Prédikunarstóllinn / Aðfangadagur 2025
15. janúar 2026

Aðfangadagskvöld 2025
Sr. Eiríkur Jóhannsson
Lúkas 2:1-14
1 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6 En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9 Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
14 Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi
Það eru komin jól, enn eru þau komin þessi jól sem aldrei fölna, aldrei verða úrelt, aldrei hætta að kveikja neista í brjóstum okkar, ungra sem aldinna. Þau tengja saman fortíð og nútíð, minningar úr bernsku og augnablikið núna.
Þau lýsa upp dimmar vetrarnæturnar, þau lýsa upp í himinhvolfið, þau lýsa yfir landið og þau lýsa hugarfylgsnin innra með okkur, en þar getur líka orðið vandratað og villugjarnt.
Hingað erum við komin þessi mikli flokkur, inn í helgidóm til að eiga gleðistund til að syngja saman, til að biðja saman, til að heyra þessa einföldu frásögn lesna af fæðingu barns og dýrðarsöng engla, þegar himinn og jörð mætast og það er söngur sem hljómar, lofsöngur ómar.
Við komum úr ólíkum áttum, hvert og eitt með okkar sögu og reynslu og viðhorf, við erum á ólíkum aldri og hvernig við túlkum, hvernig við heyrum, hvernig við sjáum, það sem fram fer og fyrir augu ber það er í raun einstakt fyrir okkur hvert og eitt.
Í guðspjallinu er okkur vísað inn í hrörlegt skýli þar sem liggja húsdýr mannsins, sum jórtra, önnur sofa, það berst frá þeim hlýja og rósemd. Og þarna liggur lítið barn, lítill reifastrangi og sefur. Og þarna er kannski líka litli asninn sem María fékk að sitja á þessa löngu ferð sem hún þurfti að takast á hendur, þetta litla en sterka burðardýr sem seint er talið bera með sér glæsileik en samt, var það ekki asni sem bar frelsarann inn í borgina miklu? Á einum stað í gamla testamentinu er það asni einn sem tekur að mæla fyrir munn Drottins þegar spámaðurinn Bíleam sér ekki og skynjar það sem honum er ætlað að mæla og segja fram fyrir munn Drottins, hann lýstur sitt burðardýr með staf sínum en uppsker guðlega vitrun og stranga áminningu, asninn tekur til við að tala og ávítar og leggur línur. Rétt eins og kýrnar hér heima á jólanótt. Spámaðurinn sem taldi sig vita eitt og annað, varð að þola áminningu. Hann sá ekki né heyrði það sem honum var ætlað að sjá, það sem honum var ætlað að segja og miðla áfram.
Barnið litla sefur rótt, Guð er kominn inn í mannleg kjör en ekki bara það, hann er kominn inn í veröldina, inn í lífríkið allt og það eru ekki bara hirðar og vitringar sem eru vitni, það eru dýrin líka systkin okkar og frændur af sömu ættum og ættkvíslum hryggdýra og spendýra. Við höfum gert þau mörg hver okkur undirgefin en við megum aldrei gleyma því að við erum hluti þessarrar heildar og án þessarrar heildar getum við ekki lifað.
Nei við erum ekki ein á þessari jörðu og það er gott að vita og gott að geta glaðst yfir því.
Fæðing er undursamlegt fyrirbæri en hún er ekki átakalaus, hún er ekki hættulaus, henni fylgir ómældur sársauki en að endingu er gleðin yfir hinu nýja lífi það sem yfirgnæfir allt annað.
Þannig er eiginlega lífið allt, nýtt er stöðugt að verða til, lifandi verur fæðast en líka hugmyndir og áform, en hvernig förum við með það allt, það er stóra spurningin, hvað er það sem við sjáum og heyrum? Spámaðurinn þurfti að heyra boðskapinn af munni asnans síns til þess að ná áttum. Hann kom úr óvæntri átt og þannig er okkar líf líka og það sem við heyrum og sjáum og nemum. Það sem gjarnan gerist í nútímanum er að við veljum það sem við viljum heyra og lokum oft augum og eyrum fyrir mörgu öðru.
Það má kalla margtuggna klisju að jólagleðin komi innan frá en ekki vegna alls hins ytra, ekki vegna skrautsins, matarins, gjafana, tónleikanna. Allt er þetta þó góðra gjalda vert í hófi og auðvitað spilar þetta allt saman á einn eða annan hátt en samt er sannleikur í því fólgin að segja að neistinn sem kveiki ljósið, hann komi að innan.
Þær myndir sem guðspjallið dregur upp eru af fólki í nánum tengslum við náttúruna, unga parið með barnið sitt í gripahúsi. Hirðar úti í haga, fjárhópurinn hefur bælt sig í þéttum hóp í næturkulinu, fjármennirnir skiptast á að ganga í kring um hópinn og gæta þess að rándýr laumist ekki að í myrkrinu og hremmi bráð, hinir sitja í kringum lítinn varðeld og verma sig. Þá skeður undrið, himnarnir opnast og þeim birtist sýn, engill sem mælir við þá skiljanleg orð en samt ekki. Frelsari fæddur í borg Davíðs og skyndilega stendur hjá englinum risakór sem syngur dýrðarsöng, tjaldið milli heimanna tveggja var eina örskotsstund dregið frá, himinn og jörð snertu hvort annað, eitt töfrum slungið augnablik. Og þeir taka sig upp fjármennirnir og halda af stað að leita að staðfestingu orðanna. Og þeir finna staðinn segja frá og krjúpa í lotningu.
Síðar gerist það að fræðimenn úr fjarlægu landi finna barnið og móður þess.
Okkur dylst samt ekki varnarleysið og hversu viðkvæmt allt þetta er og getur að sönnu brugðið til beggja vona. Það minnir okkur á að þannig er tilvera okkar allra, sama hversu vel við reynum þá er alltaf óvissa, enginn veit með vissu hvað getur gerst. Lífsháskann er alls staðar að finna. Þess vegna eru þessi himnesku orð svo dýrmæt. „Verið óhrædd.“ Þegar allt kemur til alls þá er ekkert að óttast, það er yfir okkur vakað, við eigum í vændum öruggt skjól.
Fræðingar og fáfróðir smalar vitja barnsins. Táknræn staðfesting þess að það sem þarna er að gerast er öllum ætlað og talar inní ólíka heima. Okkar er að hlusta, sjá og heyra, meðtaka, gefa gaum að þeim skilaboðum sem til okkar er beint. Ekki að líta undan og forðast að horfast í augu við sannleika. Við gerum svo oft eitt og annað sem við innst inni vitum að er ekki æskilegt eða gagnlegt. Það er svo auðvelt að fylgja straumnum, gera bara eins og hinir. Náttúran lífríkið, stynur undan höggum okkar, við látum sem við heyrum ekki þegar til okkar er kallað.
En nú er gleðistund í heiminum, um öll heimsins ból eru haldin heilög jól, í gleðinni felst dýrmæt næring, hún eflir styrk og þrótt. Við getum ekki haft augun af barninu litla, öll leiðindi og gremja fjúka burt. Það sem er svo stórkostlegt er sú staðreynd að þetta þarf ekki bara að gerast eitt kvöld á ári, heldur má viðhalda þessum, viðhorfum þessari nálgun, þessari von um hið góða fagra og fullkomna, sérhvern dag sem okkur er gefinn. Hvort heldur í einrúmi eða samfélagi helgidómanna.
Það finnst ekki betra tákn en einmitt barnið litla, barnið býr yfir ótal möguleikum og þess bíða ótal tækifæri, það er okkar að hjálpa því að vaxa og dafna og þroskast. Þannig er einnig með trú okkar og hin jákvæðu viðhorf til lífsins, það er undir okkur komið að efla þetta og styrkja, næra með ástundun og iðkun.
Ljósið skín í myrkrinu, stjarna vísar veginn yfir fjöll og firnindi, við höldum áfram hinn ótrygga veg, hina holóttu braut, hinn bratta stíg, en saman getum við fundið lausnir og leiðir og lært að lifa með systkinum okkar á þessari jörð, með öllu sem lífsanda dregur og á sér jafngilt tilkall til lífs. Fögnum, gleðjumst og þökkum á helgri jólahátíð. Barn er fætt í Betlehem, nú blikar jólastarna.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN