Hvenær er maður nógu ríkur?

Messa 19. júní kl. 11. Sr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar í Kór Hallgrímskirkju syngja. Organisti Björn Steinar Sólbergsson.
 
Textar dagsins fjalla um lífsafstöðu og tengsl. Hvað er að vera ríkur? Hvenær hefur maður nóg? Fá þau ríku einhvern tíma nóg? Hvað eru alvöru auðæfi og hvað ekki? Saga Jesú um ríka manninn og Lasarus er marglaga saga. Varla er þessi saga bara um peninga og að ríkidæmi leiði menn beint til heljar. Eru einhver dýpri gildi eða sannindi sem Jesús var með hugann við? 
 

Lexía: 5Mós 15.7-8, 10-11
Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir. Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Pistill: 1Jóh 4.16-21
Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.

Guðspjall: Lúk 16.19-31
Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Mynd sáþ: Við Ægisíðu