Að þora er hugrekki

26. maí 2021


Prédikun Grétars Einarssonar 2. í hvítasunnu 2021.

„Kom, andi Guðs, ástarbrú,

með æðstri náð uppfylli þú

hvert lifandi hjarta, hug og geð,

og heita ástsemd kveik þeim með.“

Hvítasunna, hátíð birtu og úthellingu kærleiksanda, anda umsköpunar og endurnýjunar og þannig andi breytinga. Sólin hlýjar í skjólinu þó vindurinn sé kaldur, allt grænkar þó hægt fari. Og loksins sjáum við vonandi fyrir endann á baráttunni við veiruna skæðu, sem lagt hefur allt okkar venjulega líf til hliðar, í bili að minnsta kosti. Svo verðum við að vona og sjá hvort og þá hvenær fullnaðarsigur vinnst. Þessi tími hefur komið nær öllu úr skorðum sem hugsast getur í okkar tilveru. Margir tala um að við þurfum sem fyrst að geta komið lífinu aftur í samt lag og vísa þá oft til þess tíma sem var áður en veiran fór á kreik. Ég er ekki sannfærður um að sá efnisfyllti tími sem við lifðum þá sé endilega það sem við ættum að keppa að aftur. Ég trúi því að við þurfum nýja tíma með breyttum áherslum og nýjum hugmyndum. Ég hef, rétt eins og þið, upplifað, séð, heyrt og lesið um það sem svo sannarlega skiptir alla mestu máli og tekið hefur verið frá okkur þennan tíma; nándin við þá sem okkur þykir svo vænt um. Að geta ekki sýnt kærleika og ást við fólkið okkar. Að geta ekki glaðst með fólkinu okkar og að geta ekki átt kveðjustund með þeim sem farnir eru. Að geta ekki verið saman í gleði og sorg, líka sem samfélag.

„Geisla þú, sál, mót sól þíns lífs og fagna,

sá, það er vor á jörð, sem Drottinn gefur,

vittu það, barn, og vakna þú, sem sefur,

vitjar þín andi Guðs og skín um þig,

andar nú sinni elsku inn í þig.”

Og hvernig svo sem við erum; svona og hinsegin og allskonar, þá erum við að sönnu börn Guðs, skírð í einum anda, einn líkami, saman, lifandi í náð og kærleika Guðs og heilögum anda er úthellt yfir, fyrir og í okkur til að vera sá líkami og aðeins þannig erum við kirkja. Andinn kann að þyrla upp rykinu sem við höfum ekki séð og kannski um stund byrgir okkur sín, en blæs því svo burt svo geislar alls þess sem gefur líf ylji okkur og gefi okkur nýja sýn svo endurnýjun geti  átt sér stað. Okkar er að taka á móti andanum, virkja þann kraft og kærleika í lífi okkar fyrir okkur sjálf og alla aðra, láta andann umvefja okkur og umfram allt að lifa í honum.

Sú stórfenglega skáldkona og mannréttindafrömuður Maya Angelou sagði:

„Ég trúði því að til væri Guð vegna þess að amma mín og síðar aðrir fullorðnir sögðu mér það. En þegar ég fann að ég ekki aðeins vissi að til væri Guð heldur að ég væri barn Guðs, þegar ég skildi það, meðtók það, meira en það, þegar ég innbyrgði það í líf mitt, varð ég hugrökk.”

Breytingar kalla á hugrekki og að sönnu lifum við slíka tíma í meira mæli en oft áður, mörg okkar persónulega, en líka sem samfélag í öðru og stærra samhengi á mörgum sviðum. Að hverfa frá því sem var, viljug, óviljug eða jafnvel nauðug, því sem við vorum eða erum vön, sem okkur þykir vænt um, sem við töldum rétt en var kannski rangt, hvort heldur er í okkar persónulega lífi eða sem hluti af samfélagi getur verið ansi flókið. Að þora að horfast í augu við breytta tíma og gera upp þær margslungnu tilfinningar sem slíku tengjast er hugrekki. Og að taka móti því sem er ókomið og oft harla óljóst er hugrekki. Að aðlagast hinu nýja í umhverfi, lífi eða hugsun er hugrekki. Að þora er hugrekki. Í umbreytingum og umróti nýrra tíma getur verið flókið að fóta sig og þá er betra hófstillt geð en ókyrr hugur, að greina hismið frá kjarnanum. Það er vandalítið og ber ekki vott um hugrekki eða visku, að ausa úr skálum reiði sinnar, oftar en ekki á netmiðlum, og rífa niður í stundarheift eða óuppgerðri eftirsjá. Að þyrlast upp í vindinum í stað að bíða eftir logninu. Það étur hverja sál upp til agna og sviftir hverja manneskju fegurð sinni.

Enginn er skyldugur umfram getu og áhrifaþættir í lífi okkar eru óteljandi. Stundum er eins og við séum toguð og tætt einhverskonar “haltu mér, slepptu mér, talaðu, þegiðu”- leik hulduafla. Við upplifum okkur oft máttlítil til breytinga, mörg okkar eru þolendur frekar en gerendur, erum oft meðvitað eða ómeðvitað meðvirk í ölduróti samtímans og í okkar persónulega lífi. Að sönnu eru margir atburðir úr okkar höndum. En það væri ekki úr vegi að við litum í lófa okkar og horfum í andlit okkar á hverjum morgni, áður en við kveikjum á tölvunni eða rýnum í símann til að lesa fréttir og svara skilaboðum, eða áður en við förum úr húsi og spyrjum okkur: „Hvaða góðverk get ég unnið með höndum mínum í dag? Hvað getur brosið mitt áorkað í dag? Hvað get ég skrifað, sagt, sungið eða téð sem er gott og uppbyggilegt fyrir mig og alla þá sem í kringum mig eru?” Því kærleikurinn er vandasamur og kærleikurinn krefst hugrekkis því kærleikurinn syndir á móti straumnum. Kærleiksverkin vekja ekki alltaf mikla athygli en þá það gerist þá vekur það oft furðu og aðdáun. Er það ekki svolítið skrítið? Því eru ekki kærleiksverkin á hverjum degi miklu fleiri en vondu verkin?

„Enginn getur orðið bjartur og skínandi, - enginn getur orðið sól - nema hann læri að gefa, gefa án afláts, án tillits til endurgjalds. En hann verður að læra að gefa - af sjálfum sér. Hann verður að rækta akur sálar sinnar svo vel, að hann sé ævinlega grænn og gróandi, hversu mikla uppskeru, sem aðrir hafa þaðan á burt með sér. Hann verður að vera í hverri gjöf, sem hann gefur, en vera þó bezta gjöfin sjálfur. Enginn biður sólina um annað en að vera hún sjálf, - enginn biður hana um annað en að skína. - Þannig skyldir þú kosta kapps um að vera, að allir menn óskuðu, að þú héldir áfram að vera hinn sami af því að það, sem kalla mætti eðlisgjöf þína, væri hið bezta, er þú gætir gefið. Sólareðlið er fólkið í því, að vera öðrum til yndis og blessunar - aðeins með því að vera til! - - “

Hver dagur sem okkur er gefinn í endurnýjaðri náð Guðs er dagur heilags anda. Hvað svo sem á dynur þá höfum við oftast um það val með huga okkar, orðum og verkum, að láta daginn í dag, og alla daga vera dag heilags anda, dag breytinga, kærleiks, friðar og vonar í stóru sem smáu. Þannig hefur allt verið til sett.

Ég bið þess, óska og vona að heilagur andi kærleika, friðar og vonar haldi áfram að starfa í þér og í okkur öllum í dag og alla daga.

„Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta,

heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar,

uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar,

ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig,

anda þú þinni elsku inn í mig.”

Amen.

Prédikun Grétars Einarssonar í orgelandakt í Hallgrímskirkju 2. í hvítasunnu, 24. maí, 2021.

Sálmurinn „Komm, Heiliger Geist” eftir Martein Lúther var þýddur á íslensku og birtur í Hólabókinni 1589. Halldór Hauksson endurorkti í anda Hólabókarþýðingarinnar. Birt hér með leyfi þýðandans.

Leiftra þú sól ... (sálmur 724 í sálmabók þjóðkirkjunnar)/Sigurbjörn Einarsson

Lausleg þýðing; Grétar Einarsson.

Úr bókinni Söngur lífsins eftir Grétar Fells.

Leiftra þú sól (sálmur 724)/Sigurbjörn Einarsson