Prédikunarstóllinn / 7. desember 2025 / Hver er það sem knýr á dyr?
14. janúar 2026

Hver er það sem knýr á dyr?
Séra Eiríkur Jóhannsson
Lexía: Jes 35.1-10
Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri. Eins og dverglilja skal hún blómgast, gleðjast, gleðjast og fagna. Vegsemd Líbanons veitist henni, skart Karmels og Sarons. Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors. Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: „Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.“ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir í auðninni. Glóandi sandurinn verður að tjörn og þyrst jörðin að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust við áður sprettur stör, reyr og sef. Þar verður breið braut sem skal heita Brautin helga. Enginn óhreinn má hana ganga því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um og heimskingjar munu ekki villast þar. Þar verður ekkert ljón, ekkert glefsandi rándýr fer þar um, þar verður þau ekki að finna. Þar munu aðeins endurleystir ganga. Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur og koma fagnandi til Síonar, eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgja þeim en sorg og mæða flýja.
Pistill: Heb 10.35-37
Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.
Guðspjall: Mrk 13.31-37
Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Nú er jólafastan gengin í garð og einmitt á þessum tíma er margt að ske í þjóðlífinu og sömuleiðis líka inná flestum heimilum. Það hefur löngum loðað við að hinn margvíslegi undirbúningur sem á sér stað á þessum tíma í aðdraganda jóla, hvíli að miklu leyti á kvenþjóðinni. Jafnvel þótt margt hafi breyst í þjóðlífinu frá því flestar eiginkonur og mæður unnu sín verk inni á heimilinu til þess sem nú er að flestar konur eru virkar á vinnumarkaði. Samt hefur margt hinna fornu siða og verkaskiptingar haldist óbreytt innan heimilisins. Sérstaklega þegar mikið stendur til þá eru það konurnar sem taka stjórnina og gjarnan líka ganga í verkin.
Þetta er líka dimmur tími, dagurinn stuttur og myrkur bæði kvölds og morgna. Samt heyrist minna um skammdegisdrunga og þrúgandi myrkur um þessar mundir en eftir jól, í janúar til dæmis sem þó er alls ekki dimmari. Getur það verið að á þessum tíma þar sem við horfum fram til jólagleðinnar þá finnum við minna fyrir myrkrinu? Við erum að stefna í ákveðna átt, það liggur eitthvað fyrir og það stendur eitthvað til, það eru ekki bara börnin sem hlakka til. Við sem komin erum til ára okkar höfum alveg gert þetta allt áður og það sem meira er við höfum gert það með svipuðum hætti, jafnvel alveg eins ár eftir ár. Og svo virðist sem fæstir kæri sig um nokkra tilbreytingu í þessu tilviki, haldið er fast í hefðir.
Á þessum vetrartíma fáum við lestur úr gamla testamentinu sem fjallar um grósku, eyðimörkin og skrælnað landið á að gleðjast já jafnvel eru öræfin nefnd á nafn sem okkur hér á landi finnst við eiga sérstaklega. Ásýndin breytist þegar dvergliljurnar skjóta upp kollinum. Og þá mun allt fara að gerast hinn halti stekkur sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni. Allt sem er ótrúlegt og raunar ósennilegt það getur gerst. Fögnuður og gleði fylgja en sorg og mæða flýja.
Spámaðurinn er sem endranær að leitast við að blása mönnum von í brjóst og löngun til að hefjast handa um að byggja upp.
Hér er á myndrænann hátt verið að lýsa miklum umskiptum, það sem er skrælnað þurt og dautt lifnar við, bæði í náttúrunnar ríki sem á meðal manna. Og það má segja að kallist á við það sem Kristur sjálfur gerði, blindir fá sýn og haltir ganga.
Á þessum tíma getum við líka hugsað til Maríu guðsmóður, þessarrar ungu konu sem nú er að heita fullgengin með sitt fyrsta barn. Má ekki reikna með því að þá sem nú hafi í huga hennar tekist á, kvíði og eftirvænting. Barnið minnir á sig og byltir sér og sparkar í sínu þrönga rými. Móðirin sem enn hefur aldrei fætt barn, veit varla í þennan heim né annan. Og ekki einfaldast staðan þegar í ljós kemur að þau þurfi að takast á hendur ferðalag í fjarlæga borg.
Guðspjallið geymir orð Jesú þar sem hann brýnir okkur til þess að vera á verði, til þess að gleyma okkur ekki. Dyravörðurinn hefur mikilvægt hlutverk, ekki bara til þess að opna fyrir húsbóndanum þegar hann kemur, heldur að gæta dyranna og sjá til þess að enginn óboðinn æði þar inn.
Það er gömul saga og ný að ekki er víst að allir sem berja að dyrum hjá okkur hafi gott í hyggju. Bara nú í þessari viku var fjallað um óprúttna sölumenn sem beita lymskulegum ráðum til þess að vinna traust fólks, einkanlega ungs fólks og selja þeim síðan hugmynd um öryggi og traust, ávöxtun fjár og öryggi á efri árum en svo kemur í ljós að mest er þetta lygi og blekkingar.
Af þessu leiðir að í stað öryggis og velvildar kemur tortryggni, við erum hætt að svara síma ef við könnumst ekki við númerið, við viljum fá okkur dyrabjöllur með myndavél. Og margir hafa reyndar hag af því að selja alls kyns varning sem á að auka öryggi okkar. Að baki býr óttinn, tortryggnin, efasemdir og vantraust. Hver og einn lokar sig af inni í sínu eigin búri.
Og nú er lika svo komið að svo til alls staðar innan borga og bæjarmarka erum við í mynd, upptökuvélar á flestum götuhornum. Hið alsjáandi auga fylgist með og vaktar. Allt gert til að auka öryggi en felur líka í sér hættu. Einræðisherrar víða um heim nota tækin til að sjá og skoða og fylgjast með. Þau sem segja eitthvað sem ekki er þóknanlegt eða gera eitthvað svo sem eins og fara í mótmælagöngur, já þau eru svo lítið ber á tekin úr umferð.
Þjóðsögurnar okkar geyma sögur af því þegar illir vættir heilla fólk og tæla í björg og huliðsheima. Gakk í björg og bú með oss segja huldumeyjarnar við Ólaf liljurós. En hann lætur ekki glepjast, heldur vil ég á krist minn trúa.
Miðlar nútímans eru hannaðir til þess að heilla og glepja og bergnuminn stara börn á unglingar á skjáina sína. Þau þegja þá á meðan og foreldrarnir eru fegin að fá næði til að sinna sínu.
Flestir kannast við að víða í sveitum og jafnvel þorpum hér á landi tíðkaðist ekki að læsa húsum og jafnvel ekki heldur bílunum. Sennilega er sá siður að mestu horfinn í dag. Og jafnvel hér í borginni viðgekkst sá siður að ungbörn sváfu í vögnum sínum fyrir utan kaffihús meðan foreldrar settust inn og fengu sér hressingu. Útlendingar voru steinhissa og raunar hneykslaðir Mér er nær að halda þetta sé alveg horfið í dag.
Boðskapur trúarinnar fjallar um traust, að treysta góðum Guði og sömuleiðis að við treystum hvert öðru, vantraust, ótti, tortryggni er ávísun á átök og að endingu hatur manna og þjóða á milli. En okkur er líka ráðlagt að vera á verði. Postulinn hvetur okkur til þess að rækta með okkur bæði djörfung og þolgæði.
Það kostar sannarlega kjark að treysta og við vitum nú um stundir rétt eins og áður og fyrr að ekki eru allir viðhlæjendur vinir.
Það sem hefur yfir sér anda umhyggju svo sem eins og að selja happdrættismiða í þágu góðgerðarfélaga því er rænt og notað til að sigla undir fölsku flaggi. Dyrabjallan hringir og úti stendur einstaklingur og segist vera að selja eða safna til góðgerða en svo kemur í ljós að svo er ekki.
Já það er vandlifað í henni veröld og ekki óeðlilegt að ályktunin verði sú að réttast og öruggast sé að læsa að sér og hleypa engum inn, láta sem maður heyri ekki þegar knúð er á dyr.
Kristur segir okkur að vaka og vera á verði, ekki bara til þess að varast hið illa heldur ekki síður til að meðtaka og ljúka upp dyrum fyrir því góða, fagra og fullkomna.
Gjarnan er það flokkað sem einfeldni og jafnvel fáviska að treysta fólki fyrirfram, vissulega er það gömul saga og ný að menn nýti sér hrekkleysi og góðvild.
Samt er það grundvallaratriði í okkar kristnu trú, það sem Kristur kennir að mæta fólki með jákvæðum huga, gefa öllum tækifæri, þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig segir Jesús. Hann segir þetta ekki að ástæðulausu, hann segir það vegna þess að aðeins þannig er mögulegt að byggja upp samfélag þar sem ríkir raunverulegt frelsi og öryggi ekki ógnarjafnvægi gagnkvæmra hótana. Það er ekki auðvelt og ekki einfalt en það er samt það sem við erum kölluð til að gera, til þess þarf djörfung og þolgæði, það þarf opinn og vakandi huga og það þarf drifkraft vonarinnar í átt til þess sem fagurt er og gott, til þess tíma þegar dvergliljan skýtur upp kollinum og öræfin taka að gróa upp.
Við stefnum í átt til ljóssins. hátíðar ljóssins, nýs upphafs sem birtist í nýfæddu barni. Þá burt er sortans svið.
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR