Stabat Mater - Pergolesi

PERGOLESI – STABAT MATER
Skírdagur 6. apríl kl. 17 
Miðar / tickets: https://tix.is/is/event/14936/
Aðgangseyrir / Admission ISK 4.900
 
Ítalía var uppspretta flestra þeirra nýjunga í tónmáli og formgerð sem litu dagsins ljós á barokktímanum. Óperan, óratórían, sinfónían, sónatan og konsertinn, allt eru þetta fyrirbæri sem urðu til og þróuðust í Flórens, Róm, Feneyjum og öðrum menningarmiðstöðvum Ítalíu á 17. öld. Á þessum tónleikum hljómar tónlist eftir þrjá ítalska barokktónsmiði sem fæddust á seinni hluta aldarinnar og teljast allir meðal þekktari höfunda síðbarokksins.
Flutt verða verkin Sonate da chiesa op. 3, nr. 5, í d-moll eftir Arcangelo Corelli Adagio, í g-moll eftir Tomaso Albinioni og að lokum Stabat Mater eftir Pergolesi sem er stórkostlegt verk frá baroktímanum sem samið var við latneskt miðaldarljóð og fjallar verkið um sorg Maríu meyjar við krossfestingu sonar síns.
 
Fram koma:
Hallveig Rúnarsdóttir, sópran
Hildigunnur Einarsdóttir, messósópran
Kammersveit Reykjavíkur
Una Sveinbjarnardóttir, leiðari
Björn Steinar Sólbergsson, orgel

 

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Così fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Árið 2016 frumflutti hún hlutverk stúlku í óperu Kristians Blak, Ljós í ljóði í Færeyjum og árið 2018 frumflutti hún hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Í febrúar 2021 frumflutti hún svo óperuna Traversing the Void eftir Hildigunni
Rúnarsdóttur og Jo Truman í Hörpu.

Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópran hlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis.

Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp.

Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.

Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni, og aftur árið 2018 fyrir hlutverk sitt sem Gilitrutt og söng sinn á Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auk þess hlaut hún tilnefningu til sömu verðlauna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, árið 2016 fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fyrir árið 2020 fyrir flutning sinn á aríum Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir Michaelu og einnig árið 2017 fyrir Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart.
Hún er listrænn stjórnandi og stofnandi sönghópsins Cantoque Ensemble sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn á barokkverkum með upprunahljómsveitum, bæði hér á landi og erlendis.

Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.
Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.
Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að
uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.
Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum norðurlöndunum, í Evrópu og norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.
Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.
Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002 og Listamannalaun 1999 og 2015.

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 og heldur reglulega tónleika með kammertónlist allt frá barokktímanum til nútímans. Hún hefur frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld. Kammersveit Reykjavíkur er þekkt fyrir fjölbreytt verkefnaval og ræðst stærð hópsins af viðfangsefninu hverju sinni.
Á undanförnum árum hefur Kammersveit Reykjavíkur lagt áherslu á upptöku og útgáfu þeirra fjölmörgu tónverka sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana. Þessir geisladiskar endurspegla þá listrænu samvinnu sem Kammersveitin hefur átt við marga helstu listamenn landsins í gegnum tíðina. Má nefna diskinn I call it með kammerverkum Atla Heimis en það er þriðji diskurinn sem Kammersveitin gefur út með verkum hans, hinir eru Á gleðistundu (Smekkleysa 2001) og Tíminn og vatnið (CPO 2002). Hljómdiskurinn Langur skuggi (Smekkleysa 2015) er með kvartettum Leifs Þórarinssonar, Atla Heimis, Karólínu Eiríksdóttur, John Speight og Sveins Lúðvíks Björnssonar auk septett Hauks Tómassonar. Safndiskurinn Gríma (Smekkleysa 2016) með verkum Jóns Nordal, Karólínu, Jónasar Tómassonar, Gunnars A. Kristinssonar, Páls Pampichler, Úlfars Haraldssonar, Þuríðar Jónsdóttur, Huga Guðmundssonar og Sveins Lúðvíks Björnssonar sýnir Kammersveitina í margbreytilegu hlutverki sínu í íslenskum samtíma. Nýjasta geislaplatan er Windbells (Sono Luminus 2022) þar sem Kammersveitin leikur verk Huga Guðmundssonar.

Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og hefur starfað sem konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Una hefur margsinnis komið fram sem einleikari og leiðari hérlendis sem erlendis og einnig fæst hún við tónsmíðar. Hún hefur spilað á miklum fjölda upptaka, meðal annars með Björk, (Homogenic, Vulnicura, Fossora), Jóhanni Jóhannssyni og Kammersveitinni og leikið með Ensemble Modern, Útvarpshljómsveit Berlínar RSB og hljómsveit þýsku óperunnar. Hún hefur unnið með Pierre Boulez, Krystof Penderecki, Mstislav Rostropovich, Marek Janowski og Heinz Holliger, einnig Atla Heimi Sveinssyni, Helmut Lachenmann og fjölda samtímatónskálda. Fyrsta plata Unu Fyrramál kom út 2007, önnur plata hennar Umleikis með eigin tónsmíðum fyrir sólófiðlu 2014 og platan Last Song með Unu og Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara árið 2021. Una samdi tónlist við heimildamynd Höllu Kristínar Einarsdóttur Konur á rauðum sokkum og tónlist við Dúkkuheimili 2 í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur í Borgarleikhúsinu. Önnur verk hennar eru strengjakvartettinn Opacity op. 12, El Desnudo, Missir, Myrkur og regn, Gátt, Sléttubönd og nú síðast Vitni ásamt Óbó, Ólafi Birni Ólafssyni fyrir Gjörningaklúbbinn, en það var frumflutt í Listasafni Íslands í mars 2022. Una er stofnfélagi í Strokkvartettinum Sigga, Siggi String Quartet og kennir við LHÍ og Nýja Tónlistarskólann.