Guð og við

Messa 6. sunnudag eftir þrenningarhátíð kl. 11. Sr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Þorvaldi Karli Helgasyni. Messuþjónar aðstoða. Félagar í Kór Hallgrímskirkju syngja. Organisti Matthías Harðarson. Skírður verður Stefan Gao Andersen. Tuuli Rähni, konsertorganisti helgarinnar, leikur eftirspil í lok messunnar. 

Lexía: Jes 43.1-3
En nú segir Drottinn svo, sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá flæða þau ekki yfir þig. Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér. Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég, Hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn. 

Pistill: Róm 6.3-11
Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi. Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann. Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. Dauður maður er leystur frá syndinni. Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa. Við vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. Með dauða sínum dó hann frá syndinni í eitt skipti fyrir öll en lífi sínu lifir hann Guði. Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.

Guðspjall: Matt 28.18-20
Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

 Mynd sáþ: Skírnarfontur Hallgrímskirkju. Listaverk Leifs Breiðfjörð.