Velkomin í kirkju!

Guðsþjónusta og barnastarf verður í Hallgrímskirkju sunnudaginn 14. febrúar kl. 11. Hallgrímskirkja hefur verið opin allan COVID-tímann þótt guðsþjónustur og tónleikar hafi fallið niður í nær hálft ár og söfnuðurinn hafi orðið að sætta sig við rafrænt helgihald á netinu eða í sjónvarpi eða hljóðvarpi. En margir hafa þó komið í kirkjuna, sótt í kyrruna, kveikt á kertum og komið til bænastunda í hádeginu. En nú mega 150 manns koma til helgihaldsins og því verða guðsþjónustur alla sunnudaga, sunnudagaskólinn líka, barna- og unglingastarfið styrkt sem og fræðslustarfið. Upplýsingar eru á heimasíðu kirkjunnar hallgrimskirkja.is. Kirkjur þjóðarinnar eru opnar og verið velkomin í Hallgrímskirkju.

Guðsþjónusta og sunnudagaskóli  14. febrúar kl. 11.

Sigurður Árni Þórðarson þjónar fyrir altari og prédikar. Messuþjónar aðstoða. Organisti Björn Steinar Sólbergsson. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Umsjón sunnudagaskóla Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir.

Forspil

Fantasie, Es-dúr – Con moto – Camille Saint-Saëns

Sálmar

539 Opnið kirkjur allar

Fyrri ritningarlestur: Jesaja 57.14-15

Síðari ritningarlestur:  Heb 12.9-13

Sálmur  7  Ó, hvað þú, Guð, ert góður

Guðspjall:  Jóhannes 12.23-06           

Trúarjátning                                                                                                                     

Guðspjallssálmur:   813 Til Jerúsalem vor liggur leið

Prédikun

Kórsöngur eftir prédikun

Víst ertu Jesú, kóngur klár  Ps 27

Ísl. þjóðlag, raddsetning: Jón Hlöðver Áskelsson / Hallgrímur Pétursson

Almenn kirkjubæn og Faðir vor

Blessun                                               

Sálmur 712  Dag í senn, eitt andartak í einu

Eftirspil

Fantasie,  Es-dúr – Allegro di molto e con fuoco – Camille Saint-Saëns

Lexía: Jesaja  57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf. Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36 
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist.