Welcome
Hallgrímskirkja is a Lutheran parish church in the heart of Reykjavík and the largest church in Iceland.
Sermons
Opening hours
Send in a prayer
Donations
Book appointment with a priest
Book a ceremony
News & announcements

by Sólbjörg Björnsdóttir
•
15 January 2026
Jesúbarn á flótta Messa 4. Janúar. 2026 Sunnudag milli nýárs og þrettánda Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 61.10-62.3 Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins, sveipaði mig skikkju réttlætisins. Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn og brúður býr sig skarti sínu og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn og garður lætur frækornin spíra mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum. Sökum Síonar get ég ekki þagað og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi og hjálpræði hennar logar sem kyndill. Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt og allir konungar dýrð þína, þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. Pistill: 1Jóh 3.1-3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn. Guðspjall: Matt 2.13-15 Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Nú er hátíðartíminn að baki og á morgun tekur við óbreytt heil, vinnuvika. Lífið flestra fellur í fastari skorður skóli, vinna, skyldur og verkefni. Í flestum tilvikum er það á vissan hátt fagnaðarefni, það er vissulega gott að gera sér dagamun, hátíðir lífga upp á og gera rof í hversdaginn og eru mikilvægar. En það er eins og stundum er tekið til orða, það eru ekki alltaf jólin. Enda ef svo væri, færi þá ekki allur glansinn af þeim? Erum við ekki flest þannig gerð að vilja og þurfa að hafa einhvers konar viðspyrnu í lífi okkar takast á við verkefni og finna sig þannig verðugan verkalauna sinna, hvernig svo sem þau eru tilkomin eða metin. Stöðugt fjölgar þó í þeim hópi sem ekki er gert að sinna utanaðkomandi skyldum eftir föstum ramma skilgreinds vinnutíma heldur geta mótað að miklu leyti sinn lífsstíl, hvernig tímanum er varið og skipt milli skyldustarfa og annars. Að vissu leyti gerir þetta frelsi meiri kröfur til eigin skipulags og sjálfsaga. Helgihaldið í kirkjum landsins heldur sínum takti og í lífi sumra er það sem betur fer dýrmætur rammi þar sem sækja má andlega uppörvun og stuðning. Lifandi trúarlíf hefur löngum einkennst af ákveðum takti eða hrynjandi í lífinu. Við höfum flest heyrt af taktföstum tíðasöng í klaustrum svo dæmi sé tekið. Í umhverfi okkar kirkjudeildar er ekki að finna þess háttar kröfur en samt finna flest okkar hversu dýrmætt það er að halda sig við vissa reglu, svo sem eins og bæn að kvöldi og að morgni og síðan þátttaka í samfélagi um trú sína svo sem eins og að mæta til messu á sunnudögum eða í eitthvert helgihald eins og kyrrðar eða bænastundir eða morgunmessur líkt og við ástundum í þessari kirkju og á sinn trúfasta hóp. Eg held megi segja að fastur taktur eða rytmi í lífinu sé okkur flestum mikilvægur, jafnvel nauðsynlegur. En það getur kostað töluverðan sjálfsaga að halda sig við það sem maður samt veit að er gagnlegt svo sem eins og að ástunda hreyfingu af einhverju tagi. Allt sem hér hefur verið nefnt sem jákvætt getur líka í sumum tilfellum gengið útí öfgar þegar það verður að stífu lögmáli sem ekki má víkja útaf og ef það gerist þá verður uppnám og örvænting. Um þetta gildir sem annað að allt er best í hófi. Guðspjallið sem við heyrðum hér lesið segir frá því þegar nauðsynlegt reyndist að flýja með barnið litla í fjarlægt land til að forða því undan ofsóknum. Hin fagra kyrralífsmynd af barni í jötu og hirðum og vitringum sem koma og votta virðingu sína og aðdáun víkur nú fyrir sótsvörtum veruleikanum, heimi þar sem grimmd og miskunnarleysi ræður ríkjum og óöryggi og óvissa mótar lífið. Um leið er okkur kippt inn í veruleika dagsins í dag þar sem stórum hluta mannkyns er gert að lifa við svipaðar aðstæður. Stjórnvöld sem deila og drottna og láta sér í léttu rúmi liggja lífskjör þegnanna og hafa það eitt í huga að gæta þess að þeir ógni ekki þeirra eigin stöðu og tökum þeirra á stjórnartaumum. Þannig hefur þetta verið um aldaraðir og það má segja að hugmyndin um lýðræði og að þau sem veljast til að fara með völd geri það í umboði þegnanna sé tiltölulega ný. Ekki nóg með það heldur stendur hún víða völtum fótum. Virðingin fyrir mannslífinu er nánast engin, umburðarlyndi í lágmarki. Tilgangurinn helgar öll meðöl. Jafnvel okkar heilaga ritning er tekin og látin þjóna annarlegum sjónarmiðum, trúverðugleiki trúarinnar er nýttur til að lyfta upp úreltu gildismati og mannskilningi sem ganga gegn grundvallarhugsjónum um frelsi mannsins og virðingu fyrir lífi og lífsstíl fólks. Það er vissulega rétt að enginn getur eignað sér texta ritningarinnar og þar er mörg orð að finna, jafnvel sjónarmið sem við myndum engan veginn taka undir. Má þar nefna umræður um dauðarefsingar, þrælahald, heilagt stríð, eignarétt húsbóndans yfir öllu sem undir hans þaki býr, eiginkonum, börnum, þrælum og húsdýrum. Það sjónarmið sem kristið fólk hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir að þurfi að beita í þessu samhengi er að lesa biblíuna, eins og stundum er sagt, gegnum kross Jesú krists. Jesús kristur og kærleiksboðskapur hans verður þannig að nauðsynlegum túlkunarlykli þegar þessi mörgu rit eru lesin og rannsökuð og greind. Rit sem flest eiga sér langa mótunar og ritunarsögu eru orðin til við mismunandi aðstæður og er ætlað að þjóna alls kyns hlutverkum. Það á við í þessu samhengi líkt og á eiginlega við í öllum aðstæðum að það er engin einföld lausn í boði, lífið allt og áskoranir þess er flókið verkefni og allar tilraunir til að búa til eitthvað einfalt patent er í besta falli blekking. En er þá ekkert framundan eða í boði nema eilíft strit og barátta? Eiginlega ekki, það verður alltaf barátta að halda á lofti gildum mannúðar og kærleika en það er og getur aldrei orðið eins manns barátta, það sem mestu skiptir í þessu samhengi er sú staðreynd að betur sjá augu en auga og með því að hjálpast að með því að treysta hvort öðru og virða hvort annað þá er hægt að lyfta endalausum grettistökum. Í þessu samhengi má minnast þess að á þessu ári munum við fagna 40 ára vígsluafmæli þessa stórkostlega helgidóms sem við erum saman komin í en þá voru liðin rétt rúm fjörutíu ár frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þá voru liðin um 30 ár frá því fyrst komu fram hugmyndir um að reisa kirkju til heiðurs minningu Hallgríms Péturssonar. Það var 1914 þegar liðin voru 300 ár frá fæðingu hans sem fyrst var farið að ræða þessi mál. Staðreyndin er að þessar hugmyndir mættu allt frá upphafi nokkrum mótbyr og jafnvel eftir að hafist var handa við bygginguna þá var andóf uppi. En alltaf var þó öflugur hópur sem ekki lét deigan síga og hélt áfram og hugmyndin átti sömuleiðis víðtækan hljómgrunn úti í þjóðfélaginu. Þannig að þegar húsið var risið og vígt þá kom í ljós að um það bil 2 þriðju kostnaðarins við bygginguna var í formi frjálsra framlaga. Félög og einstaklingar af landinu öllu lögðu þessari hugsjón lið. Það er því ekki af ástæðulausu sem þess kirkja er gjarnan kölluð þjóðarhelgidómur. Þannig má segja að þetta glæsilega hús sem nú er svo mikið lofað um heiminn allan, sé fagur vottur þess sem hægt er að koma í framkvæmd þegar fólk hjálpast að, vinnur saman af örlæti og kappi. En þrátt fyrir alla sína fegurð þá er þetta samt í eðli sínu fyrst og fremst skjól, skel til hlífðar fyrir fólk sem kemur saman til að biðja, til að syngja saman, til að heyra lesið út okkar helgu bók, uppbyggjast í samfélaginu og styrkjast í viðleitni sinni til að verða betri manneskjur og láta gott af sér leiða. Guðspjallið birtir okkur mynd af fjölskyldu á flótta, sú mynd er bæði gömul og ný en hún segir líka við okkur þetta: Jesúbarnið er með í för með öllum slíkum og þá getum við líka minnst þess að jólaguðspjallið sjálft segir frá því að þau komu aftur og aftur að lokuðum dyrum í neyð sinni þau hafa knúð dyra aftur og aftur og aftur og aftur er hurðum skellt. Er það ekki einmitt það sem er að gerast einmitt um þessar mundir. Hvert landið á fætur öðru skellir í lás lokar sínum dyrum, nei því miður það er ekki rúm fyrir ykkur í gistihúsinu. Foreldrarnir fóru með jesúbarnið inn í annað land en þar voru ekki þeirra rætur og um leið og aðstæður höfðu breyst og hættan var liðin hjá þá fóru þau heim þar sem þau höfðu alist upp og lifað og þar vildu þau og þráðu að vera. Er það ekki raunin með flest það fólk sem hrekst að heiman það gerir það ekki með glöðu geði það þráir helst af öllu að fá að lifa og starfa þar sem það er fætt og þekkir best og á sína sögur og rætur. Biblían færir okkur fögur og uppbyggileg orð, orð sem hvetja og styrkja svo sem eins og þau sem hér voru lesin. Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins. Og þessi orð postulans: Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn Við skulum anda að okkur þessum fögru orðum og ganga út í hversdaginn með gleði og djörfung. Leggja góðum málum lið, hvar sem þau birtast. Í Jesú nafni, amen. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR

by Sólbjörg Björnsdóttir
•
15 January 2026
Aðfangadagskvöld 2025 Sr. Eiríkur Jóhannsson Lúkas 2:1-14 1 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6 En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. 8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9 Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ 13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: 14 Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Það eru komin jól, enn eru þau komin þessi jól sem aldrei fölna, aldrei verða úrelt, aldrei hætta að kveikja neista í brjóstum okkar, ungra sem aldinna. Þau tengja saman fortíð og nútíð, minningar úr bernsku og augnablikið núna. Þau lýsa upp dimmar vetrarnæturnar, þau lýsa upp í himinhvolfið, þau lýsa yfir landið og þau lýsa hugarfylgsnin innra með okkur, en þar getur líka orðið vandratað og villugjarnt. Hingað erum við komin þessi mikli flokkur, inn í helgidóm til að eiga gleðistund til að syngja saman, til að biðja saman, til að heyra þessa einföldu frásögn lesna af fæðingu barns og dýrðarsöng engla, þegar himinn og jörð mætast og það er söngur sem hljómar, lofsöngur ómar. Við komum úr ólíkum áttum, hvert og eitt með okkar sögu og reynslu og viðhorf, við erum á ólíkum aldri og hvernig við túlkum, hvernig við heyrum, hvernig við sjáum, það sem fram fer og fyrir augu ber það er í raun einstakt fyrir okkur hvert og eitt. Í guðspjallinu er okkur vísað inn í hrörlegt skýli þar sem liggja húsdýr mannsins, sum jórtra, önnur sofa, það berst frá þeim hlýja og rósemd. Og þarna liggur lítið barn, lítill reifastrangi og sefur. Og þarna er kannski líka litli asninn sem María fékk að sitja á þessa löngu ferð sem hún þurfti að takast á hendur, þetta litla en sterka burðardýr sem seint er talið bera með sér glæsileik en samt, var það ekki asni sem bar frelsarann inn í borgina miklu? Á einum stað í gamla testamentinu er það asni einn sem tekur að mæla fyrir munn Drottins þegar spámaðurinn Bíleam sér ekki og skynjar það sem honum er ætlað að mæla og segja fram fyrir munn Drottins, hann lýstur sitt burðardýr með staf sínum en uppsker guðlega vitrun og stranga áminningu, asninn tekur til við að tala og ávítar og leggur línur. Rétt eins og kýrnar hér heima á jólanótt. Spámaðurinn sem taldi sig vita eitt og annað, varð að þola áminningu. Hann sá ekki né heyrði það sem honum var ætlað að sjá, það sem honum var ætlað að segja og miðla áfram. Barnið litla sefur rótt, Guð er kominn inn í mannleg kjör en ekki bara það, hann er kominn inn í veröldina, inn í lífríkið allt og það eru ekki bara hirðar og vitringar sem eru vitni, það eru dýrin líka systkin okkar og frændur af sömu ættum og ættkvíslum hryggdýra og spendýra. Við höfum gert þau mörg hver okkur undirgefin en við megum aldrei gleyma því að við erum hluti þessarrar heildar og án þessarrar heildar getum við ekki lifað. Nei við erum ekki ein á þessari jörðu og það er gott að vita og gott að geta glaðst yfir því. Fæðing er undursamlegt fyrirbæri en hún er ekki átakalaus, hún er ekki hættulaus, henni fylgir ómældur sársauki en að endingu er gleðin yfir hinu nýja lífi það sem yfirgnæfir allt annað. Þannig er eiginlega lífið allt, nýtt er stöðugt að verða til, lifandi verur fæðast en líka hugmyndir og áform, en hvernig förum við með það allt, það er stóra spurningin, hvað er það sem við sjáum og heyrum? Spámaðurinn þurfti að heyra boðskapinn af munni asnans síns til þess að ná áttum. Hann kom úr óvæntri átt og þannig er okkar líf líka og það sem við heyrum og sjáum og nemum. Það sem gjarnan gerist í nútímanum er að við veljum það sem við viljum heyra og lokum oft augum og eyrum fyrir mörgu öðru. Það má kalla margtuggna klisju að jólagleðin komi innan frá en ekki vegna alls hins ytra, ekki vegna skrautsins, matarins, gjafana, tónleikanna. Allt er þetta þó góðra gjalda vert í hófi og auðvitað spilar þetta allt saman á einn eða annan hátt en samt er sannleikur í því fólgin að segja að neistinn sem kveiki ljósið, hann komi að innan. Þær myndir sem guðspjallið dregur upp eru af fólki í nánum tengslum við náttúruna, unga parið með barnið sitt í gripahúsi. Hirðar úti í haga, fjárhópurinn hefur bælt sig í þéttum hóp í næturkulinu, fjármennirnir skiptast á að ganga í kring um hópinn og gæta þess að rándýr laumist ekki að í myrkrinu og hremmi bráð, hinir sitja í kringum lítinn varðeld og verma sig. Þá skeður undrið, himnarnir opnast og þeim birtist sýn, engill sem mælir við þá skiljanleg orð en samt ekki. Frelsari fæddur í borg Davíðs og skyndilega stendur hjá englinum risakór sem syngur dýrðarsöng, tjaldið milli heimanna tveggja var eina örskotsstund dregið frá, himinn og jörð snertu hvort annað, eitt töfrum slungið augnablik. Og þeir taka sig upp fjármennirnir og halda af stað að leita að staðfestingu orðanna. Og þeir finna staðinn segja frá og krjúpa í lotningu. Síðar gerist það að fræðimenn úr fjarlægu landi finna barnið og móður þess. Okkur dylst samt ekki varnarleysið og hversu viðkvæmt allt þetta er og getur að sönnu brugðið til beggja vona. Það minnir okkur á að þannig er tilvera okkar allra, sama hversu vel við reynum þá er alltaf óvissa, enginn veit með vissu hvað getur gerst. Lífsháskann er alls staðar að finna. Þess vegna eru þessi himnesku orð svo dýrmæt. „Verið óhrædd.“ Þegar allt kemur til alls þá er ekkert að óttast, það er yfir okkur vakað, við eigum í vændum öruggt skjól. Fræðingar og fáfróðir smalar vitja barnsins. Táknræn staðfesting þess að það sem þarna er að gerast er öllum ætlað og talar inní ólíka heima. Okkar er að hlusta, sjá og heyra, meðtaka, gefa gaum að þeim skilaboðum sem til okkar er beint. Ekki að líta undan og forðast að horfast í augu við sannleika. Við gerum svo oft eitt og annað sem við innst inni vitum að er ekki æskilegt eða gagnlegt. Það er svo auðvelt að fylgja straumnum, gera bara eins og hinir. Náttúran lífríkið, stynur undan höggum okkar, við látum sem við heyrum ekki þegar til okkar er kallað. En nú er gleðistund í heiminum, um öll heimsins ból eru haldin heilög jól, í gleðinni felst dýrmæt næring, hún eflir styrk og þrótt. Við getum ekki haft augun af barninu litla, öll leiðindi og gremja fjúka burt. Það sem er svo stórkostlegt er sú staðreynd að þetta þarf ekki bara að gerast eitt kvöld á ári, heldur má viðhalda þessum, viðhorfum þessari nálgun, þessari von um hið góða fagra og fullkomna, sérhvern dag sem okkur er gefinn. Hvort heldur í einrúmi eða samfélagi helgidómanna. Það finnst ekki betra tákn en einmitt barnið litla, barnið býr yfir ótal möguleikum og þess bíða ótal tækifæri, það er okkar að hjálpa því að vaxa og dafna og þroskast. Þannig er einnig með trú okkar og hin jákvæðu viðhorf til lífsins, það er undir okkur komið að efla þetta og styrkja, næra með ástundun og iðkun. Ljósið skín í myrkrinu, stjarna vísar veginn yfir fjöll og firnindi, við höldum áfram hinn ótrygga veg, hina holóttu braut, hinn bratta stíg, en saman getum við fundið lausnir og leiðir og lært að lifa með systkinum okkar á þessari jörð, með öllu sem lífsanda dregur og á sér jafngilt tilkall til lífs. Fögnum, gleðjumst og þökkum á helgri jólahátíð. Barn er fætt í Betlehem, nú blikar jólastarna. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN

15 January 2026
Jóladagur 2025 Sr. Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 62.10-12 Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin. Pistill: Tít 3.4-7 En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs. Guðspjall: Jóh 1.1-14 Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er jóladagur það ríkir kyrrð yfir borginni. Fáir á ferli margir hafa sofið fram eftir og notið þess að hafa hægt um sig. En samt erum við hingað komin í helgidóminn, við heyrum fagra kunnuglega sálma og tökum jafnvel undir, við heyrum lestra úr helgri bók sem við flest könnumst við og höfum heyrt og nú er það um orðið sem var í upphafi hjá Guði, um orðið sem varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika. Þetta er töluvert annað en það sem lesið var í gær um fæðingu barns í gripahúsi. Þetta er texti sem segja má að sé með heimspekilegu ívafi. Talað er um orðið og ljósið og samhengið gefur til kynna að með því að tala um orðið þá sé verið að tala um speki, þekkingu já jafnvel lögmál. Og þessi þekking þessi speki þessi lögmál eru frá Guði komin. En þrátt fyrir þessi lögmál þá er samt brestur í kerfinu, mennirnir veita þeim ekki viðtöku, þeir eru eins og kenjóttir krakkar. Foreldrarnir reyna sitt besta til að hafa vit fyrir þeim en samt þau æða út í foraðið og fara sér að voða. Þó þetta sé orðað svona með hversdagslegum hætti þá er þetta samt kjarni málsins, þessi þversögn um mannlegt líf og hegðun og atferli. Hið góða sem ég vil það gjöri ég ekki segir Páll postuli á einum stað. En hvers vegna skyldi þessum texta vera valinn staður til lestrar einmitt á þessum tíma þegar við fögnum fæðingu frelsarans? Líklega vegna þess að hér er verið að fjalla um upphaf það er eitthvað að byrja, fæðing er tákn um upphaf, orðið var í upphafi hjá Guði. Við lifum lífi okkar eftir tímalínu við fæðumst,við lifum og deyjum það er eitt af lögmálum tilverunnar. Það sem þó er svo undarlegt og á vissan hátt undursamlegt er það að ekki fer allt eftir fyrirfram forrituðum brautum. Við sjáum að flestar lífverur lifa og hegða sér eftir því sem kalla má eðlisávísun, sem í grundvallaratriðum snýst um það leita uppi fæðu, að nærast og geta af sér afkvæmi. Við mennirnir erum þarna líka, sem samt er okkuð gefið eitthvað meira, við getum farið út af brautinni, við getum óhlýðnast, við getum tekið upp á því að gera eitthvað sem alls ekki er í samræmi við nokkrar reglur. Til þess að geta slíkt þarf í raun, það sem við köllum skapandi hugsun og það sem við höfum þessu til viðbótar er frelsið, frelsi til að brjóta reglur, og jafnvel gera það sem ekki má eða til er ætlast. Allavega að gera það sem ekki er samkvæmt handritinu. Hann kom til eignar sinnar en hans eigin menn tóku ekki á móti honum. Er þarna verið að lýsa vonbrigðum? Eða einfaldlega staðreynd. Í sköpunarsögunni í fyrstu Mósebók segir Guð þessi orð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Síðan líður ekki á löngu þar til maðurinn lætur sér ekki nægja að sitja iðjulaus og horfa í kringum sig í hinum fagra aldingarði þar sem allt er til alls. Hann langar til að spyrja og skoða og hann gerir það sem honum var sagt að gera ekki og vissulega fann hann að það var ekki rétt en samt. Syndafallinu er síðan lýst sem vonbrigðum Guðs með mennina og þess vegna hafi þeir ekki getað búið lengur í hinum fagra aldingarði. Ég spyr mig, er endilega víst að þetta hafi verið svo mikil vonbrigði, manninum hafði verið gefið eitthvað meira en öðrum og það lá því ljóst fyrir að hann myndi ekki sætta sig við annað en geta haldið áfram af stað út í óvissu og hættu og erfiðleika, og já endalausar áskoranir. Öllum þessum möguleikum fylgja líka allir þessir neikvæðu þættir: Grimmdin og ágirndin, miskunnarleysið já svo má endalaust telja já og auðvitað þjáningin. Má ekki spyrja sig hvort þetta sé ekki á endanum gjaldið fyrir frelsið, fyrir hina skapandi hugsun sem svo sannarlega getur alið af sér bæði gott og slæmt. Okkur er mikið gefið vandinn er hvernig við förum með það. Orðið og ljósið stígur inn í þennan hættulega heim en ekki til að svipta okkur neinu af okkar gáfum, ekki til að taka frá okkur frelsið og binda okkur á bás, nei hann tekur áhættuna með okkur mönnunum hann stígur inn til þess að vísa veginn benda á það sem skiptir máli, það er hægt að lifa góðu lífi og óttalausu lífi og skapandi lífi án þess að fórna frelsinu og það er með því að læra að þekkja lögmál kærleikans og tileinka sér það í öllu sínu lífi. Nýtt boðorð gef ég yður að þið elskið hvert annað. Þú skalt elska Drottinn Guð þinn og náunga þinn eins og sjálfan þig. Þetta gerist ekki með þvingun eða hótunum eða refsingum. Ofbeldi leiðir aðeins af sér meira ofbeldi, hefnd getur af sér nýja hefnd. Þegar Jesús er umkringdur hermönnum Getsemani þá endanlega afneitar hann ofbeldinu og því valdi sem því fylgir. Mitt ríki er ekki af þessum heimi, ég gæti kallað til himneskar herdeildir en ég geri það ekki. Er hann ekki einmitt að segja að hann sé í heiminn kominn til að vísa annan veg benda á aðra lausn, kynna nýtt grundvallarlögmál. Nýtt upphaf. Lögmál kærleikans. Þegar við horfum í kringum okkur þá sjáum við að ekki hefur allt farið vel, við opnum miðlana og við blasir eiginlega ekkert nema neikvæðar fyrirsagnir hvort sem er heima eða að heiman. Við sjáum óvissuna og hættuna, skelfileg slys verða fyrirvaralaust, það er þjáning sjúkdómar og dauði. Það eru styrjaldir og ólýsanleg grimmd og virðingarleysi fyrir mannslífinu. En samt, hefur ekki líka ótal margt áunnist og verið gert í vísindum og listum í góðverkum og hjálparstarfi, í umhyggju og kærleika. Við höfum þekkingu og tækni til að snúa við óheillaþróun og skaða þeim sem unninn hefur verið á lífríkinu. Við höfum val um svo ótal margt og getu til að framkvæma svo óendanlega margt. Enn er þó svo sannarlega mikið verk fyrir höndum. Það virðist svo erfitt að treysta lögmáli kærleikans, jafnvel þótt við innst inni vitum að það er hið eina rétta. Jafnvel þótt við heyrum og nemum hin miklu orð frelsarans engilsins á betlehemsvöllum „verið óhrædd“ það er ekkert að óttast hvorki í lífi né dauða. Þetta er eins og að stökkva út út flugvél með fallhlíf, það þarf að treysta því að búnaðurinn virki það þarf að þora að sleppa takinu en svo er sagt að fátt jafnist á við það að svífa og fá svo mjúka lendingu með hinum trausta búnaði. Ég boða mikinn fögnuð sagði engillinn, gleðin er lykilorð, hin hljóðláta innri gleði og ljós, birtan sem hrindir brott myrkrinu sem getur falið svo margt ljótt. Birtan sem lýsir upp sviðið, boðar nýjan dag, dag þegar hægt er að ganga til verka við að byggja upp og bæta. Það má hugsa sér að við okkur sér sagt eitthvað á þá leið: ég sé að ekki hefur allt farið hér vel en samt vil ég ekki svipta ykkur því sem ykkur er dýrmætast sem er frelsi og skapandi hugur Í guðspjallinu sem talar um hin háleitu hugtök er líka nefndur til sögunnar maður af holdi og blóði. Jóhannes skírarinn, ræðumaðurinn sem galt með lífi sínu fyrir það að segja sannleika. Má ekki líta svo á að með því að nefna tiltekinn mann í þessu samhengi þá standi hann þar sem fulltrúi allra manna sem staðfesting þess að Guð ætlar okkur hlutverk í sínu mikla sköpunarverki sínum stórfenglegum fyrirætlunum, hér á jörð og á himnum uppi. Þið skiptið máli segir textinn, ekki með nauðung eða þvingun heldur sem frjálsir sjálboðaliðar í miskunnarverki guðs, í því langhlaupi að guðs ríki komi að endingu með krafti. Þegar lögmál kærleikans verður allt í öllu. Barnið í jötunni er tákn þessa alls, það baðar út höndum og hjalar og við óskum einskis heitar en taka það í faðm og veita því vernd og skjól. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN

by Sólbjörg Björnsdóttir
•
14 January 2026
Hver er það sem knýr á dyr? Séra Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 35.1-10 Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri. Eins og dverglilja skal hún blómgast, gleðjast, gleðjast og fagna. Vegsemd Líbanons veitist henni, skart Karmels og Sarons. Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors. Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: „Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.“ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir í auðninni. Glóandi sandurinn verður að tjörn og þyrst jörðin að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust við áður sprettur stör, reyr og sef. Þar verður breið braut sem skal heita Brautin helga. Enginn óhreinn má hana ganga því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um og heimskingjar munu ekki villast þar. Þar verður ekkert ljón, ekkert glefsandi rándýr fer þar um, þar verður þau ekki að finna. Þar munu aðeins endurleystir ganga. Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur og koma fagnandi til Síonar, eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgja þeim en sorg og mæða flýja. Pistill: Heb 10.35-37 Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum. Guðspjall: Mrk 13.31-37 Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Nú er jólafastan gengin í garð og einmitt á þessum tíma er margt að ske í þjóðlífinu og sömuleiðis líka inná flestum heimilum. Það hefur löngum loðað við að hinn margvíslegi undirbúningur sem á sér stað á þessum tíma í aðdraganda jóla, hvíli að miklu leyti á kvenþjóðinni. Jafnvel þótt margt hafi breyst í þjóðlífinu frá því flestar eiginkonur og mæður unnu sín verk inni á heimilinu til þess sem nú er að flestar konur eru virkar á vinnumarkaði. Samt hefur margt hinna fornu siða og verkaskiptingar haldist óbreytt innan heimilisins. Sérstaklega þegar mikið stendur til þá eru það konurnar sem taka stjórnina og gjarnan líka ganga í verkin. Þetta er líka dimmur tími, dagurinn stuttur og myrkur bæði kvölds og morgna. Samt heyrist minna um skammdegisdrunga og þrúgandi myrkur um þessar mundir en eftir jól, í janúar til dæmis sem þó er alls ekki dimmari. Getur það verið að á þessum tíma þar sem við horfum fram til jólagleðinnar þá finnum við minna fyrir myrkrinu? Við erum að stefna í ákveðna átt, það liggur eitthvað fyrir og það stendur eitthvað til, það eru ekki bara börnin sem hlakka til. Við sem komin erum til ára okkar höfum alveg gert þetta allt áður og það sem meira er við höfum gert það með svipuðum hætti, jafnvel alveg eins ár eftir ár. Og svo virðist sem fæstir kæri sig um nokkra tilbreytingu í þessu tilviki, haldið er fast í hefðir. Á þessum vetrartíma fáum við lestur úr gamla testamentinu sem fjallar um grósku, eyðimörkin og skrælnað landið á að gleðjast já jafnvel eru öræfin nefnd á nafn sem okkur hér á landi finnst við eiga sérstaklega. Ásýndin breytist þegar dvergliljurnar skjóta upp kollinum. Og þá mun allt fara að gerast hinn halti stekkur sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni. Allt sem er ótrúlegt og raunar ósennilegt það getur gerst. Fögnuður og gleði fylgja en sorg og mæða flýja. Spámaðurinn er sem endranær að leitast við að blása mönnum von í brjóst og löngun til að hefjast handa um að byggja upp. Hér er á myndrænann hátt verið að lýsa miklum umskiptum, það sem er skrælnað þurt og dautt lifnar við, bæði í náttúrunnar ríki sem á meðal manna. Og það má segja að kallist á við það sem Kristur sjálfur gerði, blindir fá sýn og haltir ganga. Á þessum tíma getum við líka hugsað til Maríu guðsmóður, þessarrar ungu konu sem nú er að heita fullgengin með sitt fyrsta barn. Má ekki reikna með því að þá sem nú hafi í huga hennar tekist á, kvíði og eftirvænting. Barnið minnir á sig og byltir sér og sparkar í sínu þrönga rými. Móðirin sem enn hefur aldrei fætt barn, veit varla í þennan heim né annan. Og ekki einfaldast staðan þegar í ljós kemur að þau þurfi að takast á hendur ferðalag í fjarlæga borg. Guðspjallið geymir orð Jesú þar sem hann brýnir okkur til þess að vera á verði, til þess að gleyma okkur ekki. Dyravörðurinn hefur mikilvægt hlutverk, ekki bara til þess að opna fyrir húsbóndanum þegar hann kemur, heldur að gæta dyranna og sjá til þess að enginn óboðinn æði þar inn. Það er gömul saga og ný að ekki er víst að allir sem berja að dyrum hjá okkur hafi gott í hyggju. Bara nú í þessari viku var fjallað um óprúttna sölumenn sem beita lymskulegum ráðum til þess að vinna traust fólks, einkanlega ungs fólks og selja þeim síðan hugmynd um öryggi og traust, ávöxtun fjár og öryggi á efri árum en svo kemur í ljós að mest er þetta lygi og blekkingar. Af þessu leiðir að í stað öryggis og velvildar kemur tortryggni, við erum hætt að svara síma ef við könnumst ekki við númerið, við viljum fá okkur dyrabjöllur með myndavél. Og margir hafa reyndar hag af því að selja alls kyns varning sem á að auka öryggi okkar. Að baki býr óttinn, tortryggnin, efasemdir og vantraust. Hver og einn lokar sig af inni í sínu eigin búri. Og nú er lika svo komið að svo til alls staðar innan borga og bæjarmarka erum við í mynd, upptökuvélar á flestum götuhornum. Hið alsjáandi auga fylgist með og vaktar. Allt gert til að auka öryggi en felur líka í sér hættu. Einræðisherrar víða um heim nota tækin til að sjá og skoða og fylgjast með. Þau sem segja eitthvað sem ekki er þóknanlegt eða gera eitthvað svo sem eins og fara í mótmælagöngur, já þau eru svo lítið ber á tekin úr umferð. Þjóðsögurnar okkar geyma sögur af því þegar illir vættir heilla fólk og tæla í björg og huliðsheima. Gakk í björg og bú með oss segja huldumeyjarnar við Ólaf liljurós. En hann lætur ekki glepjast, heldur vil ég á krist minn trúa. Miðlar nútímans eru hannaðir til þess að heilla og glepja og bergnuminn stara börn á unglingar á skjáina sína. Þau þegja þá á meðan og foreldrarnir eru fegin að fá næði til að sinna sínu. Flestir kannast við að víða í sveitum og jafnvel þorpum hér á landi tíðkaðist ekki að læsa húsum og jafnvel ekki heldur bílunum. Sennilega er sá siður að mestu horfinn í dag. Og jafnvel hér í borginni viðgekkst sá siður að ungbörn sváfu í vögnum sínum fyrir utan kaffihús meðan foreldrar settust inn og fengu sér hressingu. Útlendingar voru steinhissa og raunar hneykslaðir Mér er nær að halda þetta sé alveg horfið í dag. Boðskapur trúarinnar fjallar um traust, að treysta góðum Guði og sömuleiðis að við treystum hvert öðru, vantraust, ótti, tortryggni er ávísun á átök og að endingu hatur manna og þjóða á milli. En okkur er líka ráðlagt að vera á verði. Postulinn hvetur okkur til þess að rækta með okkur bæði djörfung og þolgæði. Það kostar sannarlega kjark að treysta og við vitum nú um stundir rétt eins og áður og fyrr að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Það sem hefur yfir sér anda umhyggju svo sem eins og að selja happdrættismiða í þágu góðgerðarfélaga því er rænt og notað til að sigla undir fölsku flaggi. Dyrabjallan hringir og úti stendur einstaklingur og segist vera að selja eða safna til góðgerða en svo kemur í ljós að svo er ekki. Já það er vandlifað í henni veröld og ekki óeðlilegt að ályktunin verði sú að réttast og öruggast sé að læsa að sér og hleypa engum inn, láta sem maður heyri ekki þegar knúð er á dyr. Kristur segir okkur að vaka og vera á verði, ekki bara til þess að varast hið illa heldur ekki síður til að meðtaka og ljúka upp dyrum fyrir því góða, fagra og fullkomna. Gjarnan er það flokkað sem einfeldni og jafnvel fáviska að treysta fólki fyrirfram, vissulega er það gömul saga og ný að menn nýti sér hrekkleysi og góðvild. Samt er það grundvallaratriði í okkar kristnu trú, það sem Kristur kennir að mæta fólki með jákvæðum huga, gefa öllum tækifæri, þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig segir Jesús. Hann segir þetta ekki að ástæðulausu, hann segir það vegna þess að aðeins þannig er mögulegt að byggja upp samfélag þar sem ríkir raunverulegt frelsi og öryggi ekki ógnarjafnvægi gagnkvæmra hótana. Það er ekki auðvelt og ekki einfalt en það er samt það sem við erum kölluð til að gera, til þess þarf djörfung og þolgæði, það þarf opinn og vakandi huga og það þarf drifkraft vonarinnar í átt til þess sem fagurt er og gott, til þess tíma þegar dvergliljan skýtur upp kollinum og öræfin taka að gróa upp. Við stefnum í átt til ljóssins. hátíðar ljóssins, nýs upphafs sem birtist í nýfæddu barni. Þá burt er sortans svið. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR

by Sólbjörg Björnsdóttir
•
15 January 2026
Jesúbarn á flótta Messa 4. Janúar. 2026 Sunnudag milli nýárs og þrettánda Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 61.10-62.3 Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins, sveipaði mig skikkju réttlætisins. Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn og brúður býr sig skarti sínu og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn og garður lætur frækornin spíra mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum. Sökum Síonar get ég ekki þagað og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi og hjálpræði hennar logar sem kyndill. Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt og allir konungar dýrð þína, þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. Pistill: 1Jóh 3.1-3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn. Guðspjall: Matt 2.13-15 Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Nú er hátíðartíminn að baki og á morgun tekur við óbreytt heil, vinnuvika. Lífið flestra fellur í fastari skorður skóli, vinna, skyldur og verkefni. Í flestum tilvikum er það á vissan hátt fagnaðarefni, það er vissulega gott að gera sér dagamun, hátíðir lífga upp á og gera rof í hversdaginn og eru mikilvægar. En það er eins og stundum er tekið til orða, það eru ekki alltaf jólin. Enda ef svo væri, færi þá ekki allur glansinn af þeim? Erum við ekki flest þannig gerð að vilja og þurfa að hafa einhvers konar viðspyrnu í lífi okkar takast á við verkefni og finna sig þannig verðugan verkalauna sinna, hvernig svo sem þau eru tilkomin eða metin. Stöðugt fjölgar þó í þeim hópi sem ekki er gert að sinna utanaðkomandi skyldum eftir föstum ramma skilgreinds vinnutíma heldur geta mótað að miklu leyti sinn lífsstíl, hvernig tímanum er varið og skipt milli skyldustarfa og annars. Að vissu leyti gerir þetta frelsi meiri kröfur til eigin skipulags og sjálfsaga. Helgihaldið í kirkjum landsins heldur sínum takti og í lífi sumra er það sem betur fer dýrmætur rammi þar sem sækja má andlega uppörvun og stuðning. Lifandi trúarlíf hefur löngum einkennst af ákveðum takti eða hrynjandi í lífinu. Við höfum flest heyrt af taktföstum tíðasöng í klaustrum svo dæmi sé tekið. Í umhverfi okkar kirkjudeildar er ekki að finna þess háttar kröfur en samt finna flest okkar hversu dýrmætt það er að halda sig við vissa reglu, svo sem eins og bæn að kvöldi og að morgni og síðan þátttaka í samfélagi um trú sína svo sem eins og að mæta til messu á sunnudögum eða í eitthvert helgihald eins og kyrrðar eða bænastundir eða morgunmessur líkt og við ástundum í þessari kirkju og á sinn trúfasta hóp. Eg held megi segja að fastur taktur eða rytmi í lífinu sé okkur flestum mikilvægur, jafnvel nauðsynlegur. En það getur kostað töluverðan sjálfsaga að halda sig við það sem maður samt veit að er gagnlegt svo sem eins og að ástunda hreyfingu af einhverju tagi. Allt sem hér hefur verið nefnt sem jákvætt getur líka í sumum tilfellum gengið útí öfgar þegar það verður að stífu lögmáli sem ekki má víkja útaf og ef það gerist þá verður uppnám og örvænting. Um þetta gildir sem annað að allt er best í hófi. Guðspjallið sem við heyrðum hér lesið segir frá því þegar nauðsynlegt reyndist að flýja með barnið litla í fjarlægt land til að forða því undan ofsóknum. Hin fagra kyrralífsmynd af barni í jötu og hirðum og vitringum sem koma og votta virðingu sína og aðdáun víkur nú fyrir sótsvörtum veruleikanum, heimi þar sem grimmd og miskunnarleysi ræður ríkjum og óöryggi og óvissa mótar lífið. Um leið er okkur kippt inn í veruleika dagsins í dag þar sem stórum hluta mannkyns er gert að lifa við svipaðar aðstæður. Stjórnvöld sem deila og drottna og láta sér í léttu rúmi liggja lífskjör þegnanna og hafa það eitt í huga að gæta þess að þeir ógni ekki þeirra eigin stöðu og tökum þeirra á stjórnartaumum. Þannig hefur þetta verið um aldaraðir og það má segja að hugmyndin um lýðræði og að þau sem veljast til að fara með völd geri það í umboði þegnanna sé tiltölulega ný. Ekki nóg með það heldur stendur hún víða völtum fótum. Virðingin fyrir mannslífinu er nánast engin, umburðarlyndi í lágmarki. Tilgangurinn helgar öll meðöl. Jafnvel okkar heilaga ritning er tekin og látin þjóna annarlegum sjónarmiðum, trúverðugleiki trúarinnar er nýttur til að lyfta upp úreltu gildismati og mannskilningi sem ganga gegn grundvallarhugsjónum um frelsi mannsins og virðingu fyrir lífi og lífsstíl fólks. Það er vissulega rétt að enginn getur eignað sér texta ritningarinnar og þar er mörg orð að finna, jafnvel sjónarmið sem við myndum engan veginn taka undir. Má þar nefna umræður um dauðarefsingar, þrælahald, heilagt stríð, eignarétt húsbóndans yfir öllu sem undir hans þaki býr, eiginkonum, börnum, þrælum og húsdýrum. Það sjónarmið sem kristið fólk hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir að þurfi að beita í þessu samhengi er að lesa biblíuna, eins og stundum er sagt, gegnum kross Jesú krists. Jesús kristur og kærleiksboðskapur hans verður þannig að nauðsynlegum túlkunarlykli þegar þessi mörgu rit eru lesin og rannsökuð og greind. Rit sem flest eiga sér langa mótunar og ritunarsögu eru orðin til við mismunandi aðstæður og er ætlað að þjóna alls kyns hlutverkum. Það á við í þessu samhengi líkt og á eiginlega við í öllum aðstæðum að það er engin einföld lausn í boði, lífið allt og áskoranir þess er flókið verkefni og allar tilraunir til að búa til eitthvað einfalt patent er í besta falli blekking. En er þá ekkert framundan eða í boði nema eilíft strit og barátta? Eiginlega ekki, það verður alltaf barátta að halda á lofti gildum mannúðar og kærleika en það er og getur aldrei orðið eins manns barátta, það sem mestu skiptir í þessu samhengi er sú staðreynd að betur sjá augu en auga og með því að hjálpast að með því að treysta hvort öðru og virða hvort annað þá er hægt að lyfta endalausum grettistökum. Í þessu samhengi má minnast þess að á þessu ári munum við fagna 40 ára vígsluafmæli þessa stórkostlega helgidóms sem við erum saman komin í en þá voru liðin rétt rúm fjörutíu ár frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þá voru liðin um 30 ár frá því fyrst komu fram hugmyndir um að reisa kirkju til heiðurs minningu Hallgríms Péturssonar. Það var 1914 þegar liðin voru 300 ár frá fæðingu hans sem fyrst var farið að ræða þessi mál. Staðreyndin er að þessar hugmyndir mættu allt frá upphafi nokkrum mótbyr og jafnvel eftir að hafist var handa við bygginguna þá var andóf uppi. En alltaf var þó öflugur hópur sem ekki lét deigan síga og hélt áfram og hugmyndin átti sömuleiðis víðtækan hljómgrunn úti í þjóðfélaginu. Þannig að þegar húsið var risið og vígt þá kom í ljós að um það bil 2 þriðju kostnaðarins við bygginguna var í formi frjálsra framlaga. Félög og einstaklingar af landinu öllu lögðu þessari hugsjón lið. Það er því ekki af ástæðulausu sem þess kirkja er gjarnan kölluð þjóðarhelgidómur. Þannig má segja að þetta glæsilega hús sem nú er svo mikið lofað um heiminn allan, sé fagur vottur þess sem hægt er að koma í framkvæmd þegar fólk hjálpast að, vinnur saman af örlæti og kappi. En þrátt fyrir alla sína fegurð þá er þetta samt í eðli sínu fyrst og fremst skjól, skel til hlífðar fyrir fólk sem kemur saman til að biðja, til að syngja saman, til að heyra lesið út okkar helgu bók, uppbyggjast í samfélaginu og styrkjast í viðleitni sinni til að verða betri manneskjur og láta gott af sér leiða. Guðspjallið birtir okkur mynd af fjölskyldu á flótta, sú mynd er bæði gömul og ný en hún segir líka við okkur þetta: Jesúbarnið er með í för með öllum slíkum og þá getum við líka minnst þess að jólaguðspjallið sjálft segir frá því að þau komu aftur og aftur að lokuðum dyrum í neyð sinni þau hafa knúð dyra aftur og aftur og aftur og aftur er hurðum skellt. Er það ekki einmitt það sem er að gerast einmitt um þessar mundir. Hvert landið á fætur öðru skellir í lás lokar sínum dyrum, nei því miður það er ekki rúm fyrir ykkur í gistihúsinu. Foreldrarnir fóru með jesúbarnið inn í annað land en þar voru ekki þeirra rætur og um leið og aðstæður höfðu breyst og hættan var liðin hjá þá fóru þau heim þar sem þau höfðu alist upp og lifað og þar vildu þau og þráðu að vera. Er það ekki raunin með flest það fólk sem hrekst að heiman það gerir það ekki með glöðu geði það þráir helst af öllu að fá að lifa og starfa þar sem það er fætt og þekkir best og á sína sögur og rætur. Biblían færir okkur fögur og uppbyggileg orð, orð sem hvetja og styrkja svo sem eins og þau sem hér voru lesin. Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins. Og þessi orð postulans: Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn Við skulum anda að okkur þessum fögru orðum og ganga út í hversdaginn með gleði og djörfung. Leggja góðum málum lið, hvar sem þau birtast. Í Jesú nafni, amen. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR

by Sólbjörg Björnsdóttir
•
15 January 2026
Aðfangadagskvöld 2025 Sr. Eiríkur Jóhannsson Lúkas 2:1-14 1 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6 En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. 8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9 Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ 13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: 14 Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Það eru komin jól, enn eru þau komin þessi jól sem aldrei fölna, aldrei verða úrelt, aldrei hætta að kveikja neista í brjóstum okkar, ungra sem aldinna. Þau tengja saman fortíð og nútíð, minningar úr bernsku og augnablikið núna. Þau lýsa upp dimmar vetrarnæturnar, þau lýsa upp í himinhvolfið, þau lýsa yfir landið og þau lýsa hugarfylgsnin innra með okkur, en þar getur líka orðið vandratað og villugjarnt. Hingað erum við komin þessi mikli flokkur, inn í helgidóm til að eiga gleðistund til að syngja saman, til að biðja saman, til að heyra þessa einföldu frásögn lesna af fæðingu barns og dýrðarsöng engla, þegar himinn og jörð mætast og það er söngur sem hljómar, lofsöngur ómar. Við komum úr ólíkum áttum, hvert og eitt með okkar sögu og reynslu og viðhorf, við erum á ólíkum aldri og hvernig við túlkum, hvernig við heyrum, hvernig við sjáum, það sem fram fer og fyrir augu ber það er í raun einstakt fyrir okkur hvert og eitt. Í guðspjallinu er okkur vísað inn í hrörlegt skýli þar sem liggja húsdýr mannsins, sum jórtra, önnur sofa, það berst frá þeim hlýja og rósemd. Og þarna liggur lítið barn, lítill reifastrangi og sefur. Og þarna er kannski líka litli asninn sem María fékk að sitja á þessa löngu ferð sem hún þurfti að takast á hendur, þetta litla en sterka burðardýr sem seint er talið bera með sér glæsileik en samt, var það ekki asni sem bar frelsarann inn í borgina miklu? Á einum stað í gamla testamentinu er það asni einn sem tekur að mæla fyrir munn Drottins þegar spámaðurinn Bíleam sér ekki og skynjar það sem honum er ætlað að mæla og segja fram fyrir munn Drottins, hann lýstur sitt burðardýr með staf sínum en uppsker guðlega vitrun og stranga áminningu, asninn tekur til við að tala og ávítar og leggur línur. Rétt eins og kýrnar hér heima á jólanótt. Spámaðurinn sem taldi sig vita eitt og annað, varð að þola áminningu. Hann sá ekki né heyrði það sem honum var ætlað að sjá, það sem honum var ætlað að segja og miðla áfram. Barnið litla sefur rótt, Guð er kominn inn í mannleg kjör en ekki bara það, hann er kominn inn í veröldina, inn í lífríkið allt og það eru ekki bara hirðar og vitringar sem eru vitni, það eru dýrin líka systkin okkar og frændur af sömu ættum og ættkvíslum hryggdýra og spendýra. Við höfum gert þau mörg hver okkur undirgefin en við megum aldrei gleyma því að við erum hluti þessarrar heildar og án þessarrar heildar getum við ekki lifað. Nei við erum ekki ein á þessari jörðu og það er gott að vita og gott að geta glaðst yfir því. Fæðing er undursamlegt fyrirbæri en hún er ekki átakalaus, hún er ekki hættulaus, henni fylgir ómældur sársauki en að endingu er gleðin yfir hinu nýja lífi það sem yfirgnæfir allt annað. Þannig er eiginlega lífið allt, nýtt er stöðugt að verða til, lifandi verur fæðast en líka hugmyndir og áform, en hvernig förum við með það allt, það er stóra spurningin, hvað er það sem við sjáum og heyrum? Spámaðurinn þurfti að heyra boðskapinn af munni asnans síns til þess að ná áttum. Hann kom úr óvæntri átt og þannig er okkar líf líka og það sem við heyrum og sjáum og nemum. Það sem gjarnan gerist í nútímanum er að við veljum það sem við viljum heyra og lokum oft augum og eyrum fyrir mörgu öðru. Það má kalla margtuggna klisju að jólagleðin komi innan frá en ekki vegna alls hins ytra, ekki vegna skrautsins, matarins, gjafana, tónleikanna. Allt er þetta þó góðra gjalda vert í hófi og auðvitað spilar þetta allt saman á einn eða annan hátt en samt er sannleikur í því fólgin að segja að neistinn sem kveiki ljósið, hann komi að innan. Þær myndir sem guðspjallið dregur upp eru af fólki í nánum tengslum við náttúruna, unga parið með barnið sitt í gripahúsi. Hirðar úti í haga, fjárhópurinn hefur bælt sig í þéttum hóp í næturkulinu, fjármennirnir skiptast á að ganga í kring um hópinn og gæta þess að rándýr laumist ekki að í myrkrinu og hremmi bráð, hinir sitja í kringum lítinn varðeld og verma sig. Þá skeður undrið, himnarnir opnast og þeim birtist sýn, engill sem mælir við þá skiljanleg orð en samt ekki. Frelsari fæddur í borg Davíðs og skyndilega stendur hjá englinum risakór sem syngur dýrðarsöng, tjaldið milli heimanna tveggja var eina örskotsstund dregið frá, himinn og jörð snertu hvort annað, eitt töfrum slungið augnablik. Og þeir taka sig upp fjármennirnir og halda af stað að leita að staðfestingu orðanna. Og þeir finna staðinn segja frá og krjúpa í lotningu. Síðar gerist það að fræðimenn úr fjarlægu landi finna barnið og móður þess. Okkur dylst samt ekki varnarleysið og hversu viðkvæmt allt þetta er og getur að sönnu brugðið til beggja vona. Það minnir okkur á að þannig er tilvera okkar allra, sama hversu vel við reynum þá er alltaf óvissa, enginn veit með vissu hvað getur gerst. Lífsháskann er alls staðar að finna. Þess vegna eru þessi himnesku orð svo dýrmæt. „Verið óhrædd.“ Þegar allt kemur til alls þá er ekkert að óttast, það er yfir okkur vakað, við eigum í vændum öruggt skjól. Fræðingar og fáfróðir smalar vitja barnsins. Táknræn staðfesting þess að það sem þarna er að gerast er öllum ætlað og talar inní ólíka heima. Okkar er að hlusta, sjá og heyra, meðtaka, gefa gaum að þeim skilaboðum sem til okkar er beint. Ekki að líta undan og forðast að horfast í augu við sannleika. Við gerum svo oft eitt og annað sem við innst inni vitum að er ekki æskilegt eða gagnlegt. Það er svo auðvelt að fylgja straumnum, gera bara eins og hinir. Náttúran lífríkið, stynur undan höggum okkar, við látum sem við heyrum ekki þegar til okkar er kallað. En nú er gleðistund í heiminum, um öll heimsins ból eru haldin heilög jól, í gleðinni felst dýrmæt næring, hún eflir styrk og þrótt. Við getum ekki haft augun af barninu litla, öll leiðindi og gremja fjúka burt. Það sem er svo stórkostlegt er sú staðreynd að þetta þarf ekki bara að gerast eitt kvöld á ári, heldur má viðhalda þessum, viðhorfum þessari nálgun, þessari von um hið góða fagra og fullkomna, sérhvern dag sem okkur er gefinn. Hvort heldur í einrúmi eða samfélagi helgidómanna. Það finnst ekki betra tákn en einmitt barnið litla, barnið býr yfir ótal möguleikum og þess bíða ótal tækifæri, það er okkar að hjálpa því að vaxa og dafna og þroskast. Þannig er einnig með trú okkar og hin jákvæðu viðhorf til lífsins, það er undir okkur komið að efla þetta og styrkja, næra með ástundun og iðkun. Ljósið skín í myrkrinu, stjarna vísar veginn yfir fjöll og firnindi, við höldum áfram hinn ótrygga veg, hina holóttu braut, hinn bratta stíg, en saman getum við fundið lausnir og leiðir og lært að lifa með systkinum okkar á þessari jörð, með öllu sem lífsanda dregur og á sér jafngilt tilkall til lífs. Fögnum, gleðjumst og þökkum á helgri jólahátíð. Barn er fætt í Betlehem, nú blikar jólastarna. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN
We are on Instagram
HALLGRÍMSKIRKJA
Sunnudagur 18. janúar 2026 kl. 11
Meistari gleðinnar
Messa
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Við fögrudyr
„Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér"
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Lilja Rut Halldórsdóttir, Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir
HALLGRÍMSKIRKJA — ÞINN STAÐUR
Sunnudagur 11. janúar kl. 11
Vitringar ír austurátt
Messa
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er Pétur Nói Stefánsson
Gerum heiminn miklu, miklu betri!
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Ragnheiður Bjarnadóttir og Rósa Hrönn Árnadóttir
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Viltu syngja með?
Barnakór Hallgrímskirkju býður unga og áhugasama söngfugla hjartanlega velkomna í hópinn.
Við syngjum saman, lærum ný lög og eigum notalegar stundir í góðum félagsskap.
Á önninni syngur kórinn meðal annars í fjölskylduguðsþjónustu og tekur þátt í hinni skemmtilegu Söngvahátíð barnanna 23. apríl 2026. Kórinn hóf starfsemi sína haustið 2025 og eru æfingar hafnar á nýju ári. Stjórnandi er Fjóla Kristín Nikulásdóttir.
Æfingar eru á miðvikudögum kl. 16:30–17:30.
Þáttaka er ókeypis og engin fyrri reynsla nauðsynleg,
Skráning í fullum gangi á Abler.io
https://www.abler.io/shop/hallgrimssokn?program=Q2x1YlNlcnZpY2U6NDM5NjU=
Meðfylgjandi mynd tók #HrefnaHarðardóttir í fjölskylduguðsþjónustu á fjórða í aðventu, 21. desember 2025.
HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐUR BARNANNA
Sunnudagur 4. janúar kl. 11
Jesúbarn á flótta
Messa
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari, Messuþjónar aðstoða,
Kvintett leiðir söng
Organisti er Steinar Logi Helgason
Drottinn er minn hirðir
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Umsjón: Lilja Rut, Halldórsdóttir, Rósa Hr0nn Árnadóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir
Hallgrímskirkja – Þinn staður
Sunnudagur milli jóla og nýárs
28. desember kl. 11
Börn Guðs
Messa
Prestur: Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Messuþjónar aðstoða
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson
Kammerkórinn Huldur syngur undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar
Hugrekkissunnudagaskóli
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Rósa Hrönn Árnadóttir
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
HÁTÍÐARHLJÓMAR VIÐ ÁRAMÓT
31. desember – Gamlársdagur kl. 16
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 4.900 kr.
Verið velkomin á Hátíðarhljóma við áramót er við kveðjum gamla árið og tökum vel á móti hinu nýja.
Hátíðarhljómar við áramót á Gamlársdag hafa um árabil notið mikilla vinsælda í tónlistarlífi Hallgrímskirkju.
Í ár gefst tónleikagestum kostur á að njóta hátíðlegara tóna fyrir orgel og málmblásarakvintett í ljósaskiptunum á síðasta degi ársins. --ENGLISH--
FESTIVE BRASS & ORGAN
31 December – New Year’s Eve at 16:00
Tickets available at Hallgrímskirkja and tix.is
Admission: 4,900 ISK
Welcome to Festive Brass and Organ as we bid farewell to the old year and greet the new. These New Year’s Eve concerts have long been a beloved tradition in the musical life of Hallgrímskirkja. This year, audiences can enjoy celebratory music for organ and brass quintet on the final day of the year. HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK
Orgeltónleikar á jólum
26. desember 2025 kl. 17 í Hallgrímskirkju
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir er 3.900 kr.
Verið öll velkomin á hátíðlega jólastund á annan í jólum þegar Björn Steinar Sólbergsson flytur glæsilega og fjölbreytta tónleika í Hallgrímskirkju.
Á efnisskránni eru falleg orgelverk tengd jólunum eftir Bach, D’Aquin, Guilmant og Vierne, og einnig frumsamin íslensk jólatónlist sem flutt verður í fyrsta sinn opinberlega.
Á tónleikunum verða tveir frumflutningar á verkum eftir Hrafnkel Orra Egilsson. Fantasía yfir þjóðlagið „Með gleðiraust og helgum hljóm“ og Chaconne yfir þjóðlagið „Hátíð fer að höndum ein“ . Á efnisskránni er einnig Pastorale yfir jólasálminn „Nóttin var sú ágæt ein“ (2022) eftir sama tónskáld.
Tónleikarnir eru hátíðlegir og bjóða upp á fullkomna jólastemningu, kyrrð og fegurð.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM HÁTÍÐIRNAR
--ENGLISH--
Christmas Organ Concert
26 December at 5 PM – Hallgrímskirkja
Björn Steinar Sólbergsson, organ
Tickets are available at Hallgrimskirkja and on tix.is
Admission is ISK 3.900
Celebrate the Second Day of Christmas with a festive and atmospheric organ concert in Hallgrímskirkja. Björn Steinar Sólbergsson performs a rich programme of joyful and reflective Christmas works by Bach, D’Aquin, Guilmant and Vierne, as well as brand-new Icelandic compositions receiving their world premiere.
The concert features two world premieres by Hrafnkell Orri Egilsson. Fantasy on the Icelandic carol “Með gleðiraust og helgum hljóm” and Chaconne on the Icelandic carol “Hátíð fer að höndum ein”.
The programme also includes his Pastorale on the hymn “Nóttin var sú ágæt ein” (2022) by the same composer.
This concert is the perfect way to embrace the peace and beauty of the Christmas season.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN DECEMBER
Aftansöngur – Þorlákstíðir
Mánudagur 22. desember 2025 kl. 17:00
Ókeypis aðgangur
Cantores Islandiae flytja vesper úr Þorlákstíðum í Hallgrímskirkju mánudaginn 22. desember kl. 17.00. Þorlákstíðir eru tíðagjörð sem sungin er til heiðurs Þorláki helga Þórhallssyni, biskupi í Skálholti á 12. öld. Hann lést á Þorláksmessu árið 1193 en ekki leið á löngu þar til hann var tekinn í heilagra manna tölu, fyrstur Íslendinga. Þorlákstíðir hafa varðveist í handriti frá því um 1400 og er einstakur menningararfur Íslendinga og bera vitni þeirri stöðu sem Þorlákur hafði í kaþólskri tíð. Stjórnandi er Ágúst Ingi Ágústsson. Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel.
--ENGLISH--
Vespers – Officium S. Thorlaci
Monday December 22nd 2025 at 17hrs.
Free entrance
Cantores Islandiae perform Vespers from the Office of St. Thorlak in Hallgrímskirkja on Monday, December 22 at 5:00 p.m.
The Office of St. Thorlak is a liturgical service sung in honor of St. Thorlak Þórhallsson, bishop of Skálholt in the 12th century. He passed away on St. Thorlak’s Day in 1193, and it was not long before he was canonized—the first Icelander to be declared a saint. The Office of St. Thorlak has been preserved in a manuscript dating from around 1400 and is a unique part of Iceland’s cultural heritage, bearing witness to the reverence and importance St. Thorlak held in the Catholic era. Conductor is Ágúst Ingi Ágústsson and organist is Björn Steinar Sólbergsson.
21. desember – fjórði sunnudagur í aðventu
Víða höfðu vitringar vegi kannað hljóðir
11:00 Fjölskylduguðsþjónusta
Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson
Umsjón með barnastarfi: Rósa Hrönn Árnadóttir, Lára Ruth Clausen, Lilja Rut Halldórsdóttir, Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson
Barnakór Hallgrímskirkju syngur og leiðir söng
Stjórnandi: Fjóla Kristín Nikulásdóttir
Jólaball í safnaðarsalnum eftir guðsþjónustuna
Kl. 17:00 sama dag verður viðburðurinn Syngjum jólin inn! / Lessons and Carols! – Kórsöngur, almennur söngur & lestrar
Kór Hallgrímskirkju – Steinar Logi Helgason
Kammerkórinn Huldur – Hreiðar Ingi Þorsteinsson
Dómkórinn – Matthías Harðarson
Björn Steinar Sólbergsson, orgel
Ókeypis aðgangur og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir
Hallgrímskirkja – Þinn staður á aðventunni
Kyrrð, ró og íhugun ásamt óhefðbundinni tónlist fyrir kirkju.
Í kvöldkirkjunni er slökkt á símanum og samtölin eru látin bíða þar til út er komið. Prestar kirkjunnar lesa texta á hálfímta fresti og tónlistarflutningur stiður við íhugun og slökun. Öllum er frjálst að ganga hljóðlega um kirkjuna, setjast eða liggja í kirkjubekkjunum eða á dýnum á gólfinu, kveikja á kertum, færa sig á milli stöðva og skrifa það sem þeim liggur á hjarta á miða og setja í körfur.
Tónlist: Hugi Garðarsson
Kvöldkirkjan í desember verður fimmtudaginn 18. des kl. 20:00-22:00
Hallgrímskirkja - Þinn kyrrðarstaður
--ENGLISH--
The December Evening Church will take place on Thursday, 18 December, from 20:00–22:00.
Stillness, calm, and contemplation, accompanied by unconventional music for a church setting.
At the Evening Church, mobile phones are switched off and conversations set aside until you step back outside. The priests of Hallgrímskirkja read short texts at half-hour intervals, while music supports reflection and deep relaxation. Everyone is welcome to move quietly around the church, to sit or lie in the pews or on mats on the floor, light candles, move between different stations, and write down whatever lies on their heart on small notes to be placed in baskets.
Music: Hugi Garðarsson
Hallgrímskirkja – your place for stillness
SYNGJUM JÓLIN INN!
Verið velkomin í almennan söng, kórsöng og lestra sunnudaginn 21. desember klukkan 17:00 í Hallgrímskirkju.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Að syngja jólin inn er vel þekkt á Englandi og víða á Norðurlöndunum. Þar gefst kirkjugestum kostur á að undirbúa jólahátíðana með því að syngja marga af ástsælustu jólasálmunum auk þess að hlýða á fallegan kórsöng.
Kór Hallgrímskirkju, Dómkórinn í Reykjavík og Kammerkórinn Huldur syngja og leiða almennan söng undir stjórn Steinars Loga Helgasonar, Matthíasar Harðarsonar og Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið.
Prestar safnaðanna taka þátt í tónleikunum með lestrum úr ritningunni.
Hallgrímskirkja - Þinn staður í desember
--ENGLISH--
Lessons and carols
You are warmly invited to join in congregational singing, choral music, and readings on Sunday, December 21 at 5:00 PM in Hallgrímskirkja.
Admission is free, and everyone is welcome while space allows.
The tradition of “Lessons and carols” is well known in England and across the Nordic countries. It offers churchgoers the opportunity to prepare for the Christmas season by singing many of the most beloved Christmas hymns and enjoying beautiful choral music.
The Hallgrímskirkja Choir, the Reykjavík Cathedral Choir, and the Chamber Choir Huldur will perform and lead the congregational singing, conducted by Steinar Logi Helgason, Matthías Harðarson, and Hreiðar Ingi Þorsteinsson. Organist is Björn Steinar Sólbergsson.
Pastors from the participating congregations will take part in the concert with readings from Scripture.
Hallgrímskirkja – Your place in December
Fagnaðarboðin
11:00 Messa og sunnudagaskóli
14. desember 2025
– þriðji sunnudagur í aðventu
Prestur: Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson
Karlakór Reykjavíkur syngur undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar
Í Betlehem er barn oss fætt
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Lára Ruth Clausen, Lilja Rut Halldórsdóttir, Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir
Kl. 17 sama dag verða Jólatónleikar Kórs Hallgrímskirkju
Einsöngur: Hallveig Rúnarsdóttir
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson
Stjórnandi: Steinar Logi Helgason
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 4.900 kr.
Jólatónleikar Kórs Hallgrímskirkju verða næstkomandi sunnudag, 14. desember kl. 17.
Á tónleikunum verður flutt vönduð, vel valin jólatónlist og ástsælir jólasálmar. Undir stjórn Steinars Loga Helgasonar mun kórinn leiða okkur inn í anda jólanna ásamt fallegum söng Hallveigar Rúnarsdóttur og orgelleik Björns Steinars Sólbergssonar.
Efnisskráin fer með okkur í ferðalag um hina fornu frásögn, um kyrrð og eftirvæntingu aðventunnar og yfir í hátíðlega birtu jólanna, fögnuð englanna, og endurspeglar þá friðarósk sem jólin bera með sér.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 4.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA
– ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
--ENGLISH--
The Christmas Concert with the Hallgrímskirkja Choir will take place this coming Sunday, 14 December at 5 PM.
The programme features a rich selection of finely crafted Christmas music and beloved carols. Under the direction of Steinar Logi Helgason, the choir will guide us into the spirit of the season, joined by the beautiful singing of Hallveig Rúnarsdóttir and the organ playing of Björn Steinar Sólbergsson.
The repertoire takes us on a journey through the ancient Christmas story, from the stillness and anticipation of Advent to the festive light of Christmas, the joy of the angels, and the timeless message of peace that the season brings.
Tickets are available at Hallgrímskirkja and on tix.is. Admission: 4,900 ISK.
HALLGRÍMSKIRKJA
– YOUR PLACE IN DECEMBER
Hver er það sem knýr á dyr?
Messa í Hallgrímskirkju á öðrum sunnudegi í aðventu
7. desember 2025 kl. 11
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða.
Organisti er Steinar Logi Helgason.
Vox Feminae syngurundir stjórn Stefan Sand
og Aurora kammerkór syngur undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur.
Ljósin í aðventukransinum
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Erlendur Snær Erlendsson, Lilja Rut Halldórsdóttir
og Kristbjörg Katla Hinriksdóttir.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
HÁDEGISTÓNLEIKAR / Matinée
– Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?
Laugardagur 6. desember kl. 12
Tómas Guðni Eggertsson, orgel
Davíð Þór Jónsson píanó
Á þessum kyrrðartónleikum í aðdraganda jóla flytja Tómas Guðni Eggertsson organisti og Davíð Þór Jónsson píanisti valda jólasálmforleiki eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750). Forleikina er að finna í handritinu Orgelbüchlein, eða Lítil orgelbók, sem Felix Mendelssohn lét prenta á fyrri hluta 19. aldar.
Sálmforleikir meistara Bachs eru hér fluttir á nýstárlegan máta, sem spilafélagarnir tveir hafa þróað á undanförnum árum – og er enn í þróun – þar sem Davíð Þór spinnur á flygil kirkjunnar í kringum forleikina sem Tómas Guðni leikur á Klais-orgelið. Þá er registeringum orgelsins einnig breytt miðað við hefðbundinn flutning. Hvergi er þó hvikað frá virðingu við verkin sjálf og upphaflegt erindi þeirra.
Davíð Þór Jónsson (f. 1978) er meðal fremstu og fjölhæfustu tónlistarmanna landsins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið á tónlistarhátíðum víða um heim, gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda sviðsverka, kvikmyndir, útvarpsverk og sjónvarpsþætti og starfað náið með fjölda listamanna úr ólíkum geirum, má þar nefna náið samstarf hans og Ragnars Kjartanssonar. Davíð Þór hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin sem og alþjóðleg verðlaun fyrir kvikmyndatónlistina úr Hross í oss og Kona fer í stríð.
Tómas Guðni Eggertsson (f. 1974) lauk prófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum vorið 1996, hjá Vilhelmínu Ólafsdóttur. Hann hélt til framhaldsnáms við Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow, lauk þaðan BA-prófi 1999 og Postgraduate-námi ári síðar. Hann lauk einleiksáfanga í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 2007 og kantorsprófi í kjölfarið, hvar aðalkennari hans var Björn Steinar Sólbergsson. Í júní sl. útskrifaðist Tómas Guðni með meistarapróf í orgelleik frá Tónlistarháskólanum í Gautaborg, undir handleiðslu Karin Nelson.
Tómas Guðni hefur kennt tónlist víða um land, bæði á píanó og blásturshljóðfæri. Þá hefur hann starfað með ólíkum listamönnum í ýmsum geirum tónlistar, svo sem Ólafi Kjartani S
30. nóvember – fyrsti sunnudagur í aðventu
11:00 Messa og sunnudagaskóli
– Upphaf söfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar
Prestur: Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir prédikar
Messuþjónar aðstoða
Organisti: Björn Steinar Sólbergsson
Kór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Steinars Loga Helgasonar
Sælla er að gefa en þiggja - Hjálparstarf kirkjunnar
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Lilja Rut Halldórsdóttir, Ragnheiður Bjarnadóttir og María Elísabet Halldórsdóttir
Messa á fyrsta sunnudegi í aðventu verður í beinni útsendingu á www.ruv.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Á AÐVENTUNNI
Sýningin „Jólin hans Hallgríms“ hefur verið í Hallgrímskirkju síðustu níu ár og núna í tíunda sinn býður Hallgrímskirkja leikskóla- og grunnskólabörnum í Reykjavík og nágrenni, að koma í heimsókn í Hallgrímskirkju í aðdraganda jólanna. Sýningin byggir á samnefndri bók Steinunnar Jóhannesdóttur.
Í heimsókninni er skoðunarferð um kirkjuna og sagt frá kirkjumunum. Börnin fá stutta endursögn úr bókinni Jólin hans Hallgríms og hún segir frá undirbúningi jólanna hjá Hallgrími Péturssyni þegar hann var ungur drengur og hvernig jólin voru fyrir 400 árum á Íslandi. Verkefnið hefur fengið frábær viðbrögð.
Baðstofa verður sett upp fyrir sýninguna. Þar sem hægt verður að vitja jóla fortíðar. Í baðstofunni má finna muni sem fjallað er um í bókinni og leikararnir Níels Thibaud Girerd, Pálmi Freyr Hauksson og Guðmundur Einar Láru Sigurðsson töfra upp jólastemningu sem vísa til sögunnar.
Börnum á aldrinum 3 til 10 ára er boðið að koma í skóla- eða hópheimsókn.
Kennarar leik- og grunnskólabarna geta bókað geta bókað heimsókn á markaðstorgi Hallgrímskirkju á abler.io
Aðgangur er ókeypis!
LISTAHÁSKÓLINN Í HALLGRÍMSKIRKJU
Nemendatónleikar Listaháskóla Íslands– Sönglög Sveinbjörns Sveinbjörnssonar
Laugardagur 22. nóvember kl. 14
Ókeypis aðgangur
Tónlistardeild Listaháskóla Íslands í samvinnu við Hallgrímskirkju bjóða til árlegra nemendatónleika, samstarf sem hefur staðið í 11 ár.
Að þessu sinni eru tónleikarnir tileinkaðir sönglögum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Frægasta verk hans er án efa Lofsöngur, þjóðsöngur Íslendinga við texta Matthíasar Jochumssonar.
Á tónleikunum gefst áheyrendum færi á að heyra fjölbreytt úrval annarra fallegra sönglaga úr smiðju Sveinbjörns, flutt af hæfileikaríkum nemendum LHÍ.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
--ENGLISH--
Iceland University of the Arts in Hallgrímskirkja
Student Concert – Songs by Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Saturday November 22nd at 14hrs.
Free entry
The Department of Music at the Iceland University of the Arts, in collaboration with Hallgrímskirkja, invites you to the annual student concert, a partnership that has now been running for 11 years.
This year, the concert is dedicated to the songs of Sveinbjörn Sveinbjörnsson. His most famous work is undoubtedly Lofsöngur, the national anthem of Iceland, with lyrics by Matthías Jochumsson.
At this concert, the audience will have the opportunity to hear a varied selection of Sveinbjörnsson’s other beautiful songs, performed by talented students of the Iceland University of the Arts.
HALLGRÍMSKIRKJA – Your place in Reykjavík
Sunnudagur 23. nóvember 2025 kl. 11.00
Eilífðarsunnudagur
Messa
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Þakklætissunnudagaskóli
Sunnudagaskólinn er á sínum stað.
Umsjón: Kristbjörg Katla Hinriksdóttir, Lára Ruth Clausen og Erlendur Snær Erlendsson HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Móðurmálið mitt
Messa 16. nóvember 2025 kl. 11.
Dagur íslenskrar tungu. Næst síðasti sunnudagur kirkjuársins.
Prestur er Sr. Eiríkur Jóhannsson. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða sönginn. Organisti er Steinar Logi Helgason.
Jesús huggar og uppörvar
Sunnudagaskólinn er á sínum stað.
Umsjón: Lilja Rut Halldórsdóttir, Rósa Hrönn Árnadóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Opin sálmaæfing
Opin sálmaæfing verður fyrir messu, á Degi íslenskrar tungu, sunnudaginn 16. nóvember kl. 10:30 í Hallgrímskirkju
Langar þig til að syngja með í messum, en kannt ekki lögin? Á sunnudaginn nk. gefst tækifæri til að undirbúa sálma messunnar við Frobenius kórorgel Hallgrímskirkju.
Steinar Logi Helgason, organisti og kórstjóri kirkjunnar verður við orgelið ásamt félögum úr Kór Hallgrímskirkju.
Messan hefst kl. 11:00.
Fyllum kirkjuna af söng!
Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
--ENGLISH--
Open Hymn Rehearsal
Have you ever wanted to sing the hymns at the Sunday service but don't know the songs.
On Sunday the 16th of November at 10:30 is your chance at an open rehearsal of hymns before the service at Hallgrímskirkja.
Steinar Logi Helgasonb organist and choir conductor at Hallgrímskirkja will be at the Frobenius Choir Organ with members of The Choir of Hallgrímskirkja.
Service starts at 11:00.
Let's sing together!
Free entry and everyone is welcome.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK
INTERSTELLAR – tónleikarnir í Hallgrímskirkju síðastliðið föstudagskvöld voru ógleymanleg upplifun.
Tónlistin fyllti kirkjuna og lýsingin var mögnuð. Þetta var sannkallað ferðalag um stjörnurnar.
Við þökkum Roger Sayer og frábærum áheyrendahópi.
Við viljum einnig þakka @catgundrybeck kærlega fyrir þessar frábæru myndir.
--ENGLISH--
INTERSTELLAR – last Friday’s concert at Hallgrímskirkja was an unforgettable experience.
The music filled the church with light and sound that seemed to reach beyond time and space ☺️😉 ..a true journey among the stars.
Heartfelt thanks to everyone who came and listened, and to @catgundrybeck for these beautiful photos.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Guðsþjónusta í tilefni af Kristniboðsdeginum verður útvarpað úr Hallgrímskirkju
Sunnudagur 9. nóvember 2025 kl. 11
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónar fyrir altari. Guðlaugur Gunnarsson fyrrum kristniboði prédikar.
Lesarar eru Lilja Björk Jónsdóttir og Ingólfur Arnar Ármannsson.
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Sönghópur skipaður Ástu Arnardóttur, Elfu Drafnar Stefánsdóttur, Fjölni Ólafssyni, Guju Sandholt, Sólbjörgu Björnsdóttur, Þorbirni Rúnarssyni, Þorkatli Sigfússyni og Erni Ými Arasyni.
Hægt er að hlusta á guðsþjónustuna í útarpinu á Rás 1 kl. 11:00 eða í gegn um þennan hlekk á ruv.is: https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2025-11-09/5280342
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Sunnudagur 9. nóvember 2025 kl. 11
Handan orðanna
Messa
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið
Leiddu mína litlu hendi
Sunnudagaskólinn er á sínum stað
Umsjón: Erlendur Snær Erlendsson, Lára Ruth Clausen og María Elísabet Halldórsdóttir
HALLGRÍMSKIRKJA
INTERSTELLAR
Roger Sayer
Orgeltónleikar
ICELAND AIRWAVES PARTNER EVENT
Föstudagur 7. nóvember kl. 18
UPPSELT!! / SOLD OUT!!
Roger Sayer er upprunalegi orgelleikari tónlistarinnar úr Interstellar. Samstarf hans við Hans Zimmer árið 2014 leiddi af sér eina af eftirminnilegustu kvikmyndatónlistum sögunnar. Á efnisskránni verður m.a. Plánetusvítan eftir Gustav Holst og Interstellar eftir Hans Zimmer.
Interstellar sýnd í Sambíóunum í tengslum við tónleikana:
Í tilefni af heimsókn Roger Sayer til Íslands og sérstökum Interstellar-tónleikum verður kvikmyndin Interstellar einnig sýnd í Sambíóunum. Þetta gefur tónleikagestum og kvikmyndaunnendum einstakt tækifæri til að upplifa þessa mögnuðu kvikmynd aftur á stóru tjaldi, þar sem tónlistin hans Hans Zimmer og orgelleikur Roger Sayer gegna lykilhlutverki. Hægt verður að nálgast miða á heimasíðu Sambíóanna: https://new.sambio.is/event/1773/interstellar_2014
Kvikmyndin Interstellar verður sýnd í Sambíóunum í Egilshöll og á Akureyri 5. nóv kl 20:00
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju
Alla fimmtudaga kl. 12 yfir vetrartímann
Organistar kirkjunnar leika tónlist á orgelið og prestar kirkjunnar leiða stutta hugleiðingu.
Að stund lokinni er boðið upp á létta hádegishressingu í suðursal Hallgrímskirkju.
HALLGRÍMSKIRKJA – þinn kyrrðarstaður
--ENGLISH--
Organ and Meditation at Hallgrímskirkja
Every Thursday at 12:00 during the winter season
The church organists play music on the organ, and the pastors lead a short meditation.
Afterwards, a light lunch is served in the South Hall of Hallgrímskirkja.
HALLGRÍMSKIRKJA – your place of peace
Morgunmessan fellur niður
Vegna slæmra veðurskilyrða verður morgunmessan í fyrramálið, miðvikudaginn 29. október, felld niður.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.
Við hlökkum til að sjá ykkur aftur þegar aðstæður batna.
--ENGLISH--
Morning Service cancelled
Due to severe weather conditions, the morning service scheduled for tomorrow, Wednesday 29th of October, will be cancelled.
We apologize for any inconvenience this may cause and look forward to welcoming you again when conditions improve.
Lumière Céleste – Himneskt ljós
Hádegistónleikar / Matinée
Laugardagur 1. nóvember kl. 12.00
Björn Steinar Sólbergsson organisti
Sólbjörg Björnsdóttir sópran
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Miðaverð: 2.900 kr.
Á þessum tónleikum flytja Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju, og sópransöngkonan Sólbjörg Björnsdóttir falleg verk eftir frönsk og íslensk tónskáld. Laugardagurinn 1. nóvember ber upp á Allraheilagramessu og mótast efnisskráin af því.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
--ENGLISH--
Lumière Céleste – Heavenly Light / Matinée
Saturday November 1st at 12hrs
Björn Steinar Sólbergsson organist
Sólbjörg Björnsdóttir soprano
Tickets available at Hallgrímskirkja and on tix.is
Admission: ISK 2.900
Join us for a lunchtime concert at Hallgrímskirkja on Saturday, 1 November at 12:00. Organist Björn Steinar Sólbergsson and soprano Sólbjörg Björnsdóttir perform beautiful works by French and Icelandic composers.
The concert is held on All Saints’ Day, when we remember those who have departed and give thanks for their lives and their light.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK
Kodály – Missa brevis og íslensk kórverk
Sunnudagur 2. nóvember kl. 17.00
Kammerkór Norðurlands & Hymnodia
Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi
Eyþór Ingi Jónsson, orgel
Á Allraheilagramessu sunnudaginn 2. nóvember hljómar mikilfengleg tónlist í Hallgrímskirkju þegar Kammerkór Norðurlands og Hymnodia sameinast undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar.
Flutt verður hin áhrifamikla Missa Brevis eftir Zoltán Kodály (1882–1967), auk íslenskra tónverka.
Miðasala: í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir: 4.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Hallgrímskirkja styður baráttuna á Kvennafrídaginn 2025
Í tilefni kvennafrídagsins viljum við sýna samstöðu og hvetja til jafnréttis.
Allar konur og kvár eru velkomin í turninn frítt í dag. Sjáum göturnar fyllast af fólki sem styður jafnréttisbaráttuna!
Njótum útsýnisins og stöndum saman fyrir jafnrétti.
Hallgrímskirkja – Þinn staður á kvennafrídaginn
HALLGRÍMSDAGURINN
HÁTÍÐARMESSA Á VÍGSLUAFMÆLI HALLGRÍMSKIRKJU
Sunnudagur 26. október 2025 kl. 11
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Eiríki Jóhannssyni.
Messuþjónar aðstoða
Kór Hallgrímskirkju leiðir söng undir stjórn Steinars Loga Helgasonar
Forsöngvari: Þorbjörn Rúnarsson.
Trompetleikarar: Guðmundur Hafsteinsson og Zackarias Silberschlag
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Messunni verður útvarpað á Rás 1
Sunnudagaskóli / Talenturnar - æfingin skapar meistarann
Umsjón með barnastarfinu hafa María Elísabet Halldórsdóttir, Ragnheiður Bjarnadóttir og Rósa Hrönn Árnadóttir.
Hausttónleikar Kórs Hallgrímskirkju verða sama dag kl. 17.00
Aðgangseyrir er 4.900 kr. og fer miðasala fram á tix.is og í Hallgrímskirkju
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Kór Hallgrímskirkju býður til Hausttónleika í Hallgrímskirkju sunnudaginn 26. október kl 17.
Fluttar verða perlur úr kirkjutónlistarsögunni fyrir kór án undirleiks. Efnisskráin er þrískipt og verður byrjað á þremur öndvegisverkum þýsk/austurrísku rómantíkurinnar eftir Mendelssohn, Bruckner og Reger. Þá kemur að nýlegum verkum við latneska texta eftir íslensk tónskáld sem öll voru pöntuð af Kór Hallgrímskirkju.
Í lokin er athyglinni beint að 20. og 21. öldinni með mótettum eftir John Tavener, Knut Nystedt og Arvo Pärt, en Pärt fagnaði einmitt níræðisafmæli nú í september.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 4.900 KR.
Hallgrímskirkja – þinn staður
ENGLAR GUÐS ÞEIR VAKA YFIR MÉR – ALLA DAGA
Fjölskylduguðsþjónusta í Hallgrímskirkju
Sunnudaginn 19. október 2025 kl. 11
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Drengjakór Reykjavíkur syngur undir stjórn Þorsteins Freys Sigurðssonar
Einsöngur: Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, nemandi í Listaháskóla Íslands
Umsjón með barnastarfi: Ragnheiður Bjarnadóttir og María Elísabet Halldórsdóttir
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Hallgrímsmessa í Hallgrímskirkju
Miðvikudaginn 22. október, 2025, klukkan 20.00
Kór Breiðholtskirkju, stjórnandi Örn Magnússon.
Sungið er messutón úr Graduale frá Hólum (1594) og inn í það fléttað sálmum meðal annars eftir Hallgrím Pétursson og Jón Þorsteinsson píslarvott. Ekkert hljóðfæri er notað við messugjörðina. Forsöngvarar eru úr hópi kórfélaga.
HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR
Sunnudagur 12. október 2025 kl. 11
Heiðurssæti – Hefðarsæti
Messa
Prestur: Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er Steinar Logi Helgason
Vináttusunnudagaskóli
Sunnudagaskólinn er á sínum stað.
Umsjón: Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Erlendur Snær Erlendsson
Miðasala er hafin á tónleikana Samhljómur kynslóða á Listahátíð í Reykjavík á tix.is
Samhljómur kynslóða: Hildur Guðnadóttir og Jón Nordal
Á tónleikum Kórs Hallgrímskirkju á Listahátíð í Reykjavík verður tveimur áhrifamiklum tónskáldum telft saman, annarsvegar Hildi Guðnadóttur, hátíðarlistamanni Listahátíðar og hinsvegar Jóni Nordal sem hefði orðið 100 ára vorið 2026.
Á tónleikunum verða flutt nokkur af verkum Hildar sem hún hefur samið fyrir kór ásamt stórvirki Jóns, Óttusöngvar á vori (1993) fyrir kór, sópran, kontratenór, orgel, selló og slagverk. Meðal flytjenda er einsöngvarinn Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og er stjórnandi Steinar Logi Helgason.
____________
Ticket sale for Generations in Harmony at Reykjavik’s Art Festival has started ✨ at tix.is
Generations in Harmony: Hildur Guðna and Jón Nordal
At the concert with Hallgrímskirkja Choir on Sunday 7 June at 17:00, we turn our gaze to the past, present and future and exploring the connections in between. Two influentioal composers are set in contrast: Hildur on the one hand and Jón Nordal on the other, who would have turned 100 in the spring of 2026.
A selection of Hildur’s choral works will be performed alongside Jón’s masterpiece, Óttusöngvar á vori (1993) for choir, soprano, countertenor, organ, cello and percussion. Among performers is soloist Álfheiður Erla Guðmundsdóttir and conductor is Steinar Logi Helgason.
Hallgrímskirkja í bleikum ljóma í október
Í októbermánuði klæðist Hallgrímskirkja bleikum ljóma í samstöðu með þeim hetjum sem greinst hafa með krabbamein og í stuðningi við vitundarvakningu um forvarnir og snemmbæra greiningu.
Bleikur október er árleg herferð Krabbameinsfélags Íslands sem minnir okkur á mikilvægi þess að huga að heilsunni, sýna samhug og styrkja þá sem standa í baráttu við sjúkdóminn.
Bleiki dagurinn í ár verður miðvikudaginn 22. október 2025.
Það er okkur í Hallgrímskirkju hjartans mál að leggja þessu fallega og mikilvæga málefni lið. Ljós kirkjunnar ber von, hlýju og kærleik og er tákn um samstöðu og trú á lífið.
Við hvetjum gesti og vegfarendur til að staldra við, líta upp í bleika ljósið og leyfa voninni að skína í myrkri.
Mynd: SB
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Heyrir einhver neyðarkall?
Messa í Hallgrimskirkju
Sunnudagur 5. október 2025 kl. 11
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Opin sálmaæfing Fyrir messuna er opin sálmaæfing við Frobenius kórorgel kirkjunnar. Æfingin hefst kl. 10:30.
Jesús elskar okkur nákvæmlega eins og við erum
Sunnudagaskólinn er á sínum stað.
Umsjón: Lilja Rut Halldórsdóttir, Lára Ruth Clausen og Ragnheiður Bjarnadóttir
Hallgrímskirkja – Þinn staður
Opin sálmaæfing
Opin sálmaæfing verður fyrir messu sunnudaginn 5. október kl. 10:30 í Hallgrímskirkju
Langar þig til að syngja með í messum, en kannt ekki lögin?
Á sunnudaginn nk. gefst tækifæri til að undirbúa sálma messunnar við Frobenius kórorgel Hallgrímskirkju.
Björn Steinar Sólbergsson, organisti kirkjunnar verður við orgelið ásamt félögum úr Kór Hallgrímskirkju.
Messan hefst kl. 11:00. Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
Fyllum kirkjuna af söng!
HALLGRÍMSKIRKJA – Þinn staður
--ENGLISH--
Hymn rehearsal
Have you ever wanted to sing the hymns at the Sunday service but don't know the songs.
On Sunday the 5th of October at 10:30 is your chance at an open rehearsal of hymns before the service at Hallgrímskirkja.
Björn Steinar Sólbergsson organist will be at the Frobenius Choir Organ with members of the Choir of Hallgrímskirkja.
Service starts at 11:00.
Let's sing together!
Free entry and everyone is welcome.
HALLGRÍMSKIRKJA – Your place in Reykjavík
Sál tékkneskrar tónlistar í hjarta Reykjavíkur
– The Soul of Czech Music in the Heart of Reykjavík
Hádegistónleikar í Hallgrímskirkju
Laugardaginn 4. október 2025 kl. 12:00
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is. Miðaverð: 2.900 kr.
Næstkomandi laugardag 4. október kl. 12. verða fallegir tónleikar í Hallgrímskirkju þar sem sópransöngkonan Viera Gulázsi Maňásková og organistinn Lenka Mátéová flytja verk eftir tékknesku tónskáldin Dvořák, Janáček og Martinů.
Þar verða á efnisskránni m.a. trúarleg tónverk, ljóðræn sönglög og hin ódauðlega aría Song to the Moon úr óperunni Rusalka.
Þetta er einstakt tækifæri til að njóta tékkneskrar tónlistar í fallegu umhverfi Hallgrímskirkju.
Hallgrímskirkja – Þinn tónleikastaður
Sunnudagur 28. september kl. 11
Messa
– Áhyggjufull?
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða.
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Sunnudagaskóli
– Jesús er alltaf hjá okkur!
Sunnudagaskólinn er að sjálfsögðu á sínum stað.
Umsjón: Rósa Hrönn Árnadóttir, Kristbjörg Katla Hinriksdóttir og Lára Ruth Clausen
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Fyrsta kvöldkirkja að hausti
Fimmtudagur 25. september milli kl. 20.00-22.00
Kyrrð, ró og íhugun ásamt óhefðbundinni tónlist fyrir kirkju.
Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi kirkjunnar. Ólíkt í hefðbundnu helgihaldi geta gestir farið um kirkjurýmið setst niður eða lagst á dýnur eða kirkjubekki, kveikt á kertum eða skrifað það sem þeim liggur á hjarta á miða og sett í körfur.
Prestar Hallgrímskirkju og kirkjuhaldari, Grétar Einarsson sjá um stundina.
Tónlist: Kira kira
Hallgrímskirkja - Þinn íhugunarstaður!
--ENGLISH--
Evening Church
Thursday 25th of September from 20:00-22:00
Music: Kira kira
The evening church is an unconventional time in form and content. The atmosphere is informal and relaxed. Lighting, music and short reflections intertwine with the stillness and tranquility of the space. We invite you to meditate, pray, walk around, light candles, write down your thoughts or prayers or sit in the pews or rest on the mattresses in the church.
VOCES8 & Pétur Sakari: Twenty!
20 ár með VOCES8
Laugardagur 27. september kl. 17.00
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 9.500 kr.
Komdu og fagnaðu 20 ára afmæli heimsþekkta sönghópsins VOCES8 með glæsilegum tónleikum í Hallgrímskirkju!
Á efnisskránni eru mörg af þeirra ástsælu kórverkum – bæði sígildar perlur og nýleg meistaraverk. Með þeim leikur hinn magnaði finnski konsertorganisti Pétur Sakari, sem bætir við krafti og dýpt í tónlistarflutninginn.
VOCES8 býður áheyrendum í ógleymanlegt tónlistarferðalag í gegn um aldirnar.
Ekki missa af þessum einstöku tónleikum þar sem fagnað er glæsilegum 20 árum í þjónustu tónlistarinnar.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
--ENGLISH--
VOCES8 & Pétur Sakari: Twenty!
Songs from 20 years
Saturday September 27th at 17hrs.
Tickets available @ Hallgrímskirkja & on Tix.is. Admission ISK. 9.500
Join us for a celebration of the first 20 years of VOCES8 and their first performance in Iceland! Featuring music from across the centuries VOCES8 looks back at some of the music they have grown up with as well as sing pieces by contemporary composers including Caroline Shaw, Arvo Pärt and Ólafur Arnalds. Finnish organist Pétur Sakari will also join them in this special concert.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK!
Fyrsta kyrrðarstund að hausti í Hallgrímskirkju verður fimmtudaginn næstkomandi, 18. september kl. 12.
Vikulega er boðið upp á kyrrðarstund í Hallgrímskirkju yfir vetrartímann. Organistar kirkjunnar leika tónlist á orgelið og prestar kirkjunnar leiða stutta hugleiðingu .
Eftir stundina er boðið upp á létta hádegishressingu í suðursal Hallgrímskirkju.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN KYRRÐARSTAÐUR
VOCES8 & Pétur Sakari: Twenty!
20 ár með VOCES8
Laugardagur 27. september 2025 kl. 17.00
Miðasala í Hallgrímskirkju og á Tix.is
Komdu og fagnaðu 20 ára afmæli heimsþekkta sönghópsins VOCES8 með glæsilegum tónleikum í Hallgrímskirkju!
Á efnisskránni eru mörg af þeirra ástsælu kórverkum – bæði sígildar perlur og nýleg meistaraverk. Með þeim leikur hinn magnaði finnski konsertorganisti Pétur Sakari, sem bætir við krafti og dýpt í tónlistarflutninginn.
VOCES8 býður áheyrendum í ógleymanlegt tónlistarferðalag í gegn um aldirnar.
Ekki missa af þessum einstöku tónleikum þar sem fagnað er glæsilegum 20 árum í þjónustu tónlistarinnar.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
--ENGLISH--
VOCES8 & Pétur Sakari: Twenty!
Songs from 20 years
Saturday September 27th 2025 at 17hrs.
Tickets at Hallgrímskirkja & tix.is
Join us for a celebration of the first 20 years of VOCES8 and their first performance in Iceland! Featuring music from across the centuries VOCES8 looks back at some of the music they have grown up with as well as sing pieces by contemporary composers including Caroline Shaw, Arvo Pärt and Ólafur Arnalds. Finnish organist Pétur Sakari will also join them in this special concert.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK
Sunnudagur 14. september 2025 kl. 11
Messa
Náungakærleikur og miskunnarverk
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Steinar LOgi Helgason
Sunnudagaskóli
Dagur Díakoníunnar / Miskunnsami samverjinn
Umsjón: Rósa Hrönn Árnadóttir, Erlendur Snær Erlendsson og Lára Ruth Clausen
Kynningarfundur með fermingarbörnum og foreldrum 2026
Verður eftir messu kl. 12.15. Farið verður yfir fyrirkomulag fermingarfræðslunnar í vetur í Hallgrímskirkju.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Lyklar að læstu húsi
og Gleðisunnudagaskóli
Messa og upphaf barnastarfs
Sunnudagur 7. september 2025 kl. 11.00
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari, messuþjónar aðstoða, félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng. Organisti er Steinar Logi Helgason.
Umsjón Gleðisunnudagaskóla: Lára Ruth Clausen, Kristbjörg Katla Hinriksdóttir, Lilja Rut Halldórsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Ljósið í 90 ár
Laugardagur 6. september kl 12
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir: 2.900 kr.
Tónleikar Erlu Rutar Káradóttur og Guju Sandholt eru tileinkaðir ljósinu og tveimur afmælisbörnum sem verða – eða hefðu orðið – níræð um þessar mundir.
Sameiginlegt þeim er að vera sannkallaðar ljósverur sem hafa með sköpun, miðlun, tilveru og nærveru varpað birtu yfir samferðafólk sitt. Erla Stefánsdóttir hefði orðið 90 ára þann 6. september – á sjálfan tónleikadaginn. Af því tilefni minnumst við hennar með frumflutningi verks eftir Guðnýju Einarsdóttur, fyrrum nemanda Erlu, við ljóð eftir Erlu sjálfa, Uppsprettu náðarinnar. Erla bjó og starfaði í Reykjavík sem píanókennari og sjáandi. Hún rak hugleiðsluskólann Lífssýn mín, þar sem hún veitti mörgum dýrmæta leiðsögn í andlegum efnum. Margir af nemendum hennar starfa enn við tónlist. Erla lést árið 2015.
Eistneska tónskáldið Arvo Pärt verður níræður þann 11. september næstkomandi. Hann er eitt frægasta núlifandi tónskáld veraldar og nýtur víðtækrar virðingar meðal tónlistarmanna jafnt sem almennra hlustenda. Pärt er þekktur fyrir trúarleg verk sín og einstaka höfundarödd sem hefur haft djúpstæð áhrif á samtímatónlist. Hann þróaði hinn svonefnda tintinnabuli-stíl á áttunda áratugnum, sem einkennist af einfaldleika, tærum tónum og hugleiðandi kyrrð. Verk hans, á borð við Fratres, Spiegel im Spiegel og Tabula Rasa, hafa snert hjörtu fólks um allan heim og skapað rými fyrir innri íhugun og ró.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
20 ár með Voces8
Við hlökkum ótrúlega til að fá þennan frábæra sönghóp í Hallgrímskirkju þann 27. september kl. 17.00
Á þessum 20 ára afmælistónleikum VOCES8 flytja þau mörg af sínum uppáhalds kórverkum og vinsælustu lögunum úr ferlinum. Með þeim er finnski konsertorganistinn Pétur Sakari.
Við lofum ykkur einstöku tónlistarferðalagi í gegnum aldirnar, með söng sem snertir hjörtun.
Miðar: 9.500 kr. fást í Hallgrímskirkju og á tix.is.
Við getum ekki beðið eftir að deila þessari upplifun með ykkur!
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Sátt við Guð?
Messa sunnudaginn 31. ágúst 2025 kl. 11
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða.
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Pétur Nói Stefánsson.
Holte kammerkor tekur þátt í messunni og syngur undir stjórn Steen Lindholm.
Einnig verða pop-up tónleikar með kórnum eftir messu.
Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR!
Frá og með mánudeginum 1. september 2025 tekur gildi vetraropnun í Hallgrímskirkju.
Kirkjan verður opin alla daga frá kl. 10–17. Turn og kirkjubúð frá 10-16.45.
Við þökkum öllum gestum kærlega fyrir heimsóknir í sumar og hlökkum til að taka á móti ykkur í haust og í vetur.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
-- English--
From Monday, September 1st 2025, winter opening hours will apply at Hallgrímskirkja.
The church will be open daily from 10AM – 5PM. Tower and church shop will be open from 10AM – 4:45PM
We warmly thank all our visitors for a wonderful summer and look forward to welcoming you in the autumn and winter season.
HALLGRÍMSKIRKJA – YOUR PLACE IN REYKJAVÍK
#hallgrimskirkja #reykjavik #opnunartímar #openinghours
Jesús grætur
Messa í Hallgrímskirkju
Sunnudagur 24. ágúst 2025 kl. 11:00
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson Eftirspil leikur Mario Ciferri sunnudagsorganisti Orgelsumars í Hallgrímskirkju 2025
Kl. 17:00 sama dag eru Lokatónleikar Orgelsumarsins.
Sunnudagur 24. ágúst kl. 17:00
Mario Ciferri orgel San Giorgio Cattedrale
Ítalski organistinn Mario Ciferri flytur fjölbreytta og kraftmikla dagskrá þar sem stórvirki eftir Bach hljóma við hlið rómantískra og síðrómantískra meistaraverka. Á efnisskránni eru meðal annars hið tilkomumikla Praeludium og fúga í a-moll eftir Bach, ljóðræn verk eftir Bossi og Busoni, dramatísk tónlist Liszts í úrvinnslu Max Reger og loks þrír glæsilegir kaflar úr 6. orgelsinfóníu Widors.
Tónleikarnir marka hátíðlegan endi á Orgelsumri í ár og bjóða upp á stórbrotna orgeltónlist í einstöku hljóðrými Hallgrímskirkju.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
LOKATÓNLEIKAR ORGELSUMARS Í HALLGRÍMSKIRKJU 2025 Sunnudagur 24. ágúst kl. 17:00
Mario Ciferri orgel San Giorgio Cattedrale
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.900 kr.
Mario Ciferri er fæddur í Fermo á Ítalíu. Hann útskrifaðist með tónlistargráður í píanóleik, orgelleik, hljómsveitarstjórn, semballeik og kirkjutónlist með hæstu einkunnum frá tónlistarháskólum í Bologna, Róm og Pesaro. Hann hefur einnig numið tónsmíðar og sótt sérmenntun hjá mörgum heimsþekktum kennurum.
Hann hefur unnið til verðlauna í innlendum og alþjóðlegum keppnum, m.a. í orgelleik, og hlaut styrk frá Rossini-stofnuninni árið 1993. Sem flytjandi hefur hann komið fram á virtum tónlistarhátíðum og í helstu dómkirkjum og tónleikasölum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og Rússlandi.
Ciferri leikur tónlist sem spannar allt frá barokki til nútímatónlistar. Hann hefur m.a. frumflutt og tekið upp verk ítalskra tónskálda frá Marche-héraði og starfað með fjölmörgum sinfóníuhljómsveitum. Hann hefur einnig stjórnað kórum og barokkhópunum í flutningi á verkum eftir m.a. Bach, Händel, Mozart og Fauré.
Hann kennir orgelleik, gregorskan söng, semballeik og kórstjórn við Tónlistarháskólann í Fermo og er aðalorganisti og listrænn stjórnandi Alþjóðlegrar orgelhátíðar í dómkirkjunni í Porto San Giorgio.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
SÁLMAFOSS Í HALLGRÍMKIRKJU
Á MENNINGARNÓTT 2025
Laugardagur 23. ágúst kl. 14-18
Dagskrá fyrir börn í kirkjunni kl. 14-16
Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
Á Sálmafossi verður opin kirkja og sálminum fagnað í sinni fjölbreyttustu mynd af öllum kynslóðum.
Kirkjan fagnar sálmum með Sálmafossi í Hallgrímskirkju milli 14-18 á Menningarnótt laugardaginn 23. ágúst 2025.
Sálmafoss var fyrst haldinn í Hallgrímskirkju árið 2007 að frumkvæði Harðar Áskelssonar fyrrum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og organista í Hallgrímskirkju.
Á efnisskránni er: Almennur söngur, kórsöngur, orgelleikur, sálmaspuni, sálmforleikir, kirkjukórar og nýsköpun.
Gestgjafar eru sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og sr. Eiríkur Jóhannsson prestar í Hallgrímskirkju.
Dagskrá verður fyrir börnin inni í kirkjunni laugardaginn 23. ágúst milli 14-16
Á Menningarnótt geta börn og fjölskyldur komið í Hallgrímskirkju og tekið þátt í barnadagskrá. Boðið verður upp á Sálmafoss barnanna, regnboga- og Hallgrímskirkju - kórónugerð fyrir börnin.
Nánari dagskrá má finna á heimasíðu Hallgrímskirkju: https://www.hallgrimskirkja.is/is/dagatal/dagatal-listi/salmafoss-menningarnott-i-reykjavik-orgelsumar-i-hallgrimskirkju-2025
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Á MENNINGARNÓTT
Treyst fyrir réttlætinu
Messa sunnudaginn 17. ágúst kl. 11
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða.
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Sunnudagsorganisti Orgelsumars í Hallgrímskirkju Johann Vexo flytur eftirspil.
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU
Sama dag kl. 17:00 leikur hinn heimsþekkti Johann Vexo, aðalorganisti í Notre-Dame dómkirkjunni í Nancy tónleika á Orgelsumri í Hallgrímskirkju.
Á efnisskránni eru meistaraverk eftir Bach, Widor, Litaize og Jehan Alain.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Sunnudagur 17. ágúst kl. 17:00
Johann Vexo orgel Cathédrale Notre-Dame-de-l'Annonciation de Nancy
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.900 kr.
Johann Vexo organisti Notre-Dame dómkirkjunnar í Nancy flytur franska orgeltónlist af mikilli nákvæmni.
Johann Vexo fæddist árið 1978 í Nancy í Frakklandi. Hann lærði orgelleik við tónlistarskólann í Strasbourg hjá Christophe Mantoux og síðar við Parísarkonservatoríið, m.a. hjá Michel Bouvard og Olivier Latry í orgelleik og Thierry Escaich og Philippe Lefebvre í spunatónlist. Hann lauk námi með hæstu einkunnum í orgelleik, basso continuo, hljómfræði og gagnkvæmni.
Aðeins 25 ára hlaut hann stöðu kórorganista við Notre-Dame dómkirkjuna í París. Í dag er hann aðalorganisti við Cavaillé-Coll-orgelið í dómkirkjunni í Nancy og kennari við tónlistarskólann og tónlistarakademíuna í Strasbourg.
Hann hefur komið fram á tónleikum víða um heim, þar á meðal í Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Rússlandi. Hann hefur einnig haldið meistaranámskeið við virtar stofnanir og háskóla og gefið út fjölda hljóðrita, m.a. með upptöku frá Notre-Dame í París.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Steinar Logi Helgason organisti í Hallgrímskirkju leikur hádegistónleika þar sem hljómur Klais orgelsins fær að njóta sín.
Steinar Logi Helgason lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja Tónlistarskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og tók þar kirkjuorganistapróf en lauk síðar bakkalárgráðu af kirkjutónlistarbraut Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði stjórnandanám til meistaraprófs við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan í lok árs 2020. Hann hefur stjórnað fjölda kóra og starfað víða sem organisti, píanóleikari og stjórnandi. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2021 ásamt Cantoque Ensemble sem tónlistarhópur ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Steinar Logi tók við stöðu kórstjóra Hallgrímskirkju haustið 2021.
Efnisskrá:
Prelúdía og fúga í a- moll, BWV 543
Johann Sebastian Bach
Chant donné (Hommage à Jean Gallon)
Maurice Duruflé
Wenn wir in höchsten Nöten sein, BWV 641
Johann Sebastian Bach
Méditation
Maurice Duruflé
Vor deinen Thron tret ich, BWV 668
Johann Sebastian Bach
Toccata úr Svítu op. 5
Maurice Duruflé
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Raddprufur — Kór Hallgrímskirkju
Raddprufur Kórs Hallgrímskirkju fyrir haustið 2025 fara fram í lok ágústmánaðar. Laus pláss í 1. sópran, 1. tenór, 1. bassa og 2. bassa.
Gerð er krafa um fyrri kórreynslu og færni í nótnalestri. Kórinn æfir á þriðjudagskvöldum klukkan 19-22 auk mánaðarlegra raddæfinga.
Verkefni kórsins í vetur verða meðal annars: a capella hausttónleikar með verkum eftir Bruckner, Mendelssohn, Reger, Tavener, Hjálmar H. Ragnarsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og fleiri; upptökur á nýjum íslenskum kórverkum, jólatónleikar með Birni Steinari Sólbergssyni organista ásamt einsöngvara og viðburðurinn Syngjum jólin inn. Kórinn tekur virkan þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju.
Stjórnandi kórsins er Steinar Logi Helgason.
Áhugasamir hafi samband fyrir 25. ágúst 2025 á netfangið kor@hallgrimskirkja.is
Hinsegin dagar eru hafnir og af því tilefni eru tröppurnar í Hallgrímskirkju skreyttar regnboganum.
Hinsegin dagar eru mikilvægir. Þeir vekja athygli á misrétti og ofbeldi og rjúfa þögnina.
Gleðigangan sem er hápunktur hátíðarinnar fer af stað laugardaginn 9. ágúst 2025 kl. 14. frá Hallgrímskirkju að vanda.
Hallgrímskirkja styður við réttindabaráttu hinsegin samfélagsins og óskar öllum gleðilegra Hinsegin daga.
Úr sálmi 505:
Ó ást sem faðmar allt!
1 Ó, ást, sem faðmar allt! Í þér
minn andi þreyttur hvílir sig,
þér fús ég offra öllu hér,
í undradjúp þitt varpa mér.
Þín miskunn lífgar mig.
2. Ó, fagra lífsins ljós er skín
og lýsir mér í gleði' og þraut,
mitt veika skar, það deyr og dvín,
ó, Drottinn minn, ég flý til þín
í dagsins skæra skaut.
3. Ó, gleði' er skín á götu manns
í gegnum lífsins sorgarský.
Hinn skúradimmi skýjafans
er skreyttur litum regnbogans
og sólin sést á ný.
George Matheson 1882 – Sigurbjörn Sveinsson, 1931 – Sb. 1972
HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐURINN OKKAR
Undradjúp elskunnar
Messa sunnudaginn 10. ágúst 2025 kl. 11
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða.
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Steinar Logi Helgason.
Stefan Kagl sunnudagsorganisti Orgelsumars flytur eftirspilið.
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU
Kl. 17:00 sama dag ger Stefan Kagl organisti frá Herford Münster með áheyrendur í tónlistarferð til norðurs og suðurs.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is og er aðgangseyrir 3.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Í SUMAR
Bæn fyrir íbúa Gasa:
Friðarins Guð.
Við biðjum þig fyrir öllum þeim sem þjást og líða á Gasa. Þrátt fyrir að við séum langt frá átökum og þjáningum þeirra sem þar líða þá finnum við fyrir sársauka þeirra. Við upplifum vanmátt, sorg og angist með systkinum okkar á Gasa. Hjálpa þeim að missa ekki vonina jafnvel þegar staðan virðist vonlaust. Guð, hjálpa okkur að gleyma aldrei þeim sem þjást í þessum heimi. Gef þeim sem hafa völd til þess að leggja niður vopn og koma á friði, sanna löngun til þess að nýta áhrif sín til góðs. Guð gef frið á Gasa.
Í Jesú nafni, Amen.
Sunnudagur 10. ágúst kl. 17:00
Stefan Kagl: Tónlistarferð um Evrópu
Þýski organistinn Stefan Kagl, tónlistarstjóri Herford dómkirkjunnar, kemur fram með glæsilega efnisskrá sem teygir sig frá Sibeliusi og Bach til frumsaminna verka sem honum hafa verið tileinkuð. Kagl hefur víðfeðman feril að baki sem einleikari og útgefandi, og er virtur túlkur evrópskrar orgeltónlistar.
Á tónleikunum hljóma m.a. verk eftir Jean Langlais, Edvard Grieg og Kagl sjálfan, sem dregur upp myndræna og fjölbreytta tónlistarferð til norðurs og suðurs.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Orgelsumar í Hallgrímskirkju
Laugardagur 9. ágúst kl. 12
Fallegt samspil orgels og harmonikku
Eyþór Ingi Jónsson, organisti Akureyrarkirkju, og Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari leiða saman krafta sína í sérstakri tónleikaupplifun þar sem orgel og harmonikka mætast í nýjum og óvenjulegum og glæsilegum hljóðheimi.
Á efnisskránni eru m.a. verk eftir J.S. Bach, Sigvalda Kaldalóns og Astor Piazzolla.
Eyþór Ingi hefur víðtæka menntun og reynslu sem einleikari, kórstjóri og kennari, og er einn af fremstu orgelleikurum landsins.
Jón Þorsteinn er virkur í íslensku tónlistarlífi og þekktur fyrir frumlega nálgun og fjölbreytt verkefni með ýmsum hópum.
Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir: 2.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Gjafari lífsins
Messa í Hallgrímskirkju
Sunnudagur 3. ágúst 2025 kl. 11.00
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari
Messuþjónar aðstoða. Kvartett skipaður Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur, Jóhönnu Ósk Valsdóttur, Þorbirni Rúnarssyni og Kristjáni Karli Bragasyni leiðir sönginn í messunni. Organisti er Matthías Harðarson. Sunnudagsorganisti Orgelsumars í Hallgrímskirkju Tommaso Maria Mazzoletti leikur eftirspilið.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Í SUMAR
Accio Piano Trio í Hallgrímskirkju
Pop-up tónleikar föstudaginn 1. ágúst kl. 14.00
Ókeypis aðgangur og kirkjan opin öllum
Við fáum til okkar frábæra gesti, Accio Piano Trio frá Austurríki sem stígur á stokk í Hallgrímskirkju föstudaginn 1. ágúst 2025 kl. 14:00
Tríóið var stofnað árið 2013 við Mozarteum háskólann í Salzburg og skipað þeim Christina Scheicher (píanó), Clemens Böck (fiðla) og Anne Sophie Keckeis (selló). Þau hafa hlotið fjölmörg verðlaun fyrir frammistöðu sína og voru nýverið valin menningarfulltrúar Austurríkis 2025/26 í gegnum NASOM-verkefnið (New Austrian Sound of Music).
Á efnisskránni er fjölbreytt og kraftmikil dagskrá undir yfirskriftinni „On fire, light and dark“ þar sem m.a. má heyra klassísk meistaraverk og óvæntari tónsmíðar í nýju ljósi.
Við hlökkum til að taka á móti þessu frábæra austurríska tríói í einstökum pop-up tónleikum í Hallgrímskirkju.
@acciopianotrio
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Í SUMAR!
Laugardagur 2. ágúst kl. 12
Jónas Þórir Þórisson organisti Bústaðakirkju, Reykjavík
Matthías Stefánsson fiðla
Sérstakur gestur: Frank Aarnink slagverk
Jónas Þórir Þórisson organisti Bústaðakirkju í Reykjavík og Matthías Stefánsson fiðluleikari sameina krafta sína í fjölbreyttri dagskrá með samspili orgels og fiðlu. Matthías og Jónas eru þekktir spunameistarar og fyrir að leika sér með lög. Þeir hafa unnið saman í 15 ár og spilað saman á tveimur diskum Paradiso 2012 og Samka 2016.
Jónas Þórir Þórisson (f. 1956) er kantor, tónlistarmaður og tónskáld, fæddur og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann ólst upp á tónlistarheimili en faðir hans var fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og móðir hans píanókennari. Jónas hóf fiðlunám átta ára gamall og var þá einn yngsti nemandi Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hann lærði einnig píanó, orgel og tónsmíðar, m.a. hjá Atla Heimi Sveinssyni. Hann lauk kirkju- og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og stundaði orgelnám í Bergen. Jónas Þórir hefur um árabil starfað sem kantor og komið víða fram, bæði sem flytjandi og höfundur tónlistar.
Matthías Stefánsson nam fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Fyrstu tíu árin hjá Lilju Hjaltadóttur og síðasta árið hjá Önnu Podhajska ásamt því að sækja tíma til Guðnýjar Guðmundsdóttur. Matthías tók 7. stig í fiðluleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri en lauk svo burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2002, undir handleiðslu Mark Reedmann ásamt því að stunda nám í gítarleik við Tónlistarskóla F.Í.H.
Matthías hefur verið starfandi tónlistarmaður síðan 2002 ásamt því að kenna á fiðlu og gítar. Matthías hefur spilað á yfir 150 geisladiskum fyrir listamenn eins og Björk, Sigurrós, Egil Ólafs, Pál Rósinkrans, Ríó tríó, Jóhann Friðgeir, Ragga Bjarna, Síðan skein sól, Reiðmenn vindanna, Bjarna Ara, Brimkló, Ellen Kristjáns, Sniglabandið, Friðrik Ómar, Hönnu Dóru Sturludóttir, Margréti Eir, Sigurgeir Sigmunds, Ásgeir Óskarsson, Herbert Guðmundsson, Magna Ásgeirsson, Papana, Stefán Hilmarsson, Regínu Ósk, Heru Björk, South river band, Björgvin Halldórsson, Sigurð Flosason og Sigríði Beinteinsdóttur svo einhverjir séu nefndir.
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU
Sunnudagur 27. júlí kl. 17.00
George Chittenden orgel, Bodö Domkirke
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.900 kr.
George Chittenden er organisti dómkirkjunnar í Bodø í Noregi, þar sem hann leikur á orgel við guðsþjónustur og tónleika, stjórnar Bodø Domkor og Ungdomskoret og ber heildarábyrgð á tónlistinni í dómkirkjunni, sem er heimili sjö kóra, söngskóla og glæsilegs Eule orgels.
Áður en hann hóf stöðu sína í Bodø í september 2021 var George organisti við S:ta Maria kyrka (St Mary's Church) í Helsingborg í Svíþjóð - þar sem kennari Bach, Diderik Buxtehude, er meðal fyrrum organista.
Áður en hann sneri aftur til Evrópu árið 2016 var George tónlistarstjóri og dómkirkjuorganisti við St Paul’s Cathedral í Dunedin í Nýja Sjálandi, auk þess sem hann var félagi orgelfélagsins Fleming Galway við Knox College háskólann í Otago, tónlistarstjóri Southern Youth Choir, og gegndi kennslustöðu við háskólann í Otago. Áður en hann flutti til Nýja Sjálands var George ráðinn sem búsetulistamaður/aðstoðarorganisti við Christ Church dómkirkjuna, Hartford í Bandaríkjunum, og organisti anglikönsku söngvaranna.
Áður en hann fór frá Evrópu og hélt til Nýja Englands árið 2010, gegndi George stöðu aðstoðarorganista við Dómkirkju St Andrew í Aberdeen, Skotlandi, ásamt stöðum við háskólann í Aberdeen. Í háskólanum fylgdi George meirihluta þjónustunnar á sínum tíma sem David Gordon Memorial Senior Organ Scholar og kom oft fram í útsendingum BBC, bæði staðbundnum og alþjóðlegum.
George er bæði félagi í Royal College of Organists og mjög virkur sem alþjóðlegur konsertorganisti. Ennfremur stundar hann nú hlutanám í doktorsnámi og einbeitir sér að því hvernig hernám nasista í Skandinavíu hafði áhrif á þróun klassískrar tónsmíða. Hann er virkur sem tónskáld bæði helgitónlistar og framúrstefnuverka.
Efnisskrá:
Tuba Tune - Richard Madden (1953-)
Prelúdía og fúga ('The Antipodes') - Douglas Lilburn (1915-2001)
Úr "12 Folkepreludier" - Kåre Nordstoga (1954-)
- Overmåte full av nåde
- Den store hvite flokk
Mourning Blues - Fredrik Sixten (1962-)
Tilbrigði við "Take the A-Train" eftir Duke Ellington - David Briggs (1962-)
Er ég leitaði vinar
Messa í Hallgrímskirkju
Sunnudagur 27. júlí kl. 11:00
Sr. Bjarki Geirdal Guðfinnsson predikar og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónar fyrir altari.
Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Organisti er Matthías Harðarson.
George Chittenden organisti dagsins á Orgelsumri í Hallgrímskirkju leikur eftirspil.
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU
Sunnudagur 27. júlí kl. 17:00
George Chittenden, orgel Bodö Domkirke
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 3.900 kr.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2025
Laugardagur 26. júlí kl. 12
Matthías Harðarson, orgel Dómkirkjan í Reykjavík
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 2.900 kr.
Efnisskráin er með frönsku ívafi. Þar meðal annars mun orgelið bregða sér í hlutverk hljómsveitar og einleikshljóðfæris á sama tíma. En það er orgel umritun á hinu fallega verki Sicilienne eftir Gabriel Fauré. Einnig mun kunnulegt stef hljóma í búningi fyrrum organista Notre dame kirkjunnar í París Pierre Cochereau.
Matthías Harðarson hóf píanónám 10 ára gamall við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Meðal kennara hans þar voru þau Gíslína Sól Jónatansdóttir, Guðmundur H. Guðjónsson og Kittý Kovács. Hann lærði einnig á saxófón undir handleiðslu Stefáns Sigurjónssonar. Árið 2016 lauk Matthías kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og lauk kantorsprófi sem og BA námi við Listaháskóla Íslands 2020. Þar sem Björn Steinar Sólbergsson var aðal kennari hans. Samhliða orgelnáminu lagði Matthías stund á Vélstjórn og útskrifaðist sem Vélfræðingur árið 2017. Matthías hefur lokið mastersnámi í kirkjutónlist við konunglega Tónlistarháskólann í Árósum. Undir leiðsögn Kristian Krogsøe, Lars Rosenlund, Nørremark og Ulrik Spang-Hanssen. Árið 2025 lauk hann einleiksáfanga frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem Björn Steinar var aðalkennari hans. Matthías hefur sótt masterclassa hjá m.a. Eric Lebrun, Hans-Ola Ericsson og Jean-Baptiste Robin. Hann hefur hlotið styrki úr Halldór Hansen styrktarsjóði sem og Frobeniusar sjóðnum.
Matthías starfar sem organisti við Dómkirkjuna í Reykjavík.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
Nýr barnakór Hallgrímskirkju
Með mikilli gleði og ánægju kynnum við nýjan Barnakór Hallgrímskirkju sem hefst í haust! Kórinn er ætlaður börnum í 3.–5. bekk og er öll þátttaka ókeypis.
Kórinn verður leiddur af reynslumiklum og hlýlegum stjórnanda, Fjólu Kristínu Nikulásdóttur, sem brennur fyrir tónlistarkennslu barna.
Fjóla Kristín er kennari, kórstjóri og söngkona að mennt. Auk þess að starfa sem kórstjóri hefur hún kennt leiklist í grunnskóla um árabil og sett upp fjölda söngleikja og leikrita með börnum og unglingum. Hún er með meistaragráðu í óperusöng og hefur einnig starfað sem atvinnusöngkona.
Skráning hefst innan skamms – fylgist með á heimasíðunni og samfélagsmiðlum Hallgrímskirkju fyrir nánari upplýsingar.
Við hlökkum til að taka á móti kraftmiklum og forvitnum söngkrökkum í nýjan barnakór Hallgrímskirkju!
HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐUR BARNANNA
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU Sunnudagur 20. júlí kl. 17:00
Dr. Susan Carol Woodson, aðalorganisti Saint Nicholas kirkjunnar í Brussel, kemur fram á aðaltónleikum helgarinnar. Hún hefur verið áberandi á alþjóðavettvangi, með tónleikaferðir um Evrópu og Ameríku, og hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Dagskráin samanstendur af rómantískum og litríkum verkum eftir Lefébure-Wély, Grieg, Reger, Fauré, Sousa og Duruflé.
Aðgangseyrir: 3.900 kr. – Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
Laugardagur 19. júlí kl. 12:00
Pétur Nói Stefánsson, organisti við Eyrarbakkakirkju, flytur íslensk og samtímaverk á hádegistónleikum. Á efnisskrá eru íslensk orgelverk, bæði ný og gömul m.a. verk eftir Pál Ísólfsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Rut Magnúsdóttur og frumflutningur á nýju verki eftir Oliver Kentish. Pétur Nói er ungur og efnilegur organisti sem hefur á stuttum tíma unnið til verðskuldaðrar athygli fyrir skapandi nálgun og djúpa innsýn í íslenska orgeltónlist.
Aðgangseyrir: 2.900 kr. – Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
ORGELSUMAR Í HALLGRÍMSKIRKJU 2025
Tómas Guðni Eggertsson orgel Seljakirkja Reykjavík
Sunnudagur 13. júlí kl. 17.00
Aðgangseyrir 3.900 kr.
Tómas Guðni Eggertsson (f. 1974) lauk prófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum vorið 1996, hjá Vilhelmínu Ólafsdóttur. Hann hélt til framhaldsnáms við Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow, lauk þaðan BA-prófi 1999 og Postgraduate-námi ári síðar. Hann lauk einleiksáfanga í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 2007 og kantorsprófi í kjölfarið, hvar aðalkennari hans var Björn Steinar Sólbergsson. Í júní sl. útskrifaðist Tómas Guðni með meistarapróf í orgelleik frá Tónlistarháskólanum í Gautaborg, undir handleiðslu Karin Nelson.
Tómas Guðni hefur kennt tónlist víða um land, bæði á píanó og blásturshljóðfæri. Þá hefur hann starfað með ólíkum listamönnum í ýmsum geirum tónlistar, svo sem Ólafi Kjartani Sigurðarsyni, Davíð Þór Jónssyni, Dimitri Ashkenazy, Þóru Einarsdóttur og Sveini Dúu Hjörleifssyni, að ógleymdum kórum á borð við Schola Cantorum, Voces Masculorum og Karlakórinn Fóstbræður. Þá hefur hann fengist við tónsmíðar og útsetningar.
Við orgelborðið hefur Tómas Guðni komið fram á einleikstónleikum á Íslandi og í Svíþjóð og ennfremur tekið þátt í flutningi stærri verka á vettvangi kirkjutónlistar. Hann starfar sem tónlistarstjóri og organisti Seljakirkju.
Efnisskrá:
1. Jón Nordal – Tokkata (1985)
2. J.S. Bach – Schmücke dich, o liebe Seele, BWV 654
3. Harald Fryklöf – Symfoniskt stycke för orgel/Symphonic Pice
4. Spuni/Improvisation
5. Jeanne Demessieux – Te Deum
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
Líttu þér nær - er bjálki í auga?
Messa á fjórða sunnudegi eftir Þrenningarhátíð
Sunnudagur 13. júlí kl. 11:00
Sr. Eiríkur Jóhannsson prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng.
Sunnudagaskóli er kominn í sumarfrí og hefst aftur í haust.
Tómas Guðni Eggertsson flytur verk eftir Jón Nordal, Bach, Harald Fryklöf og Demessieux à sunnudagstónleikum á Orgelsumri í Hallgrímskirkju kl. 17 sama dag.
Hallgrimskirkja.is – Þinn staður
Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2025
Laugardagur 12. júlí kl. 12:00
Aðgangseyrir er: 2.900 kr.
ATH! Vegna forfalla mun Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju, leika í stað Kitty Kovacs. Á efnisskránni eru stórbrotin orgelverk eftir J.S. Bach og Sigfrid Karg-Elert.
Kraftmikil og innblásin tónlist í einum glæsilegasta tónleikasal landsins.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Upphaf Orgelsumars í Hallgrímskirkju nk. sunnudag 6. júlí kl. 17:00.
Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju, opnar Orgelsumarið með glæsilegri dagskrá sem sýnir kraft og fegurð Klais-orgelsins.
Opnunartónleikar Orgelsumars í Hallgrímskirkju 2025 – Björn Steinar Sólbergsson
Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir: 3.900 kr
https://www.hallgrimskirkja.is/is/frettir/orgelsumar-i-hallgrimskirkju-2025
Sunnudagur 29. júní kl. 11.00
Messa: Tækifærin í lífinu
Sr. Eiríkur Jóhannsson þjónar fyrir altari og predikar
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Sögustund:
Sögustund í Hallgrímskirkju alla sunnudaga í júní 2025 kl. 11.00.
Velkomin á sögustund fyrir börn og fjölskyldur á messutíma í júní Hallgrímskirkju!
Stund þar sem ímyndunarafl og hlýja fá að njóta sín!
Rósa Hrönn Árnadottir les söguna Skrímslaleikur eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal.
Við bjóðum ykkur að sjá staðbundið textíl-listaverk eftir listamanninn Ídrisi Róbertsdóttur sem stendur í Hallgrímskirkju:
annar gluggi til hægri / "second window on the right – English
Einkasýning Ídrisar Róbertsdóttur
Sýningarstjóri: Ægis Zita
Listrænn stjórnandi: Inga Jónsdóttir
15.júní til 31.ágúst 2025
Hallgrímskirkja er opin frá 9:00-20:00 yfir sumartímann.
Ath. breytingar á opnunartímum hér vegna helgihalds, athafna og tónleika.
Sunnudagur 22. júní 2025 kl. 11:00
Hver tekur mark á góðum ráðum?
Messa
Prestar eru: Sr. Eiríkur Jóhannsson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Messuþjónar aðstoða
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Organisti er: Björn Steinar Sólbergsson
Sögustund:
Sögustund í Hallgrímskirkju alla sunnudaga í júní 2025 kl. 11.00.
Velkomin á sögustund fyrir börn og fjölskyldur á messutíma í júní Hallgrímskirkju!
Stund þar sem kyrrð, ímyndunarafl og hlýja fá að njóta sín!
22. júní: Rósa Hrönn Árnadottir les söguna Sagan af skessunni sem leiddist eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Við bjóðum ykkur einnig að sjá staðbundið textíl-listaverk eftir listamanninn Ídrisi Róbertsdóttur sem stendur í Hallgrímskirkju:
annar gluggi til hægri / "second window on the right – English
Einkasýning Ídrisar Róbertsdóttur
Sýningarstjóri: Ægis Zita
Listrænn stjórnandi: Inga Jónsdóttir
15.júní til 31.ágúst 2025
Hallgrímskirkja er opin frá 9:00-20:00 yfir sumartímann.
Ath. breytingar á opnunartímum má finna á heimasíðu kirkjunnar vegna helgihalds, athafna og tónleika.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR
Þrenningarhátíð
15. júní 2025 kl. 11:00
Messa:
Ræðum himnesk efni og jarðnesk
sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónar fyrir altari og predikar
Organisti: Steinar Logi Helgason
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju leiða söng
Sögustund:
Sögustund í Hallgrímskirkju alla sunnudaga í júní 2025 kl. 11.00.
Velkomin á sögustund fyrir börn og fjölskyldur á messutíma í júní Hallgrímskirkju!
Stund þar sem kyrrð, ímyndunarafl og hlýja fá að njóta sín!
15. júní: Rósa Hrönn Árnadottir les söguna Halli og fötufyllir af risaeðlum eftir Ian Whybrow og Adrian Reynolds
Að lokinni messu bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar "annar gluggi til hægri" sem er staðbundið textíl-listaverk eftir listamanninn Ídrisi Róbertsdóttur.
Listaverkið verður formlega kynnt kirkjuskipi Hallgrímskirkju sunnudaginn 15. júní um kl. 12.15
Léttar veitingar verða í suðursal kirkjunnar.
Fleiri upplýsingar um sýninguna má finna hér að neðan:
annar gluggi til hægri / "second window on the right – English
Einkasýning Ídrisar Róbertsdóttur
Sýningarstjóri: Ægis Zita
Listrænn stjórnandi: Inga Jónsdóttir
15.júní til 31.ágúst 2025
Hallgrímskirkja er opin frá 9:00-20:00 yfir sumartímann.
Ath. breytingar á opnunartímum hér vegna helgihalds, athafna og tónleika. HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐUR LJÓÐA OG LISTA!
Hallgrímskirkja leitar að kórstjóra!
Ertu skapandi, metnaðarfull/ur og með ástríðu fyrir að leiða tónlistarstarf með börnum?
Við óskum eftir kórstjóra í 30% starf til að stofna og leiða nýjan barnakór Hallgrímskirkju – spennandi tækifæri með möguleika á stækkun starfsins.
Æfingar einu sinni í viku
Skemmtileg tónlistarverkefni og þátttaka í helgihaldi
Umsóknarfrestur: 21. júní
Nánari upplýsingar veitir: Björn Steinar í síma 856 1579
Umsóknir berist til Hallgrímskirkju:
"Starfsumsókn"
Hallgrímskirkja
Hallgrímstorg 1
101 Reykjavík
eða á netfangið: bjornsteinar@hallgrimskirkja.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR FYRIR TÓNLIST
#barnakór #tónlistarstarf #kórstjórn #starf #hallgrimskirkja
TRANSLATIONS / Matinée
Laugardagur 7. júní kl. 12 / Saturday June 7th at 12 hrs.
Arngerður María Árnadóttir orgel / organ
Una Sveinbjarnardóttir fiðla / violin
Aðgangseyrir / Admission ISK 2.900
Translations er samfélag um hljóð sem byggir starfsemi sína í kringum orgel- og fiðluverk Unu Sveinbjarnardóttur og Arngerðar Maríu Árnadóttur. Þær búa yfir gríðarmikilli reynslu í tónlistarheiminum sem flytjendur.
Arngerður og Una hafa báðar mikið unnið með spuna og hafa á síðustu árum fengist æ meira við tónsmíðar samhliða öðrum verkefnum.
Fyrsta plata dúósins var hljóðrituð sumarið 2024. Verkin eru að mestu samin í spuna, með pípuorgel og fiðlu í forgrunni en sérstakir gestir á plötunni eru Skúli Sverrisson og Davíð Þór Jónsson. Platan, sem ber heitið “Hik” kemur út hjá Sono Luminus útgáfufyrirtækinu 25. júní 2025.
Á tónleikunum munu þær flytja verk af plötunni Hik ásamt því að gefa áheyrendum forsmekk að næstu plötu sem nú þegar er í smíðum.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
Sunnudagur 8. júní kl. 11:00
Andagift á Hvítasunnu
Hvítasunnudagur - Hátíðarmessa
Prestar eru: Sr. Eiríkur Jóhannsson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Messuþjónar aðstoða
Kór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Steinars Loga Helgasonar
Organisti er Björn Steinar Sólbergsson
Hátíðarmessu á Hvítasunnudag í Hallgrímskirkju verður í beinni útsendingu í útvarpinu á Rás 1.
Sögustund
Sögustund í Hallgrímskirkju alla sunnudaga í júní 2025 kl. 11.00.
Velkomin á sögustund fyrir börn og fjölskyldur á messutíma í júní Hallgrímskirkju.
8. júní "Gula sendibréfið" eftir Sigrúnu Eldjárn.
Skemmtilegt og ríkulega myndskreytt ævintýri þar sem vinátta, samvinna og hjálpsemi stýra ferðinni.
Umsjón: Ragnheiður Bjarnadóttir
Sögustund í Hallgrímskirkju alla sunnudaga í júní 2025 kl. 11.00.
Velkomin á sögustund fyrir börn og fjölskyldur á messutíma í júní Hallgrímskirkju!
Stund þar sem kyrrð, ímyndunarafl og hlýja fá að njóta sín!
1. júní: Drengurinn í tunglinu
Við bjóðum börnum og fullorðnum að koma og hlusta á hjartnæma og ímyndunarfulla sögu um litla drenginn sem horfir til tunglsins – og finnur leiðina þangað. „Drengurinn í tunglinu“ er hlý og hugljúf saga um forvitni, vonir og óvæntar uppgötvanir, ævintýri sem talar beint til barnshjartans. Umsjón: Rósa Hrönn Árnadóttir
8. júní "Gula sendibréfið" eftir Sigrúnu Eldjárn.
Skemmtilegt og ríkulega myndskreytt ævintýri þar sem vinátta, samvinna og hjálpsemi stýra ferðinni.
Umsjón: Ragnheiður Bjarnadóttir
HALLGRÍMSKIRKJA – STAÐUR BARNANNA
Orgelandakt á Uppstigningardag
Hallgrímskirkja
Á morgun, fimmtudag 29. maí 2025
Kl. 11:00
Björn Steinar Sólbergsson flytur L'Ascension eftir Olivier Messiaen – andlegt og stórbrotið meistaraverk sem fangar uppstigningu Jesú Krists til himna í fjórum þáttum.
Prestur: séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Heilög stund í ljóði og tónum.
Aðgangur ókeypis – öll hjartanlega velkomin!
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR
#hallgrimskirkja #orgelandakt #uppstigningardagur #messiaen #lascension #klassískt #orgel #andlegstund
Sunnudagur 25. maí kl. 11:00
Hvað ef bænin brestur?
Messa
Sr. Eiríkur Jóhannsson þjónar fyrir altari og predikar
Organisti: Steinar Logi Helgason
Félagar úr Kór Hallgrímskirkju syngja
ÞAKKLÆTI
Sunnudagaskóli
Umsjón: Kristbjörg Katla Hinriksdóttir,
Ragnheiður Bjarnadóttir og Lára Ruth Clausen
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR!
Sumaropnun Hallgrímskirkju 2025
Frá og með 21. maí verður Hallgrímskirkja opin daglega frá kl. 9:00 til 20:00.
Athugið að kirkjubúðin og aðgangur að turni lokar kl. 19:45.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR Í SUMAR!
--ENSLISH--
Summer Opening Hours 2025
From May 21st, Hallgrímskirkja is open daily from 9:00 to 20:00.
Please note that the church shop and access to the tower closes at 19:45.
We look forward to welcoming you this summer!
Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks
Kirkjan tekur undir með milljónaraddakór í veröldinni 17. maí þegar við mörkum dag gegn fordómum í garð hinsegin fólks.
Tendrum kerta ljós fyrir þau sem þola ofsóknir og kirkjan okkar skartar marglita fánum til að minna okkur á sorg þeirra sem hafa liðið vegna fordóma en þökkum líka gleðina og kærleika Guðs sem felst í fjölbreytni sköpunarverksins.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR!
Kærleikurinn sigrar allt!
Messa og sunnudagaskóla í Hallgrímskirkju
Sunnudagur 18. maí kl. 11:00
Prestur: Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Messuþjónar aðstoða
Kammerkórinn Huldur syngur undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar
Organisti er Matthías Harðarson
Umsjón með barnastarfi: Ragnheiður Bjarnadóttir, María Elísabet Halldórsdóttir og Rósa Hrönn Árnadóttir
Hallgrímskirkja – Þinn staður!
Æfingar hafnar fyrir magnaða tónleika í Hallgrímskirkju!
Kammersveit Reykjavíkur og Kór Hallgrímskirkju undirbúa nú kraftmikla dagskrá fyrir tónleikana ARVO PÄRT – POULENC – FINNUR KARLSSON, sem fram fara sunnudaginn 18. maí kl. 17:00 í Hallgrímskirkju.
Við eigum í vændum einstakt tónleikaferðalag:
Fratres eftir Arvo Pärt – hugleiðandi og tær tónlist sem snertir innstu strengina
Orgelkonsert í g-moll eftir Poulenc – með Birni Steinari Sólbergssyni organista sem einleikara
Frumflutningur á Sköpun eftir Finn Karlsson – nýtt íslenskt verk fyrir kór, sópran og hljómsveit.
Jóna G. Kolbrúnardóttir syngur einsöng, Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari og stjórnandi er Steinar Logi Helgason.
Tónleikarnir eru hluti af 50 ára afmælisári Kammersveitar Reykjavíkur – sem hefur í hálfa öld verið í fararbroddi íslenskrar tónlistarsköpunar.
Hallgrímskirkja
Sunnudagur 18. maí kl. 17:00
Miðar á tix.is og við innganginn
Aðgangseyrir 5.900 kr.
Myndir af æfingu með @kammersveitreykjavikur í gærkvöldi.
Verið hjartanlega velkomin!
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
#Hallgrímskirkja #KammersveitReykjavíkur #NýTónlist #Kirkjutónlist #Frumflutningur #Sköpun
🎶✨ Undirbúningur í fullum gangi!
Kór Hallgrímskirkju æfir af krafti ásamt sópransöngkonunni Jónu G. Kolbrúnardóttur fyrir frumflutning verksins Sköpun eftir tónskáldið Finn Karlsson – sem heyrist í fyrsta sinn næstkomandi sunnudag 18. maí kl. 17:00 í Hallgrímskirkju.
Verkið verður flutt ásamt Orgelkonsert eftir Poulenc og Fratres eftir Arvo Pärt – andleg tónlist sem hreyfir við hjarta og huga.
Komdu og upplifðu lifandi tónsköpun í stórbrotnu rými Hallgrímskirkju.
Sunnudagur 18. maí kl. 17:00
Miðar á tix.is
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!
#Sköpun #FinnurKarlsson #KórHallgrímskirkju #Hallgrímskirkja #Tónleikar #LifandiTónlist #ArvoPärt #FrancisPoulenc
View more








































































































