Messa kl. 11.00 á 11. sunnudegi eftir þrenningarhátíð. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Kór Hallgrímskirkju syngur og organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Inger Lise Ulsrud leikur eftirspilið í messunni en hún leikur á lokatónleikum Íslensks orgelsumars kl. 17.00.
Guðspjall: Lúkas 7.36-50
Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“
Lexía: Slm 32.1-7
Davíðsmaskíl.
Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin,
synd hans hulin.
Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð
og ekki geymir svik í anda.
Meðan ég þagði tærðust bein mín,
allan daginn stundi ég
því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér,
lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela)
Þá játaði ég synd mína fyrir þér
og duldi ekki sekt mína
en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“
Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela)
Biðji þig þess vegna sérhver trúaður
meðan þig er að finna.
Þótt vatnsflóðið komi
nær það honum eigi.
Þú ert skjól mitt,
verndar mig í þrengingum,
bjargar mér, umlykur mig fögnuði.
Pistill: 1Jóh 1.5-10
Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.