Fréttir

Öskukross á enni á öskudegi

Fjöldi fólks fékk kross á enni í Hallgrímskirkju í dag. Þrjátíu og tvö voru í morgunmessu í kór kirkjunnar. Ekki aðeins var gengið til altaris heldur voru öll signd með öskukrossi. Eftir messu stóðu svo prestar kirkjunnar og kirkjuverðir við kórtröppur og tóku á móti ferðafólki sem kom í kirkjuna. Mörg þeirra þekktu táknmál öskudags, að öskukrossinn er ekki aðeins tákn iðrunar heldur minnir á fagnaðarerindið um Jesú Krist. Djúp kyrrð myndaðist í kirkjunni. Þegar fólk hafði gengið fram og notið helgiþjónustunnar settist fólk gjarnan, bað og íhugaði. Tár sáust á hvörmum nokkurra. Mörg stoppuðu við ljósberann, kveiktu bænaljós og skrifuðu bænir og skildu eftir. Önnur tendruðu friðarkerti. Hvort sem fólk er íslenskt eða kemur að utan er það pílagrímar á lífsferð. Þau sækja í helgidóminn – og í dag fóru mörg þeirra með kross á enni.

Biðjum fyrir friði í Úkraínu

Fjöldi fólks kemur í Hallgrímskirkju á hverjum degi og tendrar kertaljós og biður fyrir öllum þeim sem líða vegna stríðs í Úkraínu.