Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2. júlí kl. 12.30

01. júlí 2020
Erla Rut Káradóttir leikur á öðrum tónleikum Orgelsumars 2020 fimmtudaginn 2. júlí kl. 12.30

Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir hádegistónleikum með íslenskum organistum alla fimmtudaga í sumar frá 25. júní – 20. ágúst undir heitinu Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2020 , en vegna heimsfaraldursins varð að fresta Alþjóðlegu Orgelsumri 2020 í Hallgrímskirkju.

Íslenskir organistar munu sjá til þess að Klais-orgel Hallgrímskirkju þagni þó ekki og á tónleikum sumarsins gefst áheyrendum kostur á að heyra 9 íslenska organista sem starfa við kirkjur víða um land leika listir sínar í Hallgrímskirkju.

 

Á öðrum tónleikum Orgelsumarsins fimmtudaginn 2. júlí kl. 12.30 leikur Erla Rut Káradóttir organisti Grindavíkurkirkju. Á efnisskránni mun hún leika Orgelsónötu nr. 4 í B-dúr, op. 65 eftir Felix Mendelssohn Bartholdy (1809-1847), Schmücke dich, o liebe Seele, BWV 654 eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750) og verk eftir Jehan Alain (1911-1940).

 

Erla Rut Káradóttir lærði á píanó í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðar Tónlistarskólanum í Reykjavík, þar sem kennari hennar var Anna Þorgrímsdóttir. Hún hóf síðar nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og lauk þaðan kirkjuorganistaprófi árið 2015 og lauk bakkalárnámi í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands í vor, undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Erla hefur stundað kórastarf frá unga aldri, numið söng og starfar nú sem organisti og kórstjóri Grindavíkurkirkju og barnakórstjóri í Neskirkju.

 

Aðgangseyrir er 1500 krónur fyrir fullorðna, ókeypis fyrir félaga í Listvinafélaginu og börn yngri en 16 ára.

Miðasala er við innganginn.