Úthlutun hjálparstarfs 2025

18. desember 2025

Ellefu milljónum króna var úthlutað úr Líknarsjóði Hallgrímskirkju á jólafundi sóknarnefndar Hallgrímssafnaðar 9.desember síðastliðinn.

Eins og jafnan um langt skeið felur sóknarnefndin fyrst og fremst Hjálparstarfi kirkjunnar og Kristniboðssambandinu að koma söfnunarfé til skila heima og erlendis í þá staði þar sem þeir koma að mestu gagni að dómi þeirra sem best til þekkja.


Miðvikudagssöfnuðurinn í Hallgrímskirkju hefur um tveggja áratuga skeið safnað fé til styrktar Kaffistofu Samhjálpar. Að þessu sinni þótti ástæða til þess að sýna mataraðstoð Samhjálpar sérstaka samstöðu með viðbótarframlagi frá Hallgrímskirkju vegna flutninga Kaffistofunnar sem að ósekju hefur mætt vissum andbyr.


„Bergið headspace“ er frumkvöðlastarf sem stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri og hefur reynst því þarfur vettvangur. Markmið Bergsins er að bjóða upp á „lágþröskuldaþjónustu“ með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Hallgrímskirkja vottar þessu starfi þakklæti og stuðning með framlagi úr Líknarsjóði.


Líknarsjóður Hallgrímskirkju tók á árinu þátt í söfnun á vegum Hallgrímskirkju í Saurbæ og Dómkirkjunnar í þágu hjálparstarfs meðal kristins flóttafólks frá Ngorno Karabakh sem hrakið hefur verið til Armeníu og býr þar margt við slæman kost.


75 ára saga 

Líknarsjóður Hallgrímskirkju varð 75 ára í fyrra. Hann var stofnaður í Reykjavík sem sjálfseignarstofnun með skipulagsskrá sem undirrituð var af Sigurbirni Einarssyni og Gísla Jónassyni ásamt stofnandanum Helga Gíslasyni 17. júlí 1949. Stofnféð var kr. 2000 til minningar um eiginkonu Helga, Sigurbjörtu Halldórsdóttur. Tilgangur sjóðsins var að styrkja nauðstadda í Hallgrímsprestakalli. 


Líknarstarfi hefur verið sinnt af Hallgrímskirkju í samræmi við tilgang sjóðins og þróun hjálparstarfs. Á hinum síðari áratugum hefur söfnunarfé hinsvegar verið fært beint í safnaðarreikning og úthlutað árlega með bókaðri samþykkt í sóknarnefnd, yfirleitt í desember, auk þess sem prestar Hallgrímskirkju sinna hjálparstarfi. Nafni Líknarsjóðsins hefur verið viðhaldið á táknrænan hátt, en nýverið var upphafleg skipulagsskrá afskráð hjá sýslumanni. Í skýringum með ársreikningi Hallgrímssafnaðar er gerð grein fyrir styrkveitingum og stöðu „Líknarsjóðs“. 


Uppistaðan í söfnunarfé er sala á minningarkertum sem söfnuðurinn leggur til svo og framlög frá einstaklingum. Hallgrímssöfnuður starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla og er skráður í almannaheillaskrá. Framlög til verkefna á vegum Hallgrímskirkju geta því notið skattafsláttar.


HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR