Pistlar og predíkanir

Eftir Sólbjörg Björnsdóttir
•
15. janúar 2026
Jesúbarn á flótta Messa 4. Janúar. 2026 Sunnudag milli nýárs og þrettánda Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 61.10-62.3 Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins, sveipaði mig skikkju réttlætisins. Eins og brúðgumi setur upp höfuðdúk sinn og brúður býr sig skarti sínu og eins og jörðin gefur gróðrinum vöxtinn og garður lætur frækornin spíra mun Drottinn Guð láta réttlæti dafna og orðstír frammi fyrir öllum þjóðum. Sökum Síonar get ég ekki þagað og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi og hjálpræði hennar logar sem kyndill. Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt og allir konungar dýrð þína, þér verður gefið nýtt nafn sem munnur Drottins ákveður. Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. Pistill: 1Jóh 3.1-3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn. Guðspjall: Matt 2.13-15 Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Nú er hátíðartíminn að baki og á morgun tekur við óbreytt heil, vinnuvika. Lífið flestra fellur í fastari skorður skóli, vinna, skyldur og verkefni. Í flestum tilvikum er það á vissan hátt fagnaðarefni, það er vissulega gott að gera sér dagamun, hátíðir lífga upp á og gera rof í hversdaginn og eru mikilvægar. En það er eins og stundum er tekið til orða, það eru ekki alltaf jólin. Enda ef svo væri, færi þá ekki allur glansinn af þeim? Erum við ekki flest þannig gerð að vilja og þurfa að hafa einhvers konar viðspyrnu í lífi okkar takast á við verkefni og finna sig þannig verðugan verkalauna sinna, hvernig svo sem þau eru tilkomin eða metin. Stöðugt fjölgar þó í þeim hópi sem ekki er gert að sinna utanaðkomandi skyldum eftir föstum ramma skilgreinds vinnutíma heldur geta mótað að miklu leyti sinn lífsstíl, hvernig tímanum er varið og skipt milli skyldustarfa og annars. Að vissu leyti gerir þetta frelsi meiri kröfur til eigin skipulags og sjálfsaga. Helgihaldið í kirkjum landsins heldur sínum takti og í lífi sumra er það sem betur fer dýrmætur rammi þar sem sækja má andlega uppörvun og stuðning. Lifandi trúarlíf hefur löngum einkennst af ákveðum takti eða hrynjandi í lífinu. Við höfum flest heyrt af taktföstum tíðasöng í klaustrum svo dæmi sé tekið. Í umhverfi okkar kirkjudeildar er ekki að finna þess háttar kröfur en samt finna flest okkar hversu dýrmætt það er að halda sig við vissa reglu, svo sem eins og bæn að kvöldi og að morgni og síðan þátttaka í samfélagi um trú sína svo sem eins og að mæta til messu á sunnudögum eða í eitthvert helgihald eins og kyrrðar eða bænastundir eða morgunmessur líkt og við ástundum í þessari kirkju og á sinn trúfasta hóp. Eg held megi segja að fastur taktur eða rytmi í lífinu sé okkur flestum mikilvægur, jafnvel nauðsynlegur. En það getur kostað töluverðan sjálfsaga að halda sig við það sem maður samt veit að er gagnlegt svo sem eins og að ástunda hreyfingu af einhverju tagi. Allt sem hér hefur verið nefnt sem jákvætt getur líka í sumum tilfellum gengið útí öfgar þegar það verður að stífu lögmáli sem ekki má víkja útaf og ef það gerist þá verður uppnám og örvænting. Um þetta gildir sem annað að allt er best í hófi. Guðspjallið sem við heyrðum hér lesið segir frá því þegar nauðsynlegt reyndist að flýja með barnið litla í fjarlægt land til að forða því undan ofsóknum. Hin fagra kyrralífsmynd af barni í jötu og hirðum og vitringum sem koma og votta virðingu sína og aðdáun víkur nú fyrir sótsvörtum veruleikanum, heimi þar sem grimmd og miskunnarleysi ræður ríkjum og óöryggi og óvissa mótar lífið. Um leið er okkur kippt inn í veruleika dagsins í dag þar sem stórum hluta mannkyns er gert að lifa við svipaðar aðstæður. Stjórnvöld sem deila og drottna og láta sér í léttu rúmi liggja lífskjör þegnanna og hafa það eitt í huga að gæta þess að þeir ógni ekki þeirra eigin stöðu og tökum þeirra á stjórnartaumum. Þannig hefur þetta verið um aldaraðir og það má segja að hugmyndin um lýðræði og að þau sem veljast til að fara með völd geri það í umboði þegnanna sé tiltölulega ný. Ekki nóg með það heldur stendur hún víða völtum fótum. Virðingin fyrir mannslífinu er nánast engin, umburðarlyndi í lágmarki. Tilgangurinn helgar öll meðöl. Jafnvel okkar heilaga ritning er tekin og látin þjóna annarlegum sjónarmiðum, trúverðugleiki trúarinnar er nýttur til að lyfta upp úreltu gildismati og mannskilningi sem ganga gegn grundvallarhugsjónum um frelsi mannsins og virðingu fyrir lífi og lífsstíl fólks. Það er vissulega rétt að enginn getur eignað sér texta ritningarinnar og þar er mörg orð að finna, jafnvel sjónarmið sem við myndum engan veginn taka undir. Má þar nefna umræður um dauðarefsingar, þrælahald, heilagt stríð, eignarétt húsbóndans yfir öllu sem undir hans þaki býr, eiginkonum, börnum, þrælum og húsdýrum. Það sjónarmið sem kristið fólk hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir að þurfi að beita í þessu samhengi er að lesa biblíuna, eins og stundum er sagt, gegnum kross Jesú krists. Jesús kristur og kærleiksboðskapur hans verður þannig að nauðsynlegum túlkunarlykli þegar þessi mörgu rit eru lesin og rannsökuð og greind. Rit sem flest eiga sér langa mótunar og ritunarsögu eru orðin til við mismunandi aðstæður og er ætlað að þjóna alls kyns hlutverkum. Það á við í þessu samhengi líkt og á eiginlega við í öllum aðstæðum að það er engin einföld lausn í boði, lífið allt og áskoranir þess er flókið verkefni og allar tilraunir til að búa til eitthvað einfalt patent er í besta falli blekking. En er þá ekkert framundan eða í boði nema eilíft strit og barátta? Eiginlega ekki, það verður alltaf barátta að halda á lofti gildum mannúðar og kærleika en það er og getur aldrei orðið eins manns barátta, það sem mestu skiptir í þessu samhengi er sú staðreynd að betur sjá augu en auga og með því að hjálpast að með því að treysta hvort öðru og virða hvort annað þá er hægt að lyfta endalausum grettistökum. Í þessu samhengi má minnast þess að á þessu ári munum við fagna 40 ára vígsluafmæli þessa stórkostlega helgidóms sem við erum saman komin í en þá voru liðin rétt rúm fjörutíu ár frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þá voru liðin um 30 ár frá því fyrst komu fram hugmyndir um að reisa kirkju til heiðurs minningu Hallgríms Péturssonar. Það var 1914 þegar liðin voru 300 ár frá fæðingu hans sem fyrst var farið að ræða þessi mál. Staðreyndin er að þessar hugmyndir mættu allt frá upphafi nokkrum mótbyr og jafnvel eftir að hafist var handa við bygginguna þá var andóf uppi. En alltaf var þó öflugur hópur sem ekki lét deigan síga og hélt áfram og hugmyndin átti sömuleiðis víðtækan hljómgrunn úti í þjóðfélaginu. Þannig að þegar húsið var risið og vígt þá kom í ljós að um það bil 2 þriðju kostnaðarins við bygginguna var í formi frjálsra framlaga. Félög og einstaklingar af landinu öllu lögðu þessari hugsjón lið. Það er því ekki af ástæðulausu sem þess kirkja er gjarnan kölluð þjóðarhelgidómur. Þannig má segja að þetta glæsilega hús sem nú er svo mikið lofað um heiminn allan, sé fagur vottur þess sem hægt er að koma í framkvæmd þegar fólk hjálpast að, vinnur saman af örlæti og kappi. En þrátt fyrir alla sína fegurð þá er þetta samt í eðli sínu fyrst og fremst skjól, skel til hlífðar fyrir fólk sem kemur saman til að biðja, til að syngja saman, til að heyra lesið út okkar helgu bók, uppbyggjast í samfélaginu og styrkjast í viðleitni sinni til að verða betri manneskjur og láta gott af sér leiða. Guðspjallið birtir okkur mynd af fjölskyldu á flótta, sú mynd er bæði gömul og ný en hún segir líka við okkur þetta: Jesúbarnið er með í för með öllum slíkum og þá getum við líka minnst þess að jólaguðspjallið sjálft segir frá því að þau komu aftur og aftur að lokuðum dyrum í neyð sinni þau hafa knúð dyra aftur og aftur og aftur og aftur er hurðum skellt. Er það ekki einmitt það sem er að gerast einmitt um þessar mundir. Hvert landið á fætur öðru skellir í lás lokar sínum dyrum, nei því miður það er ekki rúm fyrir ykkur í gistihúsinu. Foreldrarnir fóru með jesúbarnið inn í annað land en þar voru ekki þeirra rætur og um leið og aðstæður höfðu breyst og hættan var liðin hjá þá fóru þau heim þar sem þau höfðu alist upp og lifað og þar vildu þau og þráðu að vera. Er það ekki raunin með flest það fólk sem hrekst að heiman það gerir það ekki með glöðu geði það þráir helst af öllu að fá að lifa og starfa þar sem það er fætt og þekkir best og á sína sögur og rætur. Biblían færir okkur fögur og uppbyggileg orð, orð sem hvetja og styrkja svo sem eins og þau sem hér voru lesin. Ég gleðst yfir Drottni, ég fagna yfir Guði mínum því að hann bjó mig klæðum hjálpræðisins. Og þessi orð postulans: Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn Við skulum anda að okkur þessum fögru orðum og ganga út í hversdaginn með gleði og djörfung. Leggja góðum málum lið, hvar sem þau birtast. Í Jesú nafni, amen. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR

Eftir Sólbjörg Björnsdóttir
•
15. janúar 2026
Aðfangadagskvöld 2025 Sr. Eiríkur Jóhannsson Lúkas 2:1-14 1 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6 En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. 8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9 Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ 13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: 14 Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Það eru komin jól, enn eru þau komin þessi jól sem aldrei fölna, aldrei verða úrelt, aldrei hætta að kveikja neista í brjóstum okkar, ungra sem aldinna. Þau tengja saman fortíð og nútíð, minningar úr bernsku og augnablikið núna. Þau lýsa upp dimmar vetrarnæturnar, þau lýsa upp í himinhvolfið, þau lýsa yfir landið og þau lýsa hugarfylgsnin innra með okkur, en þar getur líka orðið vandratað og villugjarnt. Hingað erum við komin þessi mikli flokkur, inn í helgidóm til að eiga gleðistund til að syngja saman, til að biðja saman, til að heyra þessa einföldu frásögn lesna af fæðingu barns og dýrðarsöng engla, þegar himinn og jörð mætast og það er söngur sem hljómar, lofsöngur ómar. Við komum úr ólíkum áttum, hvert og eitt með okkar sögu og reynslu og viðhorf, við erum á ólíkum aldri og hvernig við túlkum, hvernig við heyrum, hvernig við sjáum, það sem fram fer og fyrir augu ber það er í raun einstakt fyrir okkur hvert og eitt. Í guðspjallinu er okkur vísað inn í hrörlegt skýli þar sem liggja húsdýr mannsins, sum jórtra, önnur sofa, það berst frá þeim hlýja og rósemd. Og þarna liggur lítið barn, lítill reifastrangi og sefur. Og þarna er kannski líka litli asninn sem María fékk að sitja á þessa löngu ferð sem hún þurfti að takast á hendur, þetta litla en sterka burðardýr sem seint er talið bera með sér glæsileik en samt, var það ekki asni sem bar frelsarann inn í borgina miklu? Á einum stað í gamla testamentinu er það asni einn sem tekur að mæla fyrir munn Drottins þegar spámaðurinn Bíleam sér ekki og skynjar það sem honum er ætlað að mæla og segja fram fyrir munn Drottins, hann lýstur sitt burðardýr með staf sínum en uppsker guðlega vitrun og stranga áminningu, asninn tekur til við að tala og ávítar og leggur línur. Rétt eins og kýrnar hér heima á jólanótt. Spámaðurinn sem taldi sig vita eitt og annað, varð að þola áminningu. Hann sá ekki né heyrði það sem honum var ætlað að sjá, það sem honum var ætlað að segja og miðla áfram. Barnið litla sefur rótt, Guð er kominn inn í mannleg kjör en ekki bara það, hann er kominn inn í veröldina, inn í lífríkið allt og það eru ekki bara hirðar og vitringar sem eru vitni, það eru dýrin líka systkin okkar og frændur af sömu ættum og ættkvíslum hryggdýra og spendýra. Við höfum gert þau mörg hver okkur undirgefin en við megum aldrei gleyma því að við erum hluti þessarrar heildar og án þessarrar heildar getum við ekki lifað. Nei við erum ekki ein á þessari jörðu og það er gott að vita og gott að geta glaðst yfir því. Fæðing er undursamlegt fyrirbæri en hún er ekki átakalaus, hún er ekki hættulaus, henni fylgir ómældur sársauki en að endingu er gleðin yfir hinu nýja lífi það sem yfirgnæfir allt annað. Þannig er eiginlega lífið allt, nýtt er stöðugt að verða til, lifandi verur fæðast en líka hugmyndir og áform, en hvernig förum við með það allt, það er stóra spurningin, hvað er það sem við sjáum og heyrum? Spámaðurinn þurfti að heyra boðskapinn af munni asnans síns til þess að ná áttum. Hann kom úr óvæntri átt og þannig er okkar líf líka og það sem við heyrum og sjáum og nemum. Það sem gjarnan gerist í nútímanum er að við veljum það sem við viljum heyra og lokum oft augum og eyrum fyrir mörgu öðru. Það má kalla margtuggna klisju að jólagleðin komi innan frá en ekki vegna alls hins ytra, ekki vegna skrautsins, matarins, gjafana, tónleikanna. Allt er þetta þó góðra gjalda vert í hófi og auðvitað spilar þetta allt saman á einn eða annan hátt en samt er sannleikur í því fólgin að segja að neistinn sem kveiki ljósið, hann komi að innan. Þær myndir sem guðspjallið dregur upp eru af fólki í nánum tengslum við náttúruna, unga parið með barnið sitt í gripahúsi. Hirðar úti í haga, fjárhópurinn hefur bælt sig í þéttum hóp í næturkulinu, fjármennirnir skiptast á að ganga í kring um hópinn og gæta þess að rándýr laumist ekki að í myrkrinu og hremmi bráð, hinir sitja í kringum lítinn varðeld og verma sig. Þá skeður undrið, himnarnir opnast og þeim birtist sýn, engill sem mælir við þá skiljanleg orð en samt ekki. Frelsari fæddur í borg Davíðs og skyndilega stendur hjá englinum risakór sem syngur dýrðarsöng, tjaldið milli heimanna tveggja var eina örskotsstund dregið frá, himinn og jörð snertu hvort annað, eitt töfrum slungið augnablik. Og þeir taka sig upp fjármennirnir og halda af stað að leita að staðfestingu orðanna. Og þeir finna staðinn segja frá og krjúpa í lotningu. Síðar gerist það að fræðimenn úr fjarlægu landi finna barnið og móður þess. Okkur dylst samt ekki varnarleysið og hversu viðkvæmt allt þetta er og getur að sönnu brugðið til beggja vona. Það minnir okkur á að þannig er tilvera okkar allra, sama hversu vel við reynum þá er alltaf óvissa, enginn veit með vissu hvað getur gerst. Lífsháskann er alls staðar að finna. Þess vegna eru þessi himnesku orð svo dýrmæt. „Verið óhrædd.“ Þegar allt kemur til alls þá er ekkert að óttast, það er yfir okkur vakað, við eigum í vændum öruggt skjól. Fræðingar og fáfróðir smalar vitja barnsins. Táknræn staðfesting þess að það sem þarna er að gerast er öllum ætlað og talar inní ólíka heima. Okkar er að hlusta, sjá og heyra, meðtaka, gefa gaum að þeim skilaboðum sem til okkar er beint. Ekki að líta undan og forðast að horfast í augu við sannleika. Við gerum svo oft eitt og annað sem við innst inni vitum að er ekki æskilegt eða gagnlegt. Það er svo auðvelt að fylgja straumnum, gera bara eins og hinir. Náttúran lífríkið, stynur undan höggum okkar, við látum sem við heyrum ekki þegar til okkar er kallað. En nú er gleðistund í heiminum, um öll heimsins ból eru haldin heilög jól, í gleðinni felst dýrmæt næring, hún eflir styrk og þrótt. Við getum ekki haft augun af barninu litla, öll leiðindi og gremja fjúka burt. Það sem er svo stórkostlegt er sú staðreynd að þetta þarf ekki bara að gerast eitt kvöld á ári, heldur má viðhalda þessum, viðhorfum þessari nálgun, þessari von um hið góða fagra og fullkomna, sérhvern dag sem okkur er gefinn. Hvort heldur í einrúmi eða samfélagi helgidómanna. Það finnst ekki betra tákn en einmitt barnið litla, barnið býr yfir ótal möguleikum og þess bíða ótal tækifæri, það er okkar að hjálpa því að vaxa og dafna og þroskast. Þannig er einnig með trú okkar og hin jákvæðu viðhorf til lífsins, það er undir okkur komið að efla þetta og styrkja, næra með ástundun og iðkun. Ljósið skín í myrkrinu, stjarna vísar veginn yfir fjöll og firnindi, við höldum áfram hinn ótrygga veg, hina holóttu braut, hinn bratta stíg, en saman getum við fundið lausnir og leiðir og lært að lifa með systkinum okkar á þessari jörð, með öllu sem lífsanda dregur og á sér jafngilt tilkall til lífs. Fögnum, gleðjumst og þökkum á helgri jólahátíð. Barn er fætt í Betlehem, nú blikar jólastarna. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN

15. janúar 2026
Jóladagur 2025 Sr. Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 62.10-12 Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin. Pistill: Tít 3.4-7 En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs. Guðspjall: Jóh 1.1-14 Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er jóladagur það ríkir kyrrð yfir borginni. Fáir á ferli margir hafa sofið fram eftir og notið þess að hafa hægt um sig. En samt erum við hingað komin í helgidóminn, við heyrum fagra kunnuglega sálma og tökum jafnvel undir, við heyrum lestra úr helgri bók sem við flest könnumst við og höfum heyrt og nú er það um orðið sem var í upphafi hjá Guði, um orðið sem varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika. Þetta er töluvert annað en það sem lesið var í gær um fæðingu barns í gripahúsi. Þetta er texti sem segja má að sé með heimspekilegu ívafi. Talað er um orðið og ljósið og samhengið gefur til kynna að með því að tala um orðið þá sé verið að tala um speki, þekkingu já jafnvel lögmál. Og þessi þekking þessi speki þessi lögmál eru frá Guði komin. En þrátt fyrir þessi lögmál þá er samt brestur í kerfinu, mennirnir veita þeim ekki viðtöku, þeir eru eins og kenjóttir krakkar. Foreldrarnir reyna sitt besta til að hafa vit fyrir þeim en samt þau æða út í foraðið og fara sér að voða. Þó þetta sé orðað svona með hversdagslegum hætti þá er þetta samt kjarni málsins, þessi þversögn um mannlegt líf og hegðun og atferli. Hið góða sem ég vil það gjöri ég ekki segir Páll postuli á einum stað. En hvers vegna skyldi þessum texta vera valinn staður til lestrar einmitt á þessum tíma þegar við fögnum fæðingu frelsarans? Líklega vegna þess að hér er verið að fjalla um upphaf það er eitthvað að byrja, fæðing er tákn um upphaf, orðið var í upphafi hjá Guði. Við lifum lífi okkar eftir tímalínu við fæðumst,við lifum og deyjum það er eitt af lögmálum tilverunnar. Það sem þó er svo undarlegt og á vissan hátt undursamlegt er það að ekki fer allt eftir fyrirfram forrituðum brautum. Við sjáum að flestar lífverur lifa og hegða sér eftir því sem kalla má eðlisávísun, sem í grundvallaratriðum snýst um það leita uppi fæðu, að nærast og geta af sér afkvæmi. Við mennirnir erum þarna líka, sem samt er okkuð gefið eitthvað meira, við getum farið út af brautinni, við getum óhlýðnast, við getum tekið upp á því að gera eitthvað sem alls ekki er í samræmi við nokkrar reglur. Til þess að geta slíkt þarf í raun, það sem við köllum skapandi hugsun og það sem við höfum þessu til viðbótar er frelsið, frelsi til að brjóta reglur, og jafnvel gera það sem ekki má eða til er ætlast. Allavega að gera það sem ekki er samkvæmt handritinu. Hann kom til eignar sinnar en hans eigin menn tóku ekki á móti honum. Er þarna verið að lýsa vonbrigðum? Eða einfaldlega staðreynd. Í sköpunarsögunni í fyrstu Mósebók segir Guð þessi orð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Síðan líður ekki á löngu þar til maðurinn lætur sér ekki nægja að sitja iðjulaus og horfa í kringum sig í hinum fagra aldingarði þar sem allt er til alls. Hann langar til að spyrja og skoða og hann gerir það sem honum var sagt að gera ekki og vissulega fann hann að það var ekki rétt en samt. Syndafallinu er síðan lýst sem vonbrigðum Guðs með mennina og þess vegna hafi þeir ekki getað búið lengur í hinum fagra aldingarði. Ég spyr mig, er endilega víst að þetta hafi verið svo mikil vonbrigði, manninum hafði verið gefið eitthvað meira en öðrum og það lá því ljóst fyrir að hann myndi ekki sætta sig við annað en geta haldið áfram af stað út í óvissu og hættu og erfiðleika, og já endalausar áskoranir. Öllum þessum möguleikum fylgja líka allir þessir neikvæðu þættir: Grimmdin og ágirndin, miskunnarleysið já svo má endalaust telja já og auðvitað þjáningin. Má ekki spyrja sig hvort þetta sé ekki á endanum gjaldið fyrir frelsið, fyrir hina skapandi hugsun sem svo sannarlega getur alið af sér bæði gott og slæmt. Okkur er mikið gefið vandinn er hvernig við förum með það. Orðið og ljósið stígur inn í þennan hættulega heim en ekki til að svipta okkur neinu af okkar gáfum, ekki til að taka frá okkur frelsið og binda okkur á bás, nei hann tekur áhættuna með okkur mönnunum hann stígur inn til þess að vísa veginn benda á það sem skiptir máli, það er hægt að lifa góðu lífi og óttalausu lífi og skapandi lífi án þess að fórna frelsinu og það er með því að læra að þekkja lögmál kærleikans og tileinka sér það í öllu sínu lífi. Nýtt boðorð gef ég yður að þið elskið hvert annað. Þú skalt elska Drottinn Guð þinn og náunga þinn eins og sjálfan þig. Þetta gerist ekki með þvingun eða hótunum eða refsingum. Ofbeldi leiðir aðeins af sér meira ofbeldi, hefnd getur af sér nýja hefnd. Þegar Jesús er umkringdur hermönnum Getsemani þá endanlega afneitar hann ofbeldinu og því valdi sem því fylgir. Mitt ríki er ekki af þessum heimi, ég gæti kallað til himneskar herdeildir en ég geri það ekki. Er hann ekki einmitt að segja að hann sé í heiminn kominn til að vísa annan veg benda á aðra lausn, kynna nýtt grundvallarlögmál. Nýtt upphaf. Lögmál kærleikans. Þegar við horfum í kringum okkur þá sjáum við að ekki hefur allt farið vel, við opnum miðlana og við blasir eiginlega ekkert nema neikvæðar fyrirsagnir hvort sem er heima eða að heiman. Við sjáum óvissuna og hættuna, skelfileg slys verða fyrirvaralaust, það er þjáning sjúkdómar og dauði. Það eru styrjaldir og ólýsanleg grimmd og virðingarleysi fyrir mannslífinu. En samt, hefur ekki líka ótal margt áunnist og verið gert í vísindum og listum í góðverkum og hjálparstarfi, í umhyggju og kærleika. Við höfum þekkingu og tækni til að snúa við óheillaþróun og skaða þeim sem unninn hefur verið á lífríkinu. Við höfum val um svo ótal margt og getu til að framkvæma svo óendanlega margt. Enn er þó svo sannarlega mikið verk fyrir höndum. Það virðist svo erfitt að treysta lögmáli kærleikans, jafnvel þótt við innst inni vitum að það er hið eina rétta. Jafnvel þótt við heyrum og nemum hin miklu orð frelsarans engilsins á betlehemsvöllum „verið óhrædd“ það er ekkert að óttast hvorki í lífi né dauða. Þetta er eins og að stökkva út út flugvél með fallhlíf, það þarf að treysta því að búnaðurinn virki það þarf að þora að sleppa takinu en svo er sagt að fátt jafnist á við það að svífa og fá svo mjúka lendingu með hinum trausta búnaði. Ég boða mikinn fögnuð sagði engillinn, gleðin er lykilorð, hin hljóðláta innri gleði og ljós, birtan sem hrindir brott myrkrinu sem getur falið svo margt ljótt. Birtan sem lýsir upp sviðið, boðar nýjan dag, dag þegar hægt er að ganga til verka við að byggja upp og bæta. Það má hugsa sér að við okkur sér sagt eitthvað á þá leið: ég sé að ekki hefur allt farið hér vel en samt vil ég ekki svipta ykkur því sem ykkur er dýrmætast sem er frelsi og skapandi hugur Í guðspjallinu sem talar um hin háleitu hugtök er líka nefndur til sögunnar maður af holdi og blóði. Jóhannes skírarinn, ræðumaðurinn sem galt með lífi sínu fyrir það að segja sannleika. Má ekki líta svo á að með því að nefna tiltekinn mann í þessu samhengi þá standi hann þar sem fulltrúi allra manna sem staðfesting þess að Guð ætlar okkur hlutverk í sínu mikla sköpunarverki sínum stórfenglegum fyrirætlunum, hér á jörð og á himnum uppi. Þið skiptið máli segir textinn, ekki með nauðung eða þvingun heldur sem frjálsir sjálboðaliðar í miskunnarverki guðs, í því langhlaupi að guðs ríki komi að endingu með krafti. Þegar lögmál kærleikans verður allt í öllu. Barnið í jötunni er tákn þessa alls, það baðar út höndum og hjalar og við óskum einskis heitar en taka það í faðm og veita því vernd og skjól. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN

Eftir Sólbjörg Björnsdóttir
•
14. janúar 2026
Hver er það sem knýr á dyr? Séra Eiríkur Jóhannsson Lexía: Jes 35.1-10 Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri. Eins og dverglilja skal hún blómgast, gleðjast, gleðjast og fagna. Vegsemd Líbanons veitist henni, skart Karmels og Sarons. Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors. Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: „Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.“ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir í auðninni. Glóandi sandurinn verður að tjörn og þyrst jörðin að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust við áður sprettur stör, reyr og sef. Þar verður breið braut sem skal heita Brautin helga. Enginn óhreinn má hana ganga því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um og heimskingjar munu ekki villast þar. Þar verður ekkert ljón, ekkert glefsandi rándýr fer þar um, þar verður þau ekki að finna. Þar munu aðeins endurleystir ganga. Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur og koma fagnandi til Síonar, eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgja þeim en sorg og mæða flýja. Pistill: Heb 10.35-37 Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum. Guðspjall: Mrk 13.31-37 Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Nú er jólafastan gengin í garð og einmitt á þessum tíma er margt að ske í þjóðlífinu og sömuleiðis líka inná flestum heimilum. Það hefur löngum loðað við að hinn margvíslegi undirbúningur sem á sér stað á þessum tíma í aðdraganda jóla, hvíli að miklu leyti á kvenþjóðinni. Jafnvel þótt margt hafi breyst í þjóðlífinu frá því flestar eiginkonur og mæður unnu sín verk inni á heimilinu til þess sem nú er að flestar konur eru virkar á vinnumarkaði. Samt hefur margt hinna fornu siða og verkaskiptingar haldist óbreytt innan heimilisins. Sérstaklega þegar mikið stendur til þá eru það konurnar sem taka stjórnina og gjarnan líka ganga í verkin. Þetta er líka dimmur tími, dagurinn stuttur og myrkur bæði kvölds og morgna. Samt heyrist minna um skammdegisdrunga og þrúgandi myrkur um þessar mundir en eftir jól, í janúar til dæmis sem þó er alls ekki dimmari. Getur það verið að á þessum tíma þar sem við horfum fram til jólagleðinnar þá finnum við minna fyrir myrkrinu? Við erum að stefna í ákveðna átt, það liggur eitthvað fyrir og það stendur eitthvað til, það eru ekki bara börnin sem hlakka til. Við sem komin erum til ára okkar höfum alveg gert þetta allt áður og það sem meira er við höfum gert það með svipuðum hætti, jafnvel alveg eins ár eftir ár. Og svo virðist sem fæstir kæri sig um nokkra tilbreytingu í þessu tilviki, haldið er fast í hefðir. Á þessum vetrartíma fáum við lestur úr gamla testamentinu sem fjallar um grósku, eyðimörkin og skrælnað landið á að gleðjast já jafnvel eru öræfin nefnd á nafn sem okkur hér á landi finnst við eiga sérstaklega. Ásýndin breytist þegar dvergliljurnar skjóta upp kollinum. Og þá mun allt fara að gerast hinn halti stekkur sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni. Allt sem er ótrúlegt og raunar ósennilegt það getur gerst. Fögnuður og gleði fylgja en sorg og mæða flýja. Spámaðurinn er sem endranær að leitast við að blása mönnum von í brjóst og löngun til að hefjast handa um að byggja upp. Hér er á myndrænann hátt verið að lýsa miklum umskiptum, það sem er skrælnað þurt og dautt lifnar við, bæði í náttúrunnar ríki sem á meðal manna. Og það má segja að kallist á við það sem Kristur sjálfur gerði, blindir fá sýn og haltir ganga. Á þessum tíma getum við líka hugsað til Maríu guðsmóður, þessarrar ungu konu sem nú er að heita fullgengin með sitt fyrsta barn. Má ekki reikna með því að þá sem nú hafi í huga hennar tekist á, kvíði og eftirvænting. Barnið minnir á sig og byltir sér og sparkar í sínu þrönga rými. Móðirin sem enn hefur aldrei fætt barn, veit varla í þennan heim né annan. Og ekki einfaldast staðan þegar í ljós kemur að þau þurfi að takast á hendur ferðalag í fjarlæga borg. Guðspjallið geymir orð Jesú þar sem hann brýnir okkur til þess að vera á verði, til þess að gleyma okkur ekki. Dyravörðurinn hefur mikilvægt hlutverk, ekki bara til þess að opna fyrir húsbóndanum þegar hann kemur, heldur að gæta dyranna og sjá til þess að enginn óboðinn æði þar inn. Það er gömul saga og ný að ekki er víst að allir sem berja að dyrum hjá okkur hafi gott í hyggju. Bara nú í þessari viku var fjallað um óprúttna sölumenn sem beita lymskulegum ráðum til þess að vinna traust fólks, einkanlega ungs fólks og selja þeim síðan hugmynd um öryggi og traust, ávöxtun fjár og öryggi á efri árum en svo kemur í ljós að mest er þetta lygi og blekkingar. Af þessu leiðir að í stað öryggis og velvildar kemur tortryggni, við erum hætt að svara síma ef við könnumst ekki við númerið, við viljum fá okkur dyrabjöllur með myndavél. Og margir hafa reyndar hag af því að selja alls kyns varning sem á að auka öryggi okkar. Að baki býr óttinn, tortryggnin, efasemdir og vantraust. Hver og einn lokar sig af inni í sínu eigin búri. Og nú er lika svo komið að svo til alls staðar innan borga og bæjarmarka erum við í mynd, upptökuvélar á flestum götuhornum. Hið alsjáandi auga fylgist með og vaktar. Allt gert til að auka öryggi en felur líka í sér hættu. Einræðisherrar víða um heim nota tækin til að sjá og skoða og fylgjast með. Þau sem segja eitthvað sem ekki er þóknanlegt eða gera eitthvað svo sem eins og fara í mótmælagöngur, já þau eru svo lítið ber á tekin úr umferð. Þjóðsögurnar okkar geyma sögur af því þegar illir vættir heilla fólk og tæla í björg og huliðsheima. Gakk í björg og bú með oss segja huldumeyjarnar við Ólaf liljurós. En hann lætur ekki glepjast, heldur vil ég á krist minn trúa. Miðlar nútímans eru hannaðir til þess að heilla og glepja og bergnuminn stara börn á unglingar á skjáina sína. Þau þegja þá á meðan og foreldrarnir eru fegin að fá næði til að sinna sínu. Flestir kannast við að víða í sveitum og jafnvel þorpum hér á landi tíðkaðist ekki að læsa húsum og jafnvel ekki heldur bílunum. Sennilega er sá siður að mestu horfinn í dag. Og jafnvel hér í borginni viðgekkst sá siður að ungbörn sváfu í vögnum sínum fyrir utan kaffihús meðan foreldrar settust inn og fengu sér hressingu. Útlendingar voru steinhissa og raunar hneykslaðir Mér er nær að halda þetta sé alveg horfið í dag. Boðskapur trúarinnar fjallar um traust, að treysta góðum Guði og sömuleiðis að við treystum hvert öðru, vantraust, ótti, tortryggni er ávísun á átök og að endingu hatur manna og þjóða á milli. En okkur er líka ráðlagt að vera á verði. Postulinn hvetur okkur til þess að rækta með okkur bæði djörfung og þolgæði. Það kostar sannarlega kjark að treysta og við vitum nú um stundir rétt eins og áður og fyrr að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Það sem hefur yfir sér anda umhyggju svo sem eins og að selja happdrættismiða í þágu góðgerðarfélaga því er rænt og notað til að sigla undir fölsku flaggi. Dyrabjallan hringir og úti stendur einstaklingur og segist vera að selja eða safna til góðgerða en svo kemur í ljós að svo er ekki. Já það er vandlifað í henni veröld og ekki óeðlilegt að ályktunin verði sú að réttast og öruggast sé að læsa að sér og hleypa engum inn, láta sem maður heyri ekki þegar knúð er á dyr. Kristur segir okkur að vaka og vera á verði, ekki bara til þess að varast hið illa heldur ekki síður til að meðtaka og ljúka upp dyrum fyrir því góða, fagra og fullkomna. Gjarnan er það flokkað sem einfeldni og jafnvel fáviska að treysta fólki fyrirfram, vissulega er það gömul saga og ný að menn nýti sér hrekkleysi og góðvild. Samt er það grundvallaratriði í okkar kristnu trú, það sem Kristur kennir að mæta fólki með jákvæðum huga, gefa öllum tækifæri, þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig segir Jesús. Hann segir þetta ekki að ástæðulausu, hann segir það vegna þess að aðeins þannig er mögulegt að byggja upp samfélag þar sem ríkir raunverulegt frelsi og öryggi ekki ógnarjafnvægi gagnkvæmra hótana. Það er ekki auðvelt og ekki einfalt en það er samt það sem við erum kölluð til að gera, til þess þarf djörfung og þolgæði, það þarf opinn og vakandi huga og það þarf drifkraft vonarinnar í átt til þess sem fagurt er og gott, til þess tíma þegar dvergliljan skýtur upp kollinum og öræfin taka að gróa upp. Við stefnum í átt til ljóssins. hátíðar ljóssins, nýs upphafs sem birtist í nýfæddu barni. Þá burt er sortans svið. HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR

Eftir Irma Sjöfn Óskarsdóttir
•
20. október 2025
Já, auðmýktin er ekki að beygja sig undir ok valdsins heldur að horfa lengra, sjá víðar og vera tilbúin að nota viskuna sem býr í því að valdeflast í elsku til náungans. Á því þreytist sá sem okkur elskar aldrei á að gera, Jesús frelsari heimsins.
Kristur sem tók hlutverki sínu af gleði og dvaldi ekki í bergmálshelli fræðimanna og fyrirfólks. Hann fór þangað til að ögra, skoða, eiga samtal til að breyta og umbylta. Halda erindi sínu á lofti að Guð – sem skapaði er líka sá sem er, lætur sig varða veröldina.



