Músík sálarinnar

10. maí 2021


Á kirkjuhurð Hallgrímskirkju standa orðin: „Komið til mín.“ Ávarpið er persónulegt. Það er Jesús sem segir. „Komið til mín.“ Hann er uppspretta lífs, heimsljós, vinur og verndari sem talar. „Komið til mín“ eru hvatningarorð hans til allra manna og fyrirheit um tengsl. Yfir dyrunum er vers Hallgríms Péturssonar úr 24. Passíusálmi og með fagurri stafagerð Leifs Breiðfjörðs. Þetta merkilega dyraávarp er svona:

„Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.“

Þessi magnaða kveðja er til íhugunar og mótunar. Í dag er bænadagur og líka mæðradagur. Það er mesta happ allra manna að eiga góðan föður og góða móður. Og á mæðradegi er gott að rifja upp og íhuga hvað mæður gerðu og gera. Svo er kirkjan kristnum móðir eins og segir svo fallega í sálminum sem við syngjum í dag.

Á bænadegi koma mömmuminningar í minn huga. Mamma kenndi mér að tala við Guð sem vin og sem móður. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers fyrir kvöld- og morgunbænir. Hún kenndi mér að leggja fram lífsefnin fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

En heyrir Guð? Ég velti vöngum yfir Guðshlustuninni. Þegar ég var barn ræddum við mamma stundum um hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði allt. Hafði Guð kannski mörg eyru og hvernig væri svarað? Væri eitthvað kerfi í svörunum? Væri þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum hvers og eins? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega og brugðist væri við öllum smáatriðum í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en líf okkar væri best og fegurst ef það væri ein samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig, að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Ég trúði þessu því mamma lifði í samræmi við trú sína. Bæn og ábyrgð fóru saman. Hennar kristindómur var sömu ættar og Hallgríms Péturssonar, að trú væri ekki tæki í þágu manns sjálfs heldur ástartengsl við uppsprettu lífsins sem við mættum rækta í þágu allra. Trú og verk, orð og æði færu saman. Tengsl við Guð hefðu afleiðingar til góðs fyrir aðra. Heit bæn er ástarkveðja og beinist að heimi ekkert síður en himninum.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum móður minnar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu, átti hún daginn og stundirnar og gat nýtt tímann í samræmi við eigin þarfir og langanir. Þá las hún skáldsögur, ljóð, frásögur og alls konar bókmenntir. Hún var kona orðanna. Svo las hún líka í Biblíunni góða stund og síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var farin til Guðs á undan henni, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði það, var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri. Hún umvafði alla ástvini og fyrirbænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn. Þetta var guðsþjónusta mömmu og allir dagar voru bænadagar.

Það var heillandi að hlusta á gamla konuna biðja fyrir ástvinum sínum. Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Þegar við, fólkið hennar, rötuðum í vanda í lífinu bar hún hann fram fyrir Guð. Þegar allt gekk vel og við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig orðfært við Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að nefna við Guð. Ef einhvern hefur undrað árgæska nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Þegar mammna var á tíræðisaldri fékk hún tappa í heila og minnið hvarf að mestu. En trúin hvarf þó ekki eða samræðan við Guð. Í kjarna mömmu var músík sálarinnar, söngurinn um Guð og samtalið við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur og fer í kjarnann. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín Sigrún, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði hátt og skýrt: “Amen!” Meira sagði hún ekki. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur sem lokaorð í beinu samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífsins. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen og þá dó hún. Þegar amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar með ástarkveðju og iðju. Líf sem er bænalíf og endar með amen er gott líf.

Þetta þykir mér gott að rifja upp á bænadegi og til íhugunar fyrir okkur við byrjun nýs tíma í starfi Hallgrímskirkju. Ung kona hringdi í mig á föstudag til að panta kirkjuna fyrir hjónavígslu í haust. Hún vildi fá að ganga í hjónaband í kirkjunni því “Hallgrímskirkja er frábær“ sagði hún. Og við vorum sammála. Skömmu fyrir guðsþjónustuna áðan voru ferðamenn frá New York sem töluðu fjálglega um hve falleg kirkjan væri. Já, hún er hrífandi, björt og stílhrein. Kirkjan er líka gott ómhús fyrir söng og margar gerðir tónlistar. Listaverkin heilla einnig í þessum ljósmusteri. Stórkostleg verk Leifs Breiðfjörðs hrífa og margir staldra við Kristsstyttu Einars Jónssonar. Kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Hallgrímskirkja er fallegt hús því hún er hlið himins. Og slíku húsi tilheyrir list fyrir augu, eyru, munn, nef og sál. Hallgrímskirkja er stórstaður í borgarlandslaginu, jafnvel einkenni borgarinnar og lógó ferðamennskunnar. Hallgrímskirkja teiknar sjónarrönd Reykjavíkur. Þegar farið er yfir ferðasíður heimsins kemur í ljós að kirkjan er heimsótt sem kirkja. Stórmiðillinn the Guardian felldi þann úrskurð að kirkjan væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. Hingað hefur fólk komið til að fá gott samband, inná við, út og upp. Tugir milljóna ferðalanga lífsins hafa fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra. Þeir hafa náð sambandi við himininn. Og þannig hús á þessi kirkja að vera, staður til að tengja.

Kirkjan er oss kristnum móðir. „Komið til mín“ segir Jesús og Hallgrímur bætir við:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma ...

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Var, er og verður. Það er lokaávarp prédikunarinnar. Guð var, er og verður. En svo kemur framhald og er ekki hluti stólræðu. Ég vil geta þess – eins og mörg vita – að Hörður Áskelsson lætur brátt af störfum í kirkjunni. Honum var boðinn heiðurslaunasamningur en hann vildi frekar starfslokasamning sem sóknarnefnd samþykkti. Í fjölmiðlum hefur síðan verið margt sagt og sóknarnefnd kirkjunnar hefur verið hallmælt. Það sem við starfsfólk kirkjunnar höfum orðið að horfast í augu við, viðurkenna og taka til hjarta er að breytingar verða á skipulagi tónlistarmála og mörgu í lífi Hallgrímssafnaðar. Kórstarf verður endurskipulagt. Breytingar verða í söng- og listamálum kirkjunnar. Guð er ekki farinn úr Hallgrímskirkju, listin ekki heldur, ekki gæðin né metnaðurinn. Við þessi skil vil ég minna á að Hörður hefur þjónað kirkjunni af miklum metnaði og elju. Honum sé lof og þökk fyrir. Arfur hans við Hallgrímskirkju er arfur gæða. Mótmæli við starfslok hans breyta engu þar um. Undirritaðir hafa verið samningar sem gilda. En það er okkar val hvernig við bregðumst við breytingum. Þótt Hörður láti brátt af störfum mun fegurðarsókn hans lifa, viðmið hans um gæði standa í tónlistinni, helgihaldinu og safnaðarlífinu. Hann var ekki einn. Kirkjunni hafa í áttatíu ár þjónað miklir hæfileikamenn, leiðtogar, prestar, starfsfólk, söfnuður og sóknarnefnd sem hafa alla tíð haft mikinn metnað og gert til sjáfra sín og starfs kirkjunnar miklar kröfur. Organistinn var einn af þeim. Kirkjubyggingin var stórkostlegt hugsjónamál, listskreyting hennar líka, stórhugur í orgelbyggingu, metnaður hefur ávallt verið mikill í helgihaldinu og öðru kirkjustarfi. Menning Hallgrímskirkju var, er og verður metnaðarfull. Engin bylting er fyrirhuguð – en breytingar verða. Nýtt skeið er að hefjast. Björn Steinar mun stýra tónlistaruppbyggingunni og halda áfram að leika á orgelið eins og hann hefur gert á annan áratug og síðustu árin að mestu einn. Hann er líka yfirburðamaður í tónlistinni og nýtur trausts innan þjóðkirkjunnar, meðal tónlistarfólks í landinu og er eftirsóttur konsertorganisti innanlands sem erlendis. Ekkert hrun en vissulega breyting.

Við tímaskil er vert að opna. Nú er nýr tími sem er tími tækifæra. Biblían geymir dæmi og fyrirmyndir um allar tilfinningar, áföll og vonarefni manna. Nú þegar við förum inn í nýja öld í Hallgrímskirkju er vert að rifja upp og íhuga að fólk í Biblíunni sem varð fyrir áföllum gat valið að bakka inn í framtíðina, draga á eftir sér fortíðarmál og láta þau skilgreina og skadda lífsgönguna. Rétt eins og þegar við verðum fyrir sorgarefnum í lífinu geta áföllin verið svo stór og mikil að þau læsi, stoppi úrvinnslu og allt verður dofið. Hinn kosturinn er að vinna með fortíðina, fara í gegnum sorgarferlið og opna. Í Jesajabókinni í Gt er sagt frá því að hinir fornu hebrear, sem voru harmþrungnir yfir tapaðri stórveldistíð, gengu afturábak inn í framtíððina. Þeir bökkuðu því þeir voru með hugann við glæsta fortíð sem var farin. En svo komu nýir prestar, nýir listamenn, sem unnu með áföllin og opnuðu augu fólks. Þjóðin sneri sér frá fortíð og inn í framtíð. Í viðsnúningnum opnuðust tækifæri og nýsköpunin hófst, tilveran fékk lit, samfélagsgæðin uxu og menningin blómstraði. Saga Jesú er stóra útgáfa þessara stefja, erkisaga allra sagna mannkyns og sögu einstaklinga. Jesús var krossfestur, hann dó. En föstudagur langi var ekki tákndagur örlaga fólks eða veraldar. Heldur urðu páskar - dauðinn dó og lífið lifir. Kristnin er átrúnaður nýs tíma, möguleika, upprisu, lífsins. Á þessum gleðidögum eftir páska höfum við lifað dapurlegan tíma. Harmað félaga sem hverfa frá störfum og samstarfi. Við höfum upplifað blóðríka, litríka en einnig lausbeislaða umræðu. Og þá er mikilvægt að bakka ekki heldur þora að opna. Ég virði það sem sóknarnefnd og organisti hafa undirritað. Ég met það besta sem gert hefur verið og sleppi hinu. Arfurinn er til hvatningar og framtíðin er opin. Enginn hefur lofað, hvorki Guð eða menn, að verkefnin verði auðveld – en þau verða merkileg og krefjandi. Nú ætla ég að snúa til framtíðar - opna - og við erum samstillt prestar, organisti, djákni, allt starfsfólk, sóknarnefnd og hinn stóri hópur sjálfboðaliða – framtíðin er opin. Lífið lifir og samhengið þess lífs er skýrt.

  1. maí, 2021.