Orgelsumar í Hallgrímskirkju

Guðný Einarsdóttir orgelleikari og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmóníkuleikari koma fram á hádegistónleikum á Orgelusumri í Hallgrímskirkju. Á tónleikunum mun alþýðlegur og kirkjulegur hljómur mætast þegar hljóðfærin harmóníka og orgel hljóma saman. Á efnisskránni verður m.a. flutt Ave Maria eftir Astor Piazzolla, íslenskir tangóar, orgelverk Nadiu Boulanger og gamall sænskur sálmur.

Hægt er að nálgast miða við innganginn og á https://tix.is/is/event/13603/

Miðaverð er 2000 kr.

Guðný Einarsdóttir stundaði píanónám frá unga aldri og lauk hún prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, orgelnámi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og framhaldsnámi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Samhliða náminu var hún stjórnandi og einn af stofnendum kammerkórsins Stöku. Að loknu námi í Kaupmannahöfn var Guðný organisti danska safnaðarins í París en samhliða starfinu stundaði hún framhaldsnám í orgelleik.

Guðný hefur komið fram á Íslandi og erlendis sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og stundað kennslu í orgel- og píanóleik. Hún hefur gefið út tvo geisladiska með orgelverkum, annar þeirra, orgelverk Jóns Nordal, var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök og Þjóðkirkjuna og setið í ýmsum nefndum m.a. Sálmabókarnefnd Þjóðkirkjunnar. Hún gegnir nú stöðu organista við Háteigskirkju í Reykjavík og er stjórnandi Kordíu, Kórs Háteigskirkju.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir (1995) setti sér ung það markmið að nýta fjölbreytt hljómalandslag harmóníkunnar við að útsetja og spila allskonar tónlist á harmóníkuna. Hún á að baki áralanga vinnu með tónlistarmönnum og tónskáldum, hefur spilað á allskyns tónleikum og hátíðum á Íslandi, Norðurlöndum og Þýskalandi. Síðastliðið vor hlaut hún styrk úr Menningarsjóði Seðlabanka Íslands til að rannsaka íslensku tangótónlistarhefðina. Hún hefur skipulagt mörg tónlistarverkefni, m.a. styrkt af Tónlistasjóði Rannís og Menningarsjóði Íslands og Noregs. Ásta Soffía lauk mastersnámi frá die Musikhochschule í Freiburg með ágætiseinkun haustið 2020. Áður lauk hún vorið 2018 Bachelornámi í hljóðfæraleik frá Tónlistarháskólanum í Ósló með ágætiseinkun. Á Íslandi stundaði Ásta Soffía samhliða framhaldskólanámi, diplómunám við Listaháskóla Íslands og einn vetur við Tónlistarskóla FÍH. Ásta Soffía er uppalin á Húsavík þar sem hún fékk hvetjandi og skapandi tónlistaruppeldi hjá Árna Sigurbjarnarsyni við Tónlistarskóla Húsavíkur frá unga aldri, og var um leið umvafin því ríka menningarstarfi sem á sér stað í Þingeyjarsýslu og Akureyri. Ásta Soffía varð "Noregsmeistari" í harmóníkuleik 18 ára og eldri árið 2018.