Krían

01. maí 2020
Hægt er að nálgast hugvekjuna í myndbandsformi hér.

Gleðilegt sumar  og kærar þakkir fyrir veturinn

Í 104 sálmi Gamla testamentisins stendur:

Lofa þú Drottin, sála mín.
Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill.
……Þú þenur út himininn eins og tjalddúk,….
Þú lést lindir spretta upp í dölunum,
þær streyma milli fjallanna,
þær svala öllum dýrum merkurinnar,
………
12Við þær búa fuglar himinsins,
kvaka milli laufgaðra greina…
“ég vil ljóða um Drottinn meðan lifi
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

Náttúrumyndir úr þessum fallega sálmi gamla testamentisins
Svo fallegur, undur blíður með skírskotun í náttúruhljóð austrænna gróðurlenda sálmaskáldsins  en kallast á við hjarta okkar, okkar eigin hljóð og ljóð. Allt úr sinfóníu himinsins. Sköpunin sú sama og tjalddúkur himins yfir okkur öll dregin,
yfir upprisu lífsin, upprisu frelsara okkar.

Krían er svo fallegur fugl sagði systir mín við mig um daginn.   Ég hváði, og velti fyrir mér orðinu fallegur og rifjaði upp óteljandi ferðir í bernsku á sjávarbakkanum heima , skröltandi skreiðin hangandi í snærisspottum gaf frá sér einkennilegt skraufþurrt hljóð, daufur ilmur í lofti, örlítil hlýja í andvarandum og gargandi krían að verja varpið sitt, afkvæmin sín og við veifuðum prikum út í loftið svo hún pikkaði ekki beittum goggnum í kollana á krakkagerinu sem lék sér .
Krían að standa vörð um framtíðina, krían sem ber ættarnafnið þerna eða kannski þjónn ?
Kristur sem í vorinu stendur vörð um framtíðina í voninni og er þjónn eilífðarinnar og leiðtogi.

Af hverju krían í vorinu – hver tengir saman kríu og vonina í vorinu, páskana, lífið sem sigrar, upprisuna
Í bókinni Rennur upp um nótt, yrkir Ísak Harðarson um kríuna og tengir á svo fallegan hátt þetta tvennt og segir:

“Hnitmiðuð ertu - kannski ég líka.

Garg þitt virðist ómeðvitað og ósjálfrátt
eins og ýtt sé á einfaldan takka

Mitt kvein ber í sér hæga skelfingarglötun heimsins
eins og þrýst sé á brennandi sár ...

En samt er þetta bara eitt og hið sama:
innbyggt kall og básúna lífsins
um undrið sem bíður

Um undrið sem ljómar
þegar skurnin brestur.”

Já, takk Ísak að benda á að það eru páskar í þernusöngnum eða kríkugarginu  eins og við köllum það oft.
Vorboðinn sem kemur lengst að allra og fegurðin er í tilganginum,
sem er að vernda viðkvæma endurnýjun lífsins, unga og egg.  Það minnir okkur á skurnina sem brestur og gröfina sem er rofin af vorkomu himinsins upprisunni.

Nú sveimar fallega krían mín, létthvít með dassi af gráum lit og rauðan goggin í tilefni sumarkomunnar.....eins og hún hafi komist yfir dimmrauðan varalit og sett á fæturnar líka.
Krían sem hefur fjölskyldunafnið þerna – minnir mig á þernurnar og þjónustuna.  Þjónustuna við Guð sem lætur mig ekkert bresta , náungann og náttúruna sem syngur skapara sínum dýrð aldrei meira en í vorinu, Krían sem syngur skrækri röddu og minnir okkur líka á hversu stopult er heilbrigði jarðarinnar þar sem hlýnun og súrnun sjávar tekur frá henni sjávarfangið sem nærir hana og ungana.

Krían sem minnir á varnarleysið í árásarham sínum.
Rétt eins og manneskjan sem í varnarleysi sínu leitar skjóls í kaldri veröld.

Við höfum leitað skjóls undanfarið í öryggisleysi á ferð.   Margir eru varnarlausir, margir óttaslegnir um heilsu sína, afkomu sína í framtíðinni.
Við biðjum Guð að leiða okkur í  þessari flóknu veröld vorsins og vaka yfir þeim sem þjóna okkur og leiða á erfiðum stundum.

Við þökkum Guði lífið, andartakið og eilfíðina.  Allt það sem býr í vorinu, býr í páskaboðskapnum.
Þegar við missum sjónar á þessu þá treystum við því að Guð leiðir okkur um dimma dali lífsins úr myrkri í ljós.

Meðfylgjandi mynd: Sigurður Árni Þórðarson