Mikill samdráttur í rekstri HallgrímskirkjuFjárhagsleg innkoma og starfsemi Hallgrímskirkju hefur á undanförnum árum byggst að mestu leyti á tekjum af ferðamönnum sem heimsótt hafa kirkjuna. Í kjölfar COVID-19 faraldursins hefur sú innkoma hrunið og óvíst hvenær úr rætist. Við þessar aðstæður hefur kirkjunni verið óhjákvæmilegt að ráðast í niðurskurð útgjalda, frestun framkvæmda, uppsagnir starfsfólks og breytingar á starfskjörum sem og lækkun á framlögum til menningar- og listastarfsemi. Á fundi sóknarnefndar Hallgrímskirkju, aðal- og varamanna, sem haldinn var þann 16. júní s.l., fól sóknarnefndin framkvæmdastjórn að vinna áfram að endurskipulagningu á rekstri kirkjunnar í samræmi við fjárhagsáætlun, sem samþykkt var á aðalfundi þann 24. maí s.l. Af hálfu sóknarnefndar hefur jafnframt komið fram að hún telur brýnt að leita leiða til þess að auka tekjur kirkjunnar af öðru en heimsóknum ferðamanna, t.d. með aukinni útleigu vegna kirkju- og menningarviðburða, tilboðum til Íslendinga um heimsókn í kirkju og turn sem og fleiri aðgerðum.

Er það von sóknarnefndar að úr rætist sem fyrst svo unnt verði að auka við starfsemi og opnunartíma kirkjunnar á ný.