Cantoque Ensemble flytur Jón Nordal

Cantoque Ensemble kemur fram á Myrkum músíkdögum í Hallgrímskirkju og flytur verk eftir Jón Nordal.
 
Cantoque Ensemble er 8 radda sönghópur sem inniheldur marga af bestu söngvurum landsins, bæði á sviði snemmtónlistar, nútímatónlistar og óperu. Meðlimir hópsins hafa margir hverjir sungið hlutverk á sviði Íslensku óperunnar og víðar, sungið með hljómsveitum víða um heim og hlotið ótvíræðar viðurkenningar fyrir söng sinn. Cantoque Ensemble starfaði með barokk-hljómsveitunum Höör Barock og Camerata Öresund árið 2017 þar sem þau voru með tónleika á Íslandi, Danmörku og í Svíþjóð. Tónleikarnir hlutu tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónlistarviðburður ársins 2017. Árið 2018 hélt Cantoque Ensemble 4 tónleika með útsetningum á íslenskum þjóðlögum og einnig söng hann kantötur eftir J. S. Bach á Sumartónleikum í Skálholti, með Bachsveitinni í Skálholti undir stjórn hins rómaða barokkstjórnanda Andreas Spering. Árið réðst hópurinn svo í það stórvirki að flytja Jóhannesarpassíu J. S. Bach ásamt Barokkbandinu Brák, undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Síðasta sumar hélt hópurinn svo áfram samstarfi við Steinar Loga, þar sem a capella prógramm með íslenskri samtímatónlist var flutt á Sumartónleikum í Skálholti og Sönghátíð í Hafnarborg, við frábærar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda. Í sumar stendur til að fara í samstarf við barokksveitirnar Nylandia Ensemble frá Finnlandi og Camerata Öresund til að flytja dagskrána Nordisk Ekko á Sumartónleikum í Skálholti, Sorö snemmtónlistarhátíðinni og Dómkirkjunni í Helsingör í Danmörku og á BarokkiKuopio hátíðinni í Finnlandi, en þessu verkefni var frestað um ár vegna Covid-19.

Um tónskáldið

Jón Nordal hefur sett mark sitt á tónlistarlíf Íslendinga sem tónskáld, píanóleikari, kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Reykjavíkur til fjölda ára. Hann var einn af stofnendum Musica Nova, félags sem opnaði leið fyrir flutning samtímatónlistar hér á landi, bæði íslenskrar og erlendrar.
Jón lærði píanóleik og tónsmíðar við Tónlistaskólann í Reykjavík hjá Árna Kristjánssyni, Jóni Þórarinssyni og Victori Urbancic. Hann stundaði framhaldsnám í Zürich hjá Walter Frey og Willy Burhard og hélt síðar til náms í Kaupmannahöfn, París, Róm og Darmstadt. Þannig var hann orðinn vel skólaður þegar hann fékk pöntun um að semja verk í tilefni af heimsókn Friðriks níunda Danakonungs til Íslands árið 1956. Það verk var Sinfonietta Seriosa eða Bjarkamál sem er gott dæmi frá árdögum sinfónískra tónsmíða á Íslandi.
Jón Nordal hefur hlotið margvísleg verðlaun á sínum langa tónskáldaferli. Hann nýtur heiðurslauna listamanna sem veitt eru af Alþingi og er handhafi hinnar íslensku fálkaorðu. Hann hlaut Dannebrog-orðuna árið 1956 og varð meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni árið 1968. Árið 1992 varð hann fyrsti handhafi Tónvakans, tónlistarverðlauna Ríkisútvarpsins sem veitt voru fyrir áralangt starf í þágu íslensks tónlistarlífs. Jón var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir strengjakvartettinn Frá draumi til draums sem Mál og menning gaf út á geisladiski. Aðrar útgáfur eru m.a. Portrett sem inniheldur hljómsveitarverk undir stjórn Paul Zukovsky og Sól ég sá sem inniheldur trúarleg kórverk eftir Jón Nordal.