Hádegistónleikar - Örn Magnússon organisti og Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran

HÁDEGISTÓNLEIKAR - Matinée
Laugardagur 4. mars kl. 12 

Örn Magnússon, orgel 
Hildigunnur Einarsdóttir, Messósópran

Hægt er að nálgast miða við innganginn og á: https://tix.is/is/event/14808/
Aðgangseyrir 2.500 kr.

Verkin á tónleikunum bera merki minimalísku stefnunnar í tónlist. Framvinda efnisins er hæg og endurtekningar tíðar. Áhrifin verða því hugleiðslukennd.

Örn Magnússon tók burtfararpróf í píanóleik frá Akureyri og stundaði framhaldsnám í Manchester, Berlín og London. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika og leikið inn á geislaplötur, bæði sem einleikari og kammertónlistarmaður.
Örn hefur farið í tónleikaferðir um Japan og leikið á tónleikum og á tónlistarhátíðum á Norðurlöndum, í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Hann er ekki síst þekktur fyrir flutning íslenskrar tónlistar og hefur meðal annars hljóðritað heildarsafn píanóverka Jóns Leifs og einnig heildarsafn söngva Jóns Leifs ásamt Finni Bjarnasyni söngvara. Sú útgáfa hlaut íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001. Þá hefur Örn komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Vorið 2011 lauk Örn kantorsprófi í kirkjutónlist og einleikaraprófi í organleik vorið 2017 með tónleikum í Hallgrímskirkju. Hann hefur starfað sem organisti Saurbæjarprestakalls í Hvalfirði og Dómkirkjunnar í Reykjavík.
Örn er nú organisti Breiðholtssafnaðar og stjórnar jafnframt hinum rómaða Kór Breiðholtskirkju. Hann er meðlimur þjóðlagahópsins Spilmenn Ríkínís sem flytur forna íslenska tónlist á hljóðfæri frá fyrri öldum.

Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus.

Efnisskrá:
Ólafur Björn Ólafsson (1978):
Neonskógur *frumflutningur

Arvo Pärt (1935):
My heart's in the Highlands / Mitt hjarta er í Hálöndunum, fyrir orgel og alt-rödd

Olivier Messiaen (1908-1992):
Apparition de l'église éternelle / Myndbirting kirkjunnar eilífu

 

Viðburðurinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/229457542864390