Tónlist

Björn Steinar Sólbergsson er organisti Hallgrímskirkju og tónlistarstjóri kirkjunnar. Steinar Logi Helgason er kórstjóri Hallgrímskirkju og stýrir Kór Hallgrímskirkju.

Björn Steinar Sólbergsson var ráðinn til Hallgrímskirkju sem organisti árið 2006. Björn Steinar er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann stundaði tónlistar­nám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Framhaldsnám á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár. Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands,  Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfs­sonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS.

Steinar Logi HelgasonSteinar Logi Helgason hóf störf sem kórstjóri Hallgrímskirkju í ágúst 2021. Steinar Logi lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja Tónlistarskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og kláraði þar kirkjuorganistapróf og lauk síðar bakkalársgráðu úr Kirkjutónlistarbraut Listaháskóla íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði meistaranám í ensemble conducting við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan í árslok 2020. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum. Hann var tilnefndur ásamt Cantoque ensemble sem tónlistarhópur ársins 2021 í flokki Sígildrar-og samtímatónlistar.