Átta milljónir til hjálparstarfsVið messu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 16. desember var úthlutað úr Líknarsjóði Hallgrímssafnaðar og gerð grein fyrir messusamskotum á árinu. Eins og jafnan er safnað til góðra málefna í sunnudagsmessum í Hallgrímskirkju og einnig í árdegismessum á miðvikudögum. Kirkjugestir lögðu samtals fram um 1.5 milljónir króna í samskotum við messur á árinu.Á jólafundi sóknarnefndar 11. desember sl. var ákveðið að verja 5 milljónum króna úr Líknarsjóði til Hjálparstarfs kirkjunnar. Þar til viðbótar kemur ríflega 1 milljón úr messusamskotum þannig að í hlut Hjálparstarfsins komu rösklega 6 milljónir króna á árinu. Þá var samþykktur 1.5 milljón króna styrkur til hjálparstarfs Sambands íslenskra kristniboðsfélaga að viðbættum messusamskotum. Tekið skal fram að þess er jafnan gætt að í Líknarsjóði séu fjármunir til þess að bregðast við neyðartilfellum.

Jón Björnsson og Guðrún Laufey Ólafsdóttir úr ungmennastarfi Hallgrímskirkju kynntu þá ákvörðun sóknarnefndar að helga framlögin úr Líknarsjóði að þessu sinni sérstaklega verkefnum í þágu barna og unglinga. Ætlunin er að tengja þau Hallgrímssöfnuði með fræðslu og kynningu. Jón og Guðrún Laufey afhentu þeim Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, og Ástu Bryndísi Schram, stjórnarformanni Kristniboðssambandsins, styrkina úr Líknarsjóði.Í fyrsta lagi er um að ræða stuðning við Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar. Framtíðarsjóðurinn styður sjálfráða íslensk ungmenni til þess að rjúfa vítahring stuttrar skólagöngu, lágra launa og fátæktar.

Í öðru lagi er verið að styrkja það starf Hjálparstarfsins að styðja börn og ungmenni sem hafast við á götum Kampala, höfuðborgar Úganda. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu og taki þátt í verkefnum sem styrkja sjálfsmynd þess - og getu götubarna til þess að gæta réttar síns.

Í þriðja lagi á að verja framlagi til Sambands íslenskra kristniboðsfélaga til þess að byggja fyrsta hluta nýs framhaldsskóla fyrir stúlkur í Kamununo sem er í fjalllendi Pókothéraðs í Kenía. Verkefnið er unnið í samvinnu við Utanríkisráðuneytið.

Um tveggja áratuga skeið hafa verið samskot í messum í Hallgrímskirju til margvíslegra málefna. Á þessu ári hefur verið safnað til hjálparstarfs, kristniboðs, til Samhjálpar, til Landssöfnunar vegna missis barna, til viðgerða í Skálholti, til Listvinafélags kirkjunnar, til Barna- og unglingakórsins og til skógræktar á Íslandi.