Um Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja - Húsið og sagan

Hallgrímskirkja er þjóðarhelgidómur, minningarkirkja um áhrifamesta sálmaskáld Íslendinga, Hallgrím Pétursson, og miðbæjarkirkja með lifandi og þróttmiklu starfi.

Evangelísk lúthersk kirkja

Hallgrímssöfnuður tilheyrir hinni evangelísku-lúthersku þjóðkirkju og búa liðlega 7000 manns á sóknarsvæði kirkjunnar. Safnaðarstarfið er þróttmikið og fyrir fólk á öllum aldri. Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í starfi safnaðarins. Söfnuðinum er þjónað af tveimur prestum, tveimur organistum, kórstjórum, kirkjuvörðum, æskulýðsfulltrúa og starfsfólki í barna- og unglingastarfi.

Hallgrímskirkja er stærsta kirkja Íslands og rís hæst bygginga yfir höfuðborgina Reykjavík. Turninn er 73 metra hár og þar er hægt að njóta útsýnis yfir borgina, sundin blá og fjallahringinn umhverfis hana. Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands.

Alþingi Íslendinga hlutaðist til um byggingu kirkjunnar. Í hugmyndasamkeppni sem haldin var 1929 var áskilið að kirkjan skyldi rúma 1200 manns og hafa háan turn sem gæti nýst fyrir væntanlegt „víðvarp“ á Íslandi. Enn er turninn notaður af útvarps- og símafyritækjum til víðvörpunar.

Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson (1887 – 1950), einn virtasti arkitekt landsins, hófst handa við að teikna kirkjuna árið 1937. Þjóðlegur stíll einkenndi byggingarlist hans eins og margra starfsbræðra hans á Norðurlöndum í þeim tíma. Aðalbygging Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsið og Kristskirkja í Landakoti eru meðal hugarsmíða hans. Hann notaði íslenskar fyrirmyndir og íslenskt efni. Hallgrímskirkja, sem varð hans síðasta verk, minnir á stuðlaberg, íslensk fjöll og jökla.

Fram til ársins 1940 var Reykjavík einn söfnuður, en það ár voru þrjár nýjar sóknir stofnaðar, þar á meðal Hallgrímssókn. Bygging Hallgrímskirkju hófst árið 1945 og 1948 var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan sjálf var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt.

Ríki og borg studdu verkið en tveir þriðju hlutar byggingarkostnaðar kom úr sjóðum safnaðarins og frá einkaaðilum. Margir listmunir og kirkjugripir eru gjafir frá einstaklingum og samtökum, gefnar til minningar eða til þess að efla kirkjustarfið.

Helgihald, félags- og listalíf

Messur eru sérhvern sunnudag kl. 11:00 og miðvikudaga kl. 09.00. Messað er á ensku kl. 14:00 síðasta sunnudag í hverjum mánuði. Kyrrðarstundir eru á veturna á fimmtudögum í hádeginu. Einnig er öflugt, fræðslustarf sem og barna- og unglingastarf við kirkjuna.

Kvenfélag Hallgrímskirkju var stofnað árið 1942 og hefur stutt safnaðarstarfið með margvíslegum hætti, bæði með framlögum í byggingarsjóð á sínum tíma og kaupum á messuskrúða, skírnarfonti o.fl.

Lista- og menningarlíf kirkjunnar er margþætt og öflugt. Flestir tónleikar eru á vegum kirkjunnar en einnig er hægt að leigja kirkjuna til tónleikahalds. Myndlistasýningar eru fjölbreytilegar en lágu niðri á COVID-tímanum. Listasafn Hallgrímskirkju, stofnað 1996, hefur umsjón með listmunum kirkjunnar.

Verslun kirkjunnar, Guðbrandsstofa, hefur á boðstólunum margvíslegan varning sem tengdur er kirkjunni, s.s. Passíusálmana á ýmsum tungumálum, geisladiska með söng kóra kirkjunnar og orgelleik kantorsins og auk þess tónlist sem hljóðrituð hefur verið í kirkjunni.