Brynjur Steinunnar Þórarinsdóttur

Steinunn Þórarinsdóttir gerði verurnar á Hallgrímstorgi. Sýningin, sem nefnist Brynjur, var sett upp á vegum Listahátíðar og í samvinnu við Hallgrímskirkju. Í listaspjalli sunnudaginn 28. ágúst mun Steinunn segja frá hugmyndum sínum og sýningunni. Samveran hefst í forkirkjunni eftir messu, kl. 12:20. Síðan verður gengið út torg og brynjurnar skoðaðar og ræddar. Síðan verður haldið í Suðursal. Þar munu Steinunn Þórarinsdóttir, Vigdís Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar og sr. Sigurður Árni Þórðarson ræða þessa sýningu og gestir bera fram spurningar og álit. Kaffisopi í boði kirkjunnar. Allir velkomnir.