Vel heppnað orgelmaraþon

04. desember 2022
Fréttir

Laugardaginn 3. desember s.l. fór fram orgelmaraþon 12 organista til að fagna 30 ára vígsluafmæli Klais orgels Hallgrímskirkju og 200 fæðingarafmæli tónskáldsins César Franck. Maraþonið stóð yfir í 3 klst og streymdu tónleikagestir inn allan tímann og má ætla að yfir 600 manns hafi sótt viðburðinn.

Tónleikarnir voru í samstarfi Hallgrímskirkju og Tónskóla Þjóðkirkjunnar og gaman að geta þess að öll sem komu fram á tónleikunum hafa stundað nám við Tónskólann.

Heiðurgestur tónleikanna var Hörður Áskelsson, fyrrverandi kantor kirkjunnar.

CÉSAR FRANCK
Orgelheimurinn allur fagnar nú 200 ára fæðingarafmælis César Francks, eins áhrifamesta tónskálds orgeltónbókmenntanna. Í Hallgrímskirkju með heildarflutningi orgelverka tónskáldsins og er þetta í fyrsta skipti á Íslandi að öll orgelverk César Francks eru flutt í heild.

Franck er án efa einn mesti áhrifavaldur í sögu orgeltónlistarinnar. Hann, ásamt orgelsmiðnum Aristide Cavaillé Coll aðlöguðu orgelið að hugmyndafræði rómantíska tímabilsins þannig að það hentaði betur fyrir langar, syngjandi línur, auðveldaði styrkleikabreytingar auk þess að hanna nýjar raddir í orgelið sem hentaðu fyrir sinfóníska orgeltónlist.

KLAIS ORGELIÐ
Segja má að saga aðalorgels Hallgrímskirkju, konsertorgels sem sæmdi stóru kirkjunnni á Skólavörðuholti, hefjist með fundi árið 1961 þar sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar Róbert A. Ottósson, Páll Ísólfsson dómorganisti, Páll Halldórsson þáverandi organisti Hallgrímskirkju og forráðamenn kirkjunnar héldu með orgelsmiðnum Fritz Steinmeyer frá Þýskalandi, sem hér var staddur vegna uppsetningar nýs orgels í Akureyrarkirkju. Á þessum fundi og öðrum sem haldinn var þremur árum síðar með sama orgelsmið varð ljóst að uppi voru háar hugmyndir um stórt orgel, allt að hundrað radda, sem staðsetja skyldi við vesturvegginn. Kirkjan var þá í byggingu og glæilegt konsertorgel aðeins fjarlæg draumsýn.

Hörður Áskelsson var ráðinn organisti við Hallgrímskirkju 1982, fjórum árum fyrir vígslu kirkjunnar og byrjaði þá strax að vinna að undirbúningi nýs orgels í kirkjuna. Þetta var aðsjálfsögðu risavaxið verkefni fyrir lítinn söfnuð bæði hugmyndafræðilega og fjárhagslega. Þar naut söfnuðurinn forystu Harðar sem er hámenntaður í kirkjutónlist og hafði aflað sér viðamikillar þekkingar og reynslu.

Skipuð var nefnd sérfræðinga og leitað tilboða 4 orgelsmiða sem endaði með því að orgelsmiðja Johannes Klais Orgelbau var valin og orgelið vígt 13. desember 1992.

Þetta er löng og mikil saga sem lesa má um í bók Sigurðar Pálssonar um Hallgrímskirkju.

Tilkoma Klais-orgelsins var stór viðburður og vendipunktur í íslenskri kirkjutónlistarsögu sem gjörbreytti orgeltónleikaflórunni á Íslandi. Öll sú framkvæmd lýsir miklum metnaði og stórhug þeirra sem voru í fararbroddi. Orgelið hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem frábært konserthljóðfæri og er eftirsótt af organistum all staðar að úr heiminum.

Vel má fullyrða að hægt sé að leika orgeltónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar á Klais-orgelið vegna fjölbreyttrar raddskipunar. Þó hefur orgelið sterk frönsk-sinfónísk einkenni þar sem hluti orgelsins er í anda franska orgelsmiðsins Artistide Cavaillé Coll.

Orgelið gjörbreytti líka og opnaði nýja möguleika í helgihaldi safnaðarins. Ekkert hljóðfæri er eins vel til þess falið að styðja og auðga helgihaldið og orgelið. Á undanförnum árum hefur yfirstjórn þjóðkirkjunnar lagt áherslu á að efla safnaðarsöng og rímar nýja sálmabók Þjóðkirkjunnar sannarlega við það.
Orgelið er líka heillandi hljóðheimur út af fyrir sig. Með öllum sínum blæbrigðum litar það áherslur kirkjuársins og ólík stílbrigði tónlistarsögunnar.

Fjármögnunin er sér kapítuli og varð, með samstilltu átaki sóknarnefndar, presta og starfsfólks kirkjunnar að eins konar þjóðarátaki þar sem fólk gat styrkt orgelsjóðinn með kaupum á einstaka orgelpípum eða heilum orgelröddum. Sértaklega ber að nefna stóran þátt Kvenfélags Hallgrímskirkju sem studdi verkefnið með ráð og dáð.

Á engan er þó hallað þó ég segi að mestar þakkir á skilið Hörður Áskelsson, heiðursgestur dagsins, sem með óbilandi elju, listrænum metnaði og framtíðarsýn fyrir tónleikahald kirkjunnar og helgihaldi safnaðarins. Hann var drifkrafturinn í því að við njótum um ókomna framtíð eins af glæsilegustu orgelum Evrópu.
Björn Steinar Sólbergsson

 

Myndir: hrefnah