgráðu úr Kirkjutónlistarbraut Listaháskóla íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði framhaldsnám í kirkjutónlist við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn þar sem Hans Davidsson var hans aðalkennari. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum en Steinar stundar nú nám í kammersveitastjórnun í Konunglegu tónlistarakademíunni í Kaupmannahöfn.

Hafsteinn Þórólfsson lauk mastersnámi í söng frá Guildhall School of Music & Drama í London 2005. Vorið 2011 lauk hann BA námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og Mastersnámi í rytmískum tónsmíðum frá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum vorið 2015. Sem söngvari hefur Hafsteinn sex sinnum verið þátttakandi í verkefnum sem hafa unnið til verðlauna, m.a. Íslensku tónlistarverðlaunanna og Dönsku Tónlistarverðlaunanna.

Hafsteinn hefur starfað sem atvinnusöngvari í 18 ár. Hann er stofnmeðlimur og söngvari í kammerkórnum Cantoque Ensemble og einnig meðlimur kammerkórsins Schola cantorum. Hann hefur sungið inn á ótal plötur og einnig sungið inn á teiknimyndir og kvikmyndir. Hann hefur starfað með Björk, Monotown, Hjaltalín, Sigurrós, Hilmari Erni Hilmarssyni, Ragnhildi Gísladóttur og verið fulltrúi Íslands í Eurovision sem bakraddasöngvari.

“Bornholm” var samið fyrir hljómsveitina Tirilil fyrir tónleikaferð þeirra um Borgundarhólm og aðra staði í Danmörku, en verkið var pantað í framhaldi af frumflutningi á verki Hafsteins Det døende barn á Nordic Music Days í Kaupmannahöfn árið 2015.

Fjölnir Ólafsson baritón hóf 10 ára gamall nám í klassískum gítarleik en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014. Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika í Þýskalandi og á Íslandi. Þar má nefna Ein Deutsches Requiem eftir Brahms, hlutverk Jesú í Matteusarpassíu Bachs, frumflutning á ljóðaflokki fyrir baritón og kammersveit eftir Tzvi Avni sem og fjölda ljóða- og einsöngstónleika. Á óperusviðinu hefur Fjölnir farið með fjölda minni hlutverka, m.a. í ,,Tosca” og ,,Macbeth”. Þá fór hann með aðalhlutverk í nýrri barnaóperu eftir Gordon Kampe, ,,Kannst du pfeifen, Johanna”, við Saarländische Staatstheater.

Fjölnir hefur unnið til verðlauna í ,,International Richard Bellon Wettbewerb 2011”, ,,International Joseph Suder Wettbewerb 2012” og ,,Walter und Charlotte Hamel Stiftung 2013”. Fjölnir hlaut verðlaun sem Bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum 2013 og er styrktarhafi Tónlistarsjóðs Rótarý.

Örn Ýmir Arason er fæddur árið 1988. Hann hóf nám á kontrabassa ungur að aldri og hefur sungið í kórum frá 7 ára aldri. Örn nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands hjá þeim Tryggva M. Baldvinssyni og Úlfari Haraldssyni og útskrifaðist þaðan vorið 2014. Einnig var hann þar í söngnámi hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Í dag starfar hann jafnt við söngstörf, tónsmíðar og hljóðfæraleik og er búsettur í Reykjavík.