Lífsorðin og hvað skiptir máli

Messa og sunnudagaskóli kl. 11. Þriðji sunnudagur í föstu. Prestur er Sigurður Árni Þórðarson. Messuþjónar aðstoða. Félagar í Kór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Barnastarfið er í umsjá Kristnýjar Rósar og Ragnheiðar.

Hvað gefur ramma fyrir líf og hamingju? Er það fjölskyldan, menning, siðgildi, peningar eða eitthvað annað? Á föstunni eru meginmálin skoðuð og hvað verður okkur til góðs í lífinu. 

Textaröð: B
Lexía: 2Mós. 20. 1-3, 7-8, 12-17 

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. ... Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. ... Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Pistill: Opb 2.10-11
Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða. ... Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

Guðspjall: Jóh 8.45-51
En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“

mynd/sáþ