Föstudagurinn langi

29. mars

Föstudagurinn langi

Krossinn er eitt sterkasta tákn kristinnar trúar. Hann er gerður úr tveimur hlutum, láréttum og lóðréttum öxli. Það er einmitt það sem skýrt endurspeglar þá merkingu og boðun sem hann stendur fyrir, því í honum felst viss þversögn.

Krossinn var verkfæri sem rómverjar notuðu til að taka uppreisnarmenn af lífi, á sem þjáningarfyllstan hátt. Sjötíu árum fyrir Krist voru 6000 þrælar krossfestir meðfram hinum fræga vegi Via Appia eftir uppreisnartilraun.

Þannig er krossinn tákn þjáningar og ósigurs. Sögulegt tákn en um leið klassískt, sígilt og á sér því miður tilvísun á öllum tímum. En um leið er hinn lóðrétti ás sem vísar til himins, í augum kristinna manna tákn um sigur lífsins, þann einstaka atburð sem varð til þess að ný trúarbrögð urðu til, kristin trú. Upprisa Jesú Krists frá dauðum, staðfestir fyrir kristnum mönnum að lífið er sterkara en dauðinn. Að ofbeldi og grimmd er aldrei rétta leiðin, að aðeins með kærleika og sátt er von um sannan frið.

Meðfylgjandi mynd tók: Sveinbjörg Rósa Sumarliðadóttir

Myndin er af hökkli eftir listakonuna frú Unni Ólafsdóttur en hökkullinn var gefinn Hallgrímsskirkju fyrir föstudaginn langa til minningar um listakonuna. Hann er svartur ig saumað í hann með gullþræði og hör fyrsta vers Passíusálmanna og sex myndir af píslargöngu Krists.

Hallgrímsskirkja — Þinn staður á föstunni