Íslandsviðburður - heimsviðburður

26. janúar 2019

Einstakur og sögulegur atburður verður í messunni 27. janúar í Hallgrímskirkju, Íslandsviðburður og jafnvel heimsviðburður. Átta systkini verða skírð í upphafi messu. Þar af eru fjögur þeirra fjórburar og tvö tvíburar. Þau eru öll bandarísk. Ástæðan fyrir að þau koma til Íslands til að skírast er að elsti bróðirinn var á ferð með foreldrum sínum fyrir 13 árum síðan. Hann hafði átt í miklum heilsufarsvandræðum sem barn. Þegar hann kom inn í Hallgrímskirkju settist hann niður, varð fyrir reynslu og vildi ekki fara. Umsnúningur varð í lífi drengsins. Þessi heimsókn í Hallgrímskirkju hafði svo mikil áhrif á foreldrana að þau vildu gjarnan að börnin þeirra kæmu í kirkjuna að nýju og yrðu skírð. Svo verður í upphafi messunnar.

Ekki hafa verið skírðir stórir barnahópar á Íslandi í sömu athöfn frá því á tíma kristnitökunnar fyrir þúsund árum. Fullvíst má telja að aldrei fyrr hafi fjórburar og tvíburar í sama systkinahópnum fyrr verið skírð í sömu athöfn á Íslandi. Og það er jafnvel í fyrsta sinn í heiminum sem svona atburður verður. Fjórburarnir fá góða afmælisgjöf því þau verða sextán ára á skírnardegi sínum.

Foreldrarnir eru Stacey og Stefan Soloviev. Þau eiga þrjú börn auk þessara sem verða skírð á morgun. Yngstu börnin eru heima – og „við komum með þau seinna“ sagði mamman brosandi.