Athugasemd við tölvubréf til Listvina

02. maí 2021


Í tölvubréfi til Listvina 1. maí sl. segir Hörður Áskelsson (HÁ) kantor: „Forsvarsfólk Hallgrímskirkju hefur kosið að víkja mér úr starfi kantors Hallgrímskirkju með starfslokasamningi, sem ég get ekki annað en sætt mig við.“  Af þessu tilefni er rétt að taka fram að Hörður lagði sjálfur fram ósk um hreinan starfslokasamning, eftir að hafa hafnað „Heiðurssamningi Hallgrímskirkju“, sem hann samþykkti í lok janúar sl. að lögmaður kirkjunnar og formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna ynnu að.

Óvissa um organistastörfin                                                                                                                    

Síðastliðin þrjú ár hefur HÁ leikið mjög takmarkað á orgel í Hallgrímskirkju. Framkvæmdastjórn sóknarnefndar hefur ítrekað gengið eftir því hvað við tæki þegar níu mánaða tímabili HÁ á listamannalaunum lyki, enda  nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma og binda endi á þá óvissu sem hefur verið ríkjandi varðandi organistastörfin. Í yfirstandandi fjárhagsþrengingum kirkjunnar ákvað sóknarnefnd að einungis verði í heild um það bil  eitt stöðugildi organista við Hallgrímskirkju að ræða meðan kirkjan hefur ekki tekjur af ferðafólki. Björn Steinar Sólbergsson hefur verið í 70% hlutfalli organista á áðurnefndu tímabili en HÁ í 33% sem kórstjóri.

Tillaga um Heiðurslaun Hallgrímskirkju                                                                                                    

HÁ greindi frá því á fundi með formanni sóknarnefndar 27. janúar síðastliðinn að hann hefði ekki áform um sinna störfum sem organisti kirkjunnar frá 1. júní nk. Heilsa hans leyfði ekki orgelleik á því stigi sem krefjast yrði af organista í Hallgrímskirkju. Hann gaf formanni heimild til þess að vinna með áður framkomna hugmynd, sem lýst hafði verið fyrir HÁ í nóvember síðastliðnum, um launa- og verkefnasamning „Heiðurslaun Hallgrímskirkju“, sem gæfi honum listrænt frelsi,  tóm og aðstöðu til þess að vinna með kórum sínum að verkefnum sem honum eru hugleikin. Heiðurssamningurinn væri til marks um virðingu og þökk sóknarinnar fyrir stórmerk störf HÁ í þágu Hallgrímskirkju um nærri fjögurra áratuga skeið og margverðlaunað og viðurkennt starf hans í framþróun kirkjutónlistar á Íslandi. Samningurinn hefði orðið einstakur í sinni röð í kirkjusögunni.

Sérstakir styrkir til þriggja stórverkefna                                                                                                 

Meginefni  tillögunnar um samninginn voru greiðslur í samræmi við Heiðurslaun listamanna frá Alþingi til tveggja ára og sérstakir styrkir til frjálsrar ráðstöfunar HÁ persónulega vegna þriggja uppfærslna á stórvirkjum kirkjutónlistarsögunnar. Um leið væri um starfslok hans sem organista að ræða og hann væri án stjórnunar- eða sérstakrar vinnuskyldu við kirkjuna á tímabili heiðurslauna. Engin takmörk voru lögð á vinnu hans að öðru leyti með Mótettukór Hallgrímskirkju, Listvinafélagi Hallgrímskirkju og Schola cantorum, samkvæmt þessum samningshugmyndum.

Að margra dómi hefði HÁ verið sómi af slíkum heiðurssamningi en úr því að hann kaus að hafna honum og hverfa af vettvangi Hallgrímskirkju, er vonandi að hugmyndin nýtist Alþingi til þess að veita honum heiðurslaun listamanna þegar starfslokasamningnum við Hallgrímskirkju sleppir eins og á hefur verið bent.

Einar Karl Haraldsson

Formaður sóknarnefndar