Schola Cantorum

Kammerkórinn SCHOLA CANTORUM var stofnaður árið 1996 af stjórnandanum Herði Áskelssyni. Í kórnum eru að jafnaði 12-16 atvinnusöngvarar. Kórinn hefur verið mikilvirkur í frumflutningi tónverka eftir íslensk tónskáld auk flutnings á endurreisnar- og barokktónlist. Hann hefur haldið tónleika í mörgum Evrópulöndum, Spáni, Ítalíu, Þýskalandi, Frakklandi og Finnlandi.

Schola cantorum gaf út hljómdiskana Principium (1999) með tónlist 16. og 17. aldar og Heyr himna smiður (2001) sem geymir íslenska samtíma­tónlist. Einnig tók kórinn þátt í heildar­útgáfu á hljómsveitarverkum Jóns Leifs ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á vegum sænska útgáfufyrirtækisins BIS. Á meðal verka Jóns Leifs sem kórinn syngur á þessum diskum eru Hafís, Edda og Baldur. Árið 2010 kom svo út verkið Hallgrímspassía eftir Sigurð Sævarsson með Schola cantorum, Caput og einsöngvurum.

Þá má geta samstarfs Schola cantorum við Björk, Sigur Rós og sænska dúettinn Wildbirds and Peacedrums en kórfélagar leika stórt hlutverk á hljómdiski þeirra Rivers (2010). Schola cantorum var útnefndur tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2006 og ári síðar var kórinn tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Nýjasti diskur kórsins, Meditatio, kom út sumarið 2016, hefur fengið mikið lof en þar syngur kórinn margvísleg verk frá 20. og 21. öldinni. 

Sjá heimasíðu kórsinswww.scholacantorum.is