Prédikunarstóllinn / Jóladagur 2026

15. janúar 2026

Jóladagur 2025

Sr. Eiríkur Jóhannsson


Lexía: Jes 62.10-12

Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin. 


Pistill: Tít 3.4-7

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.


Guðspjall: Jóh 1.1-14

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. 


Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það er jóladagur það ríkir kyrrð yfir borginni. Fáir á ferli margir hafa sofið fram eftir og notið þess að hafa hægt um sig.

En samt erum við hingað komin í helgidóminn, við heyrum fagra kunnuglega sálma og tökum jafnvel undir, við heyrum lestra úr helgri bók sem við flest könnumst við og höfum heyrt og nú er það um orðið sem var í upphafi hjá Guði, um orðið sem varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika. Þetta er töluvert annað en það sem lesið var í gær um fæðingu barns í gripahúsi.

Þetta er texti sem segja má að sé með heimspekilegu ívafi. Talað er um orðið og ljósið og samhengið gefur til kynna að með því að tala um orðið þá sé verið að tala um speki, þekkingu já jafnvel lögmál. Og þessi þekking þessi speki þessi lögmál eru frá Guði komin. En þrátt fyrir þessi lögmál þá er samt brestur í kerfinu, mennirnir veita þeim ekki viðtöku, þeir eru eins og kenjóttir krakkar. Foreldrarnir reyna sitt besta til að hafa vit fyrir þeim en samt þau æða út í foraðið og fara sér að voða. Þó þetta sé orðað svona með hversdagslegum hætti þá er þetta samt kjarni málsins, þessi þversögn um mannlegt líf og hegðun og atferli. Hið góða sem ég vil það gjöri ég ekki segir Páll postuli á einum stað.


En hvers vegna skyldi þessum texta vera valinn staður til lestrar einmitt á þessum tíma þegar við fögnum fæðingu frelsarans? Líklega vegna þess að hér er verið að fjalla um upphaf það er eitthvað að byrja, fæðing er tákn um upphaf, orðið var í upphafi hjá Guði. Við lifum lífi okkar eftir tímalínu við fæðumst,við lifum og deyjum það er eitt af lögmálum tilverunnar.


Það sem þó er svo undarlegt og á vissan hátt undursamlegt er það að ekki fer allt eftir fyrirfram forrituðum brautum. Við sjáum að flestar lífverur lifa og hegða sér eftir því sem kalla má eðlisávísun, sem í grundvallaratriðum snýst um það leita uppi fæðu, að nærast og geta af sér afkvæmi. Við mennirnir erum þarna líka, sem samt er okkuð gefið eitthvað meira, við getum farið út af brautinni, við getum óhlýðnast, við getum tekið upp á því að gera eitthvað sem alls ekki er í samræmi við nokkrar reglur. Til þess að geta slíkt þarf í raun, það sem við köllum skapandi hugsun og það sem við höfum þessu til viðbótar er frelsið, frelsi til að brjóta reglur, og jafnvel gera það sem ekki má eða til er ætlast. Allavega að gera það sem ekki er samkvæmt handritinu. Hann kom til eignar sinnar en hans eigin menn tóku ekki á móti honum. Er þarna verið að lýsa vonbrigðum? Eða einfaldlega staðreynd. 

Í sköpunarsögunni í fyrstu Mósebók segir Guð þessi orð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. 


Síðan líður ekki á löngu þar til maðurinn lætur sér ekki nægja að sitja iðjulaus og horfa í kringum sig í hinum fagra aldingarði þar sem allt er til alls. Hann langar til að spyrja og skoða og hann gerir það sem honum var sagt að gera ekki og vissulega fann hann að það var ekki rétt en samt. Syndafallinu er síðan lýst sem vonbrigðum Guðs með mennina og þess vegna hafi þeir ekki getað búið lengur í hinum fagra aldingarði.


Ég spyr mig, er endilega víst að þetta hafi verið svo mikil vonbrigði, manninum hafði verið gefið eitthvað meira en öðrum og það lá því ljóst fyrir að hann myndi ekki sætta sig við annað en geta haldið áfram af stað út í óvissu og hættu og erfiðleika, og já endalausar áskoranir. Öllum þessum möguleikum fylgja líka allir þessir neikvæðu þættir: Grimmdin og ágirndin, miskunnarleysið já svo má endalaust telja já og auðvitað þjáningin. Má ekki spyrja sig hvort þetta sé ekki á endanum gjaldið fyrir frelsið, fyrir hina skapandi hugsun sem svo sannarlega getur alið af sér bæði gott og slæmt.

Okkur er mikið gefið vandinn er hvernig við förum með það.

Orðið og ljósið stígur inn í þennan hættulega heim en ekki til að svipta okkur neinu af okkar gáfum, ekki til að taka frá okkur frelsið og binda okkur á bás, nei hann tekur áhættuna með okkur mönnunum hann stígur inn til þess að vísa veginn benda á það sem skiptir máli, það er hægt að lifa góðu lífi og óttalausu lífi og skapandi lífi án þess að fórna frelsinu og það er með því að læra að þekkja lögmál kærleikans og tileinka sér það í öllu sínu lífi. Nýtt boðorð gef ég yður að þið elskið hvert annað. Þú skalt elska Drottinn Guð þinn og náunga þinn eins og sjálfan þig. Þetta gerist ekki með þvingun eða hótunum eða refsingum. Ofbeldi leiðir aðeins af sér meira ofbeldi, hefnd getur af sér nýja hefnd. Þegar Jesús er umkringdur hermönnum Getsemani þá endanlega afneitar hann ofbeldinu og því valdi sem því fylgir. Mitt ríki er ekki af þessum heimi, ég gæti kallað til himneskar herdeildir en ég geri það ekki. Er hann ekki einmitt að segja að hann sé í heiminn kominn til að vísa annan veg benda á aðra lausn, kynna nýtt grundvallarlögmál. Nýtt upphaf. Lögmál kærleikans.


Þegar við horfum í kringum okkur þá sjáum við að ekki hefur allt farið vel, við opnum miðlana og við blasir eiginlega ekkert nema neikvæðar fyrirsagnir hvort sem er heima eða að heiman. Við sjáum óvissuna og hættuna, skelfileg slys verða fyrirvaralaust, það er þjáning sjúkdómar og dauði. Það eru styrjaldir og ólýsanleg grimmd og virðingarleysi fyrir mannslífinu. 

 En samt, hefur ekki líka ótal margt áunnist og verið gert í vísindum og listum í góðverkum og hjálparstarfi, í umhyggju og kærleika. Við höfum þekkingu og tækni til að snúa við óheillaþróun og skaða þeim sem unninn hefur verið á lífríkinu. Við höfum val um svo ótal margt og getu til að framkvæma svo óendanlega margt. Enn er þó svo sannarlega mikið verk fyrir höndum. Það virðist svo erfitt að treysta lögmáli kærleikans, jafnvel þótt við innst inni vitum að það er hið eina rétta. Jafnvel þótt við heyrum og nemum hin miklu orð frelsarans engilsins á betlehemsvöllum „verið óhrædd“ það er ekkert að óttast hvorki í lífi né dauða. Þetta er eins og að stökkva út út flugvél með fallhlíf, það þarf að treysta því að búnaðurinn virki það þarf að þora að sleppa takinu en svo er sagt að fátt jafnist á við það að svífa og fá svo mjúka lendingu með hinum trausta búnaði.


Ég boða mikinn fögnuð sagði engillinn, gleðin er lykilorð, hin hljóðláta innri gleði og ljós, birtan sem hrindir brott myrkrinu sem getur falið svo margt ljótt. Birtan sem lýsir upp sviðið, boðar nýjan dag, dag þegar hægt er að ganga til verka við að byggja upp og bæta.

Það má hugsa sér að við okkur sér sagt eitthvað á þá leið: ég sé að ekki hefur allt farið hér vel en samt vil ég ekki svipta ykkur því sem ykkur er dýrmætast sem er frelsi og skapandi hugur


Í guðspjallinu sem talar um hin háleitu hugtök er líka nefndur til sögunnar maður af holdi og blóði. Jóhannes skírarinn, ræðumaðurinn sem galt með lífi sínu fyrir það að segja sannleika. Má ekki líta svo á að með því að nefna tiltekinn mann í þessu samhengi þá standi hann þar sem fulltrúi allra manna sem staðfesting þess að Guð ætlar okkur hlutverk í sínu mikla sköpunarverki sínum stórfenglegum fyrirætlunum, hér á jörð og á himnum uppi. Þið skiptið máli segir textinn, ekki með nauðung eða þvingun heldur sem frjálsir sjálboðaliðar í miskunnarverki guðs, í því langhlaupi að guðs ríki komi að endingu með krafti. Þegar lögmál kærleikans verður allt í öllu. Barnið í jötunni er tákn þessa alls, það baðar út höndum og hjalar og við óskum einskis heitar en taka það í faðm og veita því vernd og skjól.


HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR UM JÓLIN