Cantoque syngur Þorkel - Myrkir músíkdagar

CANTOQUE ENSEMBLE SYNGUR ÞORKEL / MYRKIR MÚSÍKDAGAR Í HALLGRÍMSKIRKJU

Cantoque Ensemble flytur efnisskrá tileinkaða Þorkeli Sigurbjörnssyni undir stjór Steinars Loga Helgasonar á Myrkum músíkdögum 2024, á tónleikum í Hallgrímskirkju hinn 28. janúar kl. 17.00. Miðar fást í Hallgrímskirkju og á https://tix.is/en/event/16697/ Aðgangseyrir 3.500 kr. Nemendur 2.000 kr.

Cantoque Ensemble er átta til tólf radda atvinnusönghópur sem inniheldur marga af bestu söngvurum landsins, bæði á sviði snemmtónlistar, nútímatónlistar og óperu. Meðlimir hópsins hafa margir hverjir sungið hlutverk á sviði Íslensku óperunnar og víðar, sungið með hljómsveitum víða um heim og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng sinn.

Cantoque Ensemble var stofnað 2017 út frá samstarfi við barokk-hljómsveitirnar Höör Barock og Camerata Öresund þegar þær voru með tónleika á Íslandi, Danmörku og í Svíþjóð. Tónleikarnir hlutu tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónlistarviðburður ársins 2017. Árið eftir hélt Cantoque Ensemble ferna tónleika með útsetningum á íslenskum þjóðlögum. Einnig flutti hópurinn kantötur eftir J. S. Bach á Sumartónleikum í Skálholti, með Bachsveitinni í Skálholti undir stjórn hins rómaða barokkstjórnanda Andreas Spering.

Árið 2019 hófst samstarf Cantoque Ensemble við Steinar Loga Helgason. Fyrsta verkefnið með honum var að flytja Jóhannesarpassíu J. S. Bach ásamt Barokkbandinu Brák. Árið eftir hélt hópurinn tvenna tónleika með nýrri íslenskri söngtónlist á Sumartónleikum í Skálholti og einnig á Sönghátíð í Hafnarborg undir stjórn Steinars Loga.

Hópurinn hélt samstarfi sínu við Camerata Öresund áfram árið 2021, en einnig starfaði með þeim barokkhópurinn Ensemble Nylandia frá Svíþjóð í tónlistarverkefni sem fram fór á Íslandi og í Danmörku og var tónleikum hópsins sjónvarpað á barokkhátíðinni BarokkiKuopio í Finnlandi. Þeir tónleikar hlutu tilnefningu sem tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Cantoque hélt jafnframt tónleika á Myrkum músíkdögum 2022 þar sem kórtónlist Jóns Nordal var í öndvegi. Tónleikarnir voru undir stjórn Steinars Loga Helgasonar og lofaðir í hástert, jafnt af gagnrýnendum sem tónleikagestum. Í framhaldi tók Cantoque þátt í PODIUM, kynningardagskrá Íslenskrar tónverkamiðstöðvar á Myrkum músíkdögum 2023.

Árið 2023 hóf Cantoque samstarf við Ensemble Choeur3 og listræna stjórnandann Abéliu Nordmann sem er með aðsetur í Sviss en starfar yfir landamæri til Frakklands og Þýskalands. Saman fluttu hóparnir hina þekktu messu Frank Martin í nýjum búningi ásamt íslenskum verkum og endurfluttu síðan efnisskrána á lokatónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg. Í Sviss flutti Cantoque einnig alíslenska efnisskrá til kynningar á þekktum íslenskum kórverkum ásamt því að halda masterklass fyrir stjórnendur og kórsöngvara á Basel-svæðinu.

Um tónskáldið:
Þorkell Sigurbjörnsson (16. júlí 1938 – 30. janúar 2013) er eitt af höfuðtónskáldum Íslands. Verkasafn hans telur vel yfir 300 tónverk og hafa mörg þeirra verið hljóðrituð og gefin út. Verkasafn Þorkels er afar fjölbreytt en hann samdi hljómsveitarverk, kammerverk, einleikskonserta, barnaóperur, kammeróperu, raf- og tölvutónlist ásamt fjölda kórverka og sálmalaga. Þorkell nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem tónsmíðar urðu hans aðalnámsgrein. Þorkell stundaði nám við tónlistardeildir Hameline-háskólans í Minnesota og Illinois-háskóla. Auk þess sótti hann námskeið í tónsmíðum í Darmstadt í Þýskalandi og Nice í Frakklandi.
Þorkell kom margoft fram sem píanóleikari og var mikilsvirtur kennari, tónlistargagnrýnandi og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu um árabil. Þorkell var einnig ötull í félagsstörfum; var formaður Tónskáldafélags Íslands um árabil, formaður Musica Nova 1964-67 og forseti Bandalags íslenskra listamanna 1982-86. Árið 1968 stofnaði hann Íslenska tónverkamiðstöð ásamt fleiri tónskáldum og var stjórnarformaður frá stofnun hennar til ársins 1981. Þorkell sat í stjórn STEFs um árabil og var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listahátíðar í Reykjavík um skeið. Þorkell var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Hameline-háskólann árið 1999 og var meðlimur Konunglegu sænsku akademíunnar.
Cantoque sings Thorkell

Myrkir Músíkdagar í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja - Þinn staður!