Kvöldkirkjan

Kvöldkirkjan

Kvöldkirkjan er samstarfsverkefni Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík. Verkefnið hófst haustið 2019. Í boði eru tvær stundir í mánuði, ein í hvorri kirkju, yfir vetrartímann. 

Af hverju kvöldkirkja?

Allir vilja jákvæða reynslu sem ógnar ekki eða spillir, heldur róar og kyrrir. Sunnudagsmessur og kyrrðarstundir dagkirkjunnar eru magnaðar en höfða þó ekki til allra.

Hvert er markmiðið

Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýjan stað. 

Hvað einkennir þetta form?

Þögn er einkenni kvöldkirkjunnar. Þau, sem koma í kvöldkirkju, ganga inn með kyrrlátum hætti. Fólk talar um hversdagsmál sín utan kirkjunnar. Oftast er tónlistarflutningur í kvöldkirkjunni. Sá flutningur er ekki eins og á tónleikum, heldur þjónar aðeins íhugun og slökun. Eitt hljóðfæri er stundum notað eða orðlaus söngur mannsraddar. Hreyfanleiki er stíll kvöldkirkjunnar. Fólk situr ekki lengi, heldur rölta margir um kirkjuna í kyrrð. Sumir eru lengi inni í kirkjunni og aðrir stutt. Mörgum hentar jafnvel að leggjast á kirkjubekki eða á dýnur til að stilla sinn innri mann og tengja við tákn og hljóma kirkjunnar. Sumir kveikja á kerti til íhugunar eða sem bænakerti. Aðrir krjúpa einhvers staðar í kirkjunni.

Hver sjá um stundirnar?

Hallgrímskirkjuprestarnir, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, Gretar Einarsson, kirkjuvörður og dómkirkjuprestarnir, Elínborg Sturludóttir og Sveinn Valgeirsson sjá um efni kvöldkirkjunnar.