Prédikunarstóllinn / 11. janúar 2026 / Þrettándamessa / Jesúbarn á flótta

15. janúar 2026

Jesúbarn á flótta

Messa 4. Janúar. 2026 Sunnudag milli nýárs og þrettánda

Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson


Lexía: Jes 61.10-62.3 

Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins, sveipaði mig skikkju réttlætisins. Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn og brúður býr sig skarti sínu og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn og garður lætur frækornin spíra mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum. Sökum Síonar get ég ekki þagað og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi og hjálpræði hennar logar sem kyndill. Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt og allir konungar dýrð þína, þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. 


Pistill: 1Jóh 3.1-3

Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn.


Guðspjall: Matt 2.13-15

Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ 


Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.

Nú er hátíðartíminn að baki og á morgun tekur við óbreytt heil, vinnuvika. Lífið flestra fellur í fastari skorður skóli, vinna, skyldur og verkefni. Í flestum tilvikum er það á vissan hátt fagnaðarefni, það er vissulega gott að gera sér dagamun, hátíðir lífga upp á og gera rof í hversdaginn og eru mikilvægar. En það er eins og stundum er tekið til orða, það eru ekki alltaf jólin. Enda ef svo væri, færi þá ekki allur glansinn af þeim? Erum við ekki flest þannig gerð að vilja og þurfa að hafa einhvers konar viðspyrnu í lífi okkar takast á við verkefni og  finna sig þannig verðugan verkalauna sinna, hvernig svo sem þau eru tilkomin eða metin.

Stöðugt fjölgar þó í þeim hópi sem ekki er gert að sinna utanaðkomandi skyldum eftir föstum ramma skilgreinds vinnutíma heldur geta mótað að miklu leyti sinn lífsstíl, hvernig tímanum er varið og skipt milli skyldustarfa og annars. Að vissu leyti gerir þetta frelsi meiri kröfur til eigin skipulags og sjálfsaga.

Helgihaldið í kirkjum landsins heldur sínum takti og í lífi sumra er það sem betur fer dýrmætur rammi þar sem sækja má andlega uppörvun og stuðning. Lifandi trúarlíf hefur löngum einkennst af ákveðum takti eða hrynjandi í lífinu. Við höfum flest heyrt af taktföstum tíðasöng í klaustrum svo dæmi sé tekið. Í umhverfi okkar kirkjudeildar er ekki að finna þess háttar kröfur en samt finna flest okkar hversu dýrmætt það er að halda sig við vissa reglu, svo sem eins og bæn að kvöldi og að morgni og síðan þátttaka í samfélagi um trú sína svo sem eins og að mæta til messu á sunnudögum eða í eitthvert helgihald eins og kyrrðar eða bænastundir eða morgunmessur líkt og við ástundum í þessari kirkju og á sinn trúfasta hóp. Eg held megi segja að fastur taktur eða rytmi í lífinu sé okkur flestum mikilvægur, jafnvel nauðsynlegur. En það getur kostað töluverðan sjálfsaga að halda sig við það sem maður samt veit að er gagnlegt svo sem eins og að ástunda hreyfingu af einhverju tagi. Allt sem hér hefur verið nefnt sem jákvætt getur líka í sumum tilfellum gengið útí öfgar þegar það verður að stífu lögmáli sem ekki má víkja útaf og ef það gerist þá verður uppnám og örvænting. Um þetta gildir sem annað að allt er best í hófi.


Guðspjallið sem við heyrðum hér lesið segir frá því þegar nauðsynlegt reyndist að flýja með barnið litla í fjarlægt land til að forða því undan ofsóknum. Hin fagra kyrralífsmynd af barni í jötu og hirðum og vitringum sem koma og votta virðingu sína og aðdáun víkur nú fyrir sótsvörtum veruleikanum, heimi þar sem grimmd og miskunnarleysi ræður ríkjum og óöryggi og óvissa mótar lífið. Um leið er okkur kippt inn í veruleika dagsins í dag þar sem stórum hluta mannkyns er gert að lifa við svipaðar aðstæður. Stjórnvöld sem deila og drottna og láta sér í léttu rúmi liggja lífskjör þegnanna og hafa það eitt í huga að gæta þess að þeir ógni ekki þeirra eigin stöðu og tökum þeirra á stjórnartaumum. Þannig hefur þetta verið um aldaraðir og það má segja að hugmyndin um lýðræði og að þau sem veljast til að fara með völd geri það í umboði þegnanna sé tiltölulega ný. Ekki nóg með það heldur stendur hún víða völtum fótum. Virðingin fyrir mannslífinu er nánast engin, umburðarlyndi í lágmarki. Tilgangurinn helgar öll meðöl. Jafnvel okkar heilaga ritning er tekin og látin þjóna annarlegum sjónarmiðum, trúverðugleiki trúarinnar er nýttur til að lyfta upp úreltu gildismati og mannskilningi sem ganga gegn grundvallarhugsjónum um frelsi mannsins og virðingu fyrir lífi og lífsstíl fólks.

Það er vissulega rétt að enginn getur eignað sér texta ritningarinnar og þar er mörg orð að finna, jafnvel sjónarmið sem við myndum engan veginn taka undir. Má þar nefna umræður um dauðarefsingar, þrælahald, heilagt stríð, eignarétt húsbóndans yfir öllu sem undir hans þaki býr, eiginkonum, börnum, þrælum og húsdýrum.


Það sjónarmið sem kristið fólk hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir að þurfi að beita í þessu samhengi er að lesa biblíuna, eins og stundum er sagt, gegnum kross Jesú krists. Jesús kristur og kærleiksboðskapur hans verður þannig að nauðsynlegum túlkunarlykli þegar þessi mörgu rit eru lesin og rannsökuð og greind. Rit sem flest eiga sér langa mótunar og ritunarsögu eru orðin til við mismunandi aðstæður og er ætlað að þjóna alls kyns hlutverkum.


Það á við í þessu samhengi líkt og á eiginlega við í öllum aðstæðum að það er engin einföld lausn í boði, lífið allt og áskoranir þess er flókið verkefni og allar tilraunir til að búa til eitthvað einfalt patent er í besta falli blekking.

En er þá ekkert framundan eða í boði nema eilíft strit og barátta? Eiginlega ekki, það verður alltaf barátta að halda á lofti gildum mannúðar og kærleika en það er og getur aldrei orðið eins manns barátta, það sem mestu skiptir í þessu samhengi er sú staðreynd að betur sjá augu en auga og með því að hjálpast að með því að treysta hvort öðru og virða hvort annað þá er hægt að lyfta endalausum grettistökum. 


Í þessu samhengi má minnast þess að á þessu ári munum við fagna 40 ára vígsluafmæli þessa stórkostlega helgidóms sem við erum saman komin í en þá voru liðin rétt rúm fjörutíu ár frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þá voru liðin um 30 ár frá því fyrst komu fram hugmyndir um að reisa kirkju til heiðurs minningu Hallgríms Péturssonar. Það var 1914 þegar liðin voru 300 ár frá fæðingu hans sem fyrst var farið að ræða þessi mál. Staðreyndin er að þessar hugmyndir mættu allt frá upphafi nokkrum mótbyr og jafnvel eftir að hafist var handa við bygginguna þá var andóf uppi. En alltaf var þó öflugur hópur sem ekki lét deigan síga og hélt áfram og hugmyndin átti sömuleiðis víðtækan hljómgrunn úti í þjóðfélaginu. Þannig að þegar húsið var risið og vígt þá kom í ljós að um það bil 2 þriðju kostnaðarins við bygginguna var í formi frjálsra framlaga. Félög og einstaklingar af landinu öllu lögðu þessari hugsjón lið. Það er því ekki af ástæðulausu sem þess kirkja er gjarnan kölluð þjóðarhelgidómur.

Þannig má segja að þetta glæsilega hús sem nú er svo mikið lofað um heiminn allan, sé fagur vottur þess sem hægt er að koma í framkvæmd þegar fólk hjálpast að, vinnur saman af örlæti og kappi.


En þrátt fyrir alla sína fegurð þá er þetta samt í eðli sínu fyrst og fremst skjól, skel til hlífðar fyrir fólk sem kemur saman til að biðja, til að syngja saman, til að heyra lesið út okkar helgu bók, uppbyggjast í samfélaginu og styrkjast í viðleitni sinni til að verða betri manneskjur og láta gott af sér leiða.


Guðspjallið birtir okkur mynd af fjölskyldu á flótta, sú mynd er bæði gömul og ný en hún segir líka við okkur þetta: Jesúbarnið er með í för með öllum slíkum og þá getum við líka minnst þess að jólaguðspjallið sjálft segir frá því að þau komu aftur og aftur að lokuðum dyrum í neyð sinni þau hafa knúð dyra aftur og aftur og aftur og aftur er hurðum skellt. Er það ekki einmitt það sem er að gerast einmitt um þessar mundir. Hvert landið á fætur öðru skellir í lás lokar sínum dyrum, nei því miður það er ekki rúm fyrir ykkur í gistihúsinu.


Foreldrarnir fóru með jesúbarnið inn í annað land en þar voru ekki þeirra rætur og um leið og aðstæður höfðu breyst og hættan var liðin hjá þá fóru þau heim þar sem þau höfðu alist upp og lifað og þar vildu þau og þráðu að vera. Er það ekki raunin með flest það fólk sem hrekst að heiman það gerir það ekki með glöðu geði það þráir helst af öllu að fá að lifa og starfa þar sem það er fætt og þekkir best og á sína sögur og rætur.

Biblían færir okkur fögur og uppbyggileg orð, orð sem hvetja og styrkja svo sem eins og þau sem hér voru lesin. Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins.

Og þessi orð postulans: Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn

Við skulum anda að okkur þessum fögru orðum og ganga út í hversdaginn með gleði og djörfung. Leggja góðum málum lið, hvar sem þau birtast. 


Í Jesú nafni, amen.


HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR