Allra heilagra messa
Sunnudagur 02.11.'25
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikaði
Lexía: Jes 60.19-21
Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.
Allir þegnar þínir eru réttlátir,
þeir munu ævinlega eiga landið.
Þeir eru garður Drottins sem ég hef gróðursett,
handaverk hans
sem birtir dýrð hans.
Pistill: Opb 7.9-12
Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.
Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Matt 5.1-12
Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.448
Hver er hræddur?
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Um þessar mundir þ.e. um þessa helgi stendur hrekkjavakan yfir. Gangi maður um götur borgarinnar hefur mátt sjá alls kyns kynjaverur á ferli sumar reyndar ekkiháar í loftinu en útlitið ekki frýnilegt og svo hefur kannski verið bankað á dyr og úti stendur flokkur illþýðis sem heimtar nammi ellegar verði hrekkurgerður eigi allfagur.
Miðlarnir bjóða upp á mis hryllilegar hryllingsmyndir allt eftir aldri og fyrri störfum.
Það er merkilegt hvað við sækjumst í hæfilegan skammt af hræðslu, það er eitthvað við það að kíkja fram af hengiflugi og finna fiðring óttans hríslast um sig. En ekki of mikið, ekki raunverulegan ótta, ekki hættu þar sem líf og dauði vegast á.
Það er ekkert fyndið eða eftirsóknarvert við slíka angist, slíka örvæntingu og lamandi ótta. Hljóðið í sprengju sem nálgast en enginn veit hvar lendir í borginni, kannski á húsi og heil fjölskylda liggur í valnum. Þetta heyrum við í fréttum utan úr heimi svo til hvern dag.
Hver er hræddur? Víst er að þau eru mörg sem þekkja óttan mætavel og jafnvel of vel, lamandi kvíðann, efasemdir um eigin getu og gáfur. Óttann við að verða undir í skólanum, í vinnunni, í félagsstarfinu.
Við óttumst veikindi og vaxandi aldur, dvínandi getu. Lækkandi laun, við óttumst dauðann.
Samt hefur það alltaf verið skemmtiefni að láta einhverjum bregða illilega reka upp ramakvein af ótta og skelfingu og svo fara allir að hlægja.
Það er gott og heilsusamlegt að hlægja og hafa gaman en staðreyndin er samt alltaf sú að víða um heim og jafnvel allt um kring þá finnast aðstæður og einstaklingar sem alls ekki er hlátur í hug. Sums staðar heilar þjóðir sem lifa við stöðuga ógn og ótta og skelfingu .
Þessi helgi er samt ekki bara hrekkjavaka hún á sér líka langa sögu í öðru samhengi sem er hið trúarlega. Messa allra heilagra og allra sálna, voru einu sinni í tvennu lagi og tóku á mismunandi þáttum en nú í okkar nútíma þá er þessi tími helgaður minningu þeirra sem kvatt hafa þetta líf, eru horfin á braut, eru ekki lengur meðal síns fólks og eftir stendur fólk sem sorgin lamar og dregur niður, byrgir sýn til þess sem uppörvar og gleður.
Þetta er líka tími frá fornu fari þegar togast á skemmtun og tregi, gleði og sorgir og það er kannski táknrænt um þessar mundir þegar vetrarkuldi og myrkur eru um það bil að ná yfirhöndinni, síðustu forvöð að gera sér glaðan dag en um leið allavega hér fyrr á öldum kvíði fyrir komandi tíma, harðindum og hungri.
Guðspjall dagsins eru hinn kunnu sæluboð, upphafsorð hinnar miklu fjallræðu frelsarans.
Þar nefnir hann til sögunnar hina ýmsu hópa fólks sem eiga undir högg að sækja af ýmsum ástæðum, fólk sömuleiðis sem lendir í hremmingum vegna baráttu sinnar fyrir réttlæti og friði, fólk sem velur að berjast, ekki bara fyrir eigin hönd og sinna fyrir bættum efnalegum kjörum réttlæti og friði.
Ég giska á að þetta sem þarna er nefnd sé ekki hugsað sem tæmandi listi heldur að fremur séu teknir fyrir nokkrir hópar sem skoða má sem hluta fyrir heildalla þá stóru heild sem ekki er njóta fullra lífsgæða, þau sem verða undir og fyrir aðkasti, njóta ekki virðingar og réttinda.
Og hvað segir Jesús við þau? Þið eru blessuð, þið eruð sæl í Guði og vernd hans. Hann sér ykkur, hann þekkir ykkur hann stendur með ykkur. Þannig opnar hann ræðu sína og það sem kalla má stefnuræðu, þar sem meginþræðirnir í boðun hans eru dregnir saman.
Ræðunni lýkur svo þar sem hann líkir sínum leiðbeiningum og það sem hann er að birta heiminum, við bjarg sem hægt sé að reisa trausta byggingu á. Líkir því við trausta undirstöðu til að standa á í ótryggum heimi.
Ræðuna byrjar hann semsagt á þessum hughreystandi orðum, þið eru sæl þið njótið blessunar Guðs. Má þá ekki einmitt segja að tilgangurinn sé að draga úr ótta og kvíða.
Það er ekki lítils virði ef slíkt tekst. Það er útbreidd kenning að undirrót ofbeldis og ágirndar sé einmitt ótti, ótti við að verða undir, ótti við að hafa ekki neitt til matar. Jafnvel að reiðin sé líka í grunni sínum óttaviðbragð. Viðbragð þess sem þarf og fær jafnvel yfir sig auka orku, orku til að slá frá sér til að öskra og fæla burt það eða þann sem ógnar.
Það var víst stundum sagt hér fyrr á árum þegar böll voru í bæjum og sveitum og vínmenning nokkuð öðruvísi en nú, en þá gerðist það oftar en ekki að brutust út slagsmál. Það merkilega var að sjaldnast voru það stóru og sterku mennirnir sem tóku þátt í slíku. Kannski var það þannig að þeir hvíldu í sínu, vissu af afli sínu og styrk þurftu því ekkert að sanna.
En það er á vissan hátt einmitt það sem Jesús er að boða með sínum sæluboðum það er ákveðið öryggi, vitund um að þú ert ekki einn eða ein í þínu stríði, hvað svo sem það er. Þarna eru nefnd til sögunnar bæði einstaklingar sem berjast fyrir réttlætinu á einhvern hátt og svo þau sem gert er að þola þungbærar aðstæður líkt og syrgjendur og svo líka þau sem glíma við fátækt.
Nokkuð hefur verið rætt um þann mun sem er á sæluboðum hjá guðspjallamönnunum Lúkasi og Matteusi. Lúkas talar bara um fátæka meðan Matteus talar um fátæka í anda. Sumir hafa látið sér detta í hug þá túlkun þeirra orða að um sé að ræða þau sem á einhvern hátt er einhverju áfátt í andlegum efnum. Vel má vera að svo sé en samt má færa rök fyrir því að margir séu fátækir í anda jafnvel þótt ekki sé um að ræða neina áþreifanlega fátækt eða skort á getu.
Það er einmitt vandamál margra í nútímanum að jafnvel þótt fólk líði engan skort, þá finnst því það aldrei hafa nóg. Það er kannski viðeigandi lýsing að það sé fátækt í anda. Er þannig og þessvegna reiðubúið að sölsa undir sig miklu meira en öðrum fellur í skaut. Skirrast ekki við að nýta sér aðstöðu sína til að greiða til dæmis fátækum útlendingum lúsarlaun til að hámarka eigin hagnað. Finnst fullkomlega eðlilegt að stinga í eigin vasa arði af rekstri sem oftast er tilkominn af sameiginlegu framlagi þeirra sem starfa. Leita allra leiða til að komast undan því að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra þarfa samfélagsins. Getur verið að þarna sé um að ræða frumstæð viðbrögð byggð á ævafornum ótta við að eiga ekki nóg til matar?
Syrgjendur fundust á tímum Jesú og þeir finnast sannarlega nú til dags. Tilveran býr yfir ótal hættum og stöðugt er fólk að falla frá sem er svo lánsamt að eiga fjölskyldu og vini sem syrgja þau. Fólk sem finnur til og saknar og grætur og á um sárt að binda þegar einhver fellur frá þeim, nákominn. Það tómarúm sem myndast við andlát náins einstaklings er vandfyllt og skerandi en þá er einmitt mikilvægt að leitast við að fylla það af ljósi og von og vitund um tilvist þess sem farinn er úr þessar jarðvist. Setja sér fyrir hugskotssjónir það sem trúin boðar að kærleikans Guð veiti þeim viðtöku er kveðja og muni búa þeim stað.
Þegar við minnumst þeirra sem farin eru þá er líka mikilvægt að lyfta upp þakklætinu. Þakklætinu fyrir það sem þau sem nú eru horfin á braut gáfu okkur og voru okkur, má þar einu gilda hversu langur tíminn hefur verið, í þessu samhengi eru árin, dagarnir afstæð mælieining. Fyrir þér er hver dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir. Minningarstund er þakkarstund.
Þessi von hins eilífa lífs er víða áréttuð í ritningunni, vonin um nýjan himinn og nýja jörð og dæmi hennar má til dæmis sjá í pistli dagsins úr opinberunarbók Jóhannesar, myndræn lýsing á flokki fólks úr öllum heimshornum sem syngja saman lofsöng drottni til dýrðar.
Þessi lofsöngur kallast á við þann vonar og hvatningarboðskap sem spámaðurinn Jesaja flytur sínu fólki, þjóð sem þolað hafði ólýsanlegar þrengingar. Drottinn verður þér eilíft ljós og sorgardagar þínir á enda.
Hver er hræddur? Þessa spurningu bárum við upp fyrir þennan dag og þessa helgi. Og svarið hlítur að vera við erum öll hrædd og við eigum að vera hrædd við margt. Forfeður okkar og mæður komust af, einmitt vegna þess að þau kunnu að forðast hættur ogþað kenndu þau sínum afkomendum, hvar hætturnar væru og það gerum við enn og eigum að gera.
Öðru máli gegnir um það sem við gætum kallað tilvistarótta og viðvarandi kvíða sem liggur eins og mara yfir svo mörgum og rænir styrk og gleði. Inn í þetta samhengi koma orð frelsarans verið óhrædd því ég mun gefa ykkur frið. Ég er með ykkur allt til enda veraldar.
Í ljósi trúarinnar á Jesú Krist þá erum við aldrei ein, hann gengur með okkur og leiðir gegnum lífið og að endingu gegnum hið gullna hlið er aðskilur líf og dauða. Óttist eigi, ég hef sigrað heiminn.
Dýrð sé guði föður og syni, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.