Kirkjuklukkur

Kirkjuklukkur og hringingar Hallgrímskirkju

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju skipar hringjara kirkjunnar ótímabundið. Hringjarar skulu vera amk tveir. Þeir skulu starfa í samræmi reglur þjóðkirkjunnar og í samvinnu við presta, sóknarnefnd Hallgrímskirkju og starfsfólk hennar.

Dýrð, vald, virðing (skrifað á kirkjuklukku)

Almennar tímatals-hringingar

Hringt skal á fimmtán mínútna fresti virka daga frá kl. 9 – 21, en um helgar og á hátíðum frá kl. 12 – 21 þá daga, sem ekki er messað. Hringjarar velja – í samráði við organista og presta – lög og lagahluta, sem nota skal sem tímamerki (15 mín, 30 mín, 45 mín og 60 mín). Klukkan Hallgrímur skal nýtt fyrir tímaslög á heila tímanum.

Messuhringingar

Hringt er til hverrar almennrar guðsþjónustu og messugerðar. Fyrst er hringt hálfri stundu fyrir messu einni klukku í tvær mínútur. Stundarfjórðungi fyrir upphaf helgihalds er hringt tveimur klukkum í tvær mínútur. Samhringt er í þrjár mínútur fyrir upphaf messu. Hringja má í messulok. Ekki er hringt til messu á föstudaginn langa eða snemma á morgni páskadags. Hringt er inn til kirkjulegra stórhátíða kl. 18: Aðfangadag jóla; aðfangadag páska og aðfangadag hvítasunnu. Samhringt er í þrjár mínútur. Við áramót er samhringt öllum klukkum í fimm mínútur.

Aðrar kirkjulegar athafnir

Hringja má kirkjuklukkum þegar brúðhjón ganga úr kirkju að lokinni hjónavígslu.
Við útför skal aðeins hringja einni klukku. Líkhringing er eitt slag í senn og líður nokkur stund á milli slaga. Við upphaf útfararathafnar er hringt einni klukku, 3×3 slög. Líkhringing er þegar kista er borin úr kirkju. Ekki er samhringt við athafnir á virkum dögum.

Sérstakir viðburðir – hringingar

Hringja má vegna sérstakra atburða í samfélaginu; vegna sérstakrar beiðni kirkjulegra yfirvalda eða skv. ákvörðun presta kirkjunnar.

Kirkjuklukkum er ekki hringt að óformlegri beiðni nema vegna kirkjulegs eða sérstaks tilefnis.

Hringjarar sjá um sérstakar hringingar sem sóknarnefnd, prestar, organistar eða félög á vegum kirkjunnar efna til.

Hlutverk hringjara

Hringjarar gæta þess að klukkur og allur hringingarbúnaður sé nothæfur. Hringjarar leggja fyrir sóknarnefnd tillögur um viðgerðir eða viðbætur á búnaði tengdum kirkjuklukkum. Hringjarar sjá til þess að setja inn á heimasíðu Hallgrímskirkju efni um klukkurnar og klukknaspilið og uppfæra efnið eftir því sem tilefni gefast. Fyrir hönd Hallgrímskirkju bera hringjarar ábyrgð á miðlun efnis til fjölmiðla og almennings um klukkarnar, klukknaspilið, hringingar og sérstaka viðburði sem kalla á hringingar. Hringjarar skulu vaka yfir möguleikum um klukkuviðburði og bera fram tillögur um viðburði til að klukkurnar syngi sem mest og þjóni sem best.

Almennt um reglur og hringingar

Hringingar Hallgrímskirkju skulu vera í samræmi við starfsreglur þjóðkirkjunnar og innri samþykktir hennar, sjá XVIII. Sé reglum breytt er varða kirkjuklukkur skulu hringjarar Hallgrímskirkju lúta þeim breytingum.

Samþykkt á sóknarnefndarfundi 12.2.2019.

Fróðleikur um kirkjuklukkur Hallgrímskirkju og klukknaspil

Í turni Hallgrímskirkju eru þrjár stórar kirkjuklukkur og klukknaspil með 29 bjöllum. Stóru klukkurnar heita Hallgrímur, Guðríður og Steinunn eftir séra Hallgrími, eiginkonu hans og dóttur þeirra sem dó ung. Klukknaspilið er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og Hallgrímskirkja er ein þriggja kirkna í höfuðborginni sem slá tímaslög.

Hallgrímur: Er stærsta klukkan, 2.851 kg, 178 sm á hæð og gefur tóninn h.

Guðríður: Er miðklukkan og nefnd eftir konu sr. Hallgríms. Er 1650 kg, 145 sm á hæð og gefur tóninn d.

Steinunn: Er minnsta klukkan af þessum þrem og nefnd eftir dóttir þeirra hjóna sem dó ung. Er 1155 kg, 117 sm á hæð og gefur tóninn e.