Mótettukórinn

Mótettukór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 1982. Félagar í kórnum eru um sextíu talsins. Kórinn flytur aðallega kirkjuleg kórverk án undirleiks frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar, en leggur sérstaka áherslu á tónlist tengda séra Hallgrími Péturssyni og sálmum hans. Auk þess flytur kórinn stærri kórverk ýmist með hljómsveit eða orgeli. Má þar nefna stórar óratóríur og passíur eftir Bach, Händel og Mendelssohn, en líka nýrri verk eftir Maurice Duruflé, Frank Martin og Arvo Pärt. Þá hefur kórinn frumflutt fjölda íslenskra tónverka, m.a. óratóríur eftir Áskel Másson (Ceselía), Hafliða Hallgrímsson (Passía), Hauk Tómasson (Flétta), John A. Speight (Barn er oss fætt) og Þorkel Sigurbjörnsson (Páskaóratóría).

Mótettukórinn syngur við helgiathafnir í Hallgrímskirkju og heldur árlega jóla- og vortónleika. Kórinn hefur farið í fjölmargar tónleikaferðir, m.a. sumarið 2001 í tveggja vikna ferð stranda á milli í Kanada. Kórinn hefur tekið þátt í fjölda tónlistarhátíða, m.a. Listahátíðinni í Bergen, Wiener Festwochen og norrænum kirkjutónlistarmótum í Osló, Reykjavík og Gautaborg. Kórinn vann til verðlauna í alþjóðlegu kórakeppninni í Cork á Írlandi árið 1996. Þá hefur kórinn sungið á vegum Listahátíðar í Reykjavík og á öllum Kirkjulistahátíðum í Hallgrímskirkju.

Kórinn hefur sungið inn á marga geisladiska og hefur m.a. fengið mikið lof erlendra gagnrýnenda bæði austan hafs og vestan fyrir disk með sálumessu Duruflés. Þá hafa einnig komið út geisladiskar hjá BIS í Svíþjóð þar sem kórinn syngur verk Jóns Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vorið 2003 gaf finnska útgáfufyrirtækið Ondine út hljómdisk með óratóríunni Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson í flutningi Mótettukórsins, einsöngvara og kammersveitar. Diskurinn, sem tilnefndur var til Íslensku Tónlistarverðlaunanna, var til umfjöllunar í virtum tónlistartímaritum víðs vegar um heim og hlaut alls staðar mikið lof.

Nýjustu diskar kórsins eru Ljósið þitt lýsi mér (2010), með nýrri íslenskri kirkjutónlist, en honum fylgir einnig myndband (DVD) og jóladiskurinn Heilög stund á jörð (2011), tónleikaupptaka frá jólatónleikum kórsins með Kristni Sigmundssyni árið 2010. Nýr geisladiskur með tónleikaupptöku af frumflutningi tónverksins Fléttu eftir Hauk Tómasson kemur út í nóvember 2012. Flytjendur eru auk Mótettukórsins, Schola cantorum og Kammersveit Reykjavíkur.