Haustganga

Haustganga í dalnum, kyrrðin er líknandi og haustsvalinn eins og smyrsl á amstur dagsins og áhyggjur.
Trén standa vörð um Elliðaárnar eins og virðulegir öldungar sem eru búnir að lifa tímana tvenna, mörg vor og mörg haust.  Fegurðin óumdeilanleg, litirnir tjá nýtt tímaskeið eftir grænar vaggandi laufkrónur sumarsins.

Það er fegurð og líf allt í kring um okkur en við erum angistarfull yfir faraldrinum títtnefnda.
Þessu ætlar bara ekki að linna en kærleikur Guðs ber okkur áfram inn í framtíðina, lætur okkur huga að framtíðinni,
til móts við lausnir og líf fyrir samfélag og samferðafólk í samstöðu.
Við erum enn á göngu eins og þeirri sem lýst er í 23. sálmi gamla testamentisins,
„Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,“

Guð sem vakir í lífi  þínu.  Gengur með þér hvar sem þú ert stödd eða staddur,  líka þegar við vitum ekki í raun hvar við erum stödd.

Í viðtali í fjölmiðlum sl. sumar sagðist Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur enn vera að reyna að átta sig á hugsanlegum áhrifum heimsfaraldursins á eigin ritstörf.
„Það sem ég finn mest fyrir í mínum ritstörfum er að ég veit ekki enn þá alveg inn í hvaða heim ég er að skrifa……mig langar ekki að skrifa um pláguna og ég veit ekki enn þá hvernig heimurinn er orðinn.  Það á eftir að koma í ljós.  Hann er dálítið að fæðast.“

Undanfarnar vikur og mánuði er eins og eitthvað hafi týnst sem við eigum erfitt með að endurheimta.  Veraldarsýn sem við höfðum áður, öryggi, frelsi sem er skert í okkar þágu.  Sorgin okkar er yfir veiru sem gengur illa að hemja.  Það eru breyttir tímar, nýr heimur.
Veröld sem hefur endurritað þjáninguna en þarfnast að endurrita vonina.  Í bland við óþreyju eftir framtíð og betri tímum er það óttinn einmannakenndin, smitótti, úrræðaleysi í og með, verri efnahagur og atvinnuleysi.
Vonin er borin upp af því að bænir okkar heyrist.
Guð sem er með okkur alla daga allt til enda veraldar.  Guð heima í horninu þínu og horfir með þér út um eldhúsgluggann á haustið og fegurð þess, fylgir þér í hugsunum þínum um fólkið þitt, ástvini sem þú kannski getur ekki hitt, gengur hljóður við hlið þér í hressingagöngu dagsins, er með þér í sóttkvínni eða einangruninni.  Á lífsgöngunni eins og henni er lýst er í 84. sálmi gamla testamentisins.

“Sælir eru þeir menn sem finna styrk hjá þér
er þeir hugsa til helgigöngu.
Er þeir fara um táradalinn
breyta þeir honum í vatnsríka vin
og haustregnið færir honum blessun.
Þeim eykst æ kraftur á göngunni….“

Að breyta táradal í vatnsríka vin er vegur vonarinnar.  Eitt verður annað, tár verða að huggun, angist finnur öryggi, vonir kvikna.
Það er fegurð og líf allt í kring um okkur en við erum angistarfull yfir faraldri.

Smátt og smátt falla laufin öll og þá leita svargráar greinar trjánna eins og fingur til himins í bæn.   Bænin leitar með orðin okkar til móts við Guð.  Eins og friðarsúlan fallega sem leitar á heiðum, stjörnubjörtum himni til stjarnann, upp í óendanleika og friðarhöfn.
Við erum óhult .  Guð gengur með okkur á óvissutímum.