Endurútgáfudagur

Endurútgáfa á danskri þýðingu Björns Sigurbjörnssonar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

Útgáfuhóf í Hallgrímskirkju sunnudaginn 12. maí 2024 kl. 14.00

Í ár er þess minnst að 350 ár eru liðin frá andláti Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímskirkja heiðrar minningu skáldsins á margvíslegan hátt undir yfirskriftinni Minningarár 350, m.a. með helgun endurgerðs og stækkaðs kórorgels; útgáfu tveggja bóka; frumflutningi þriggja frumsaminna tónverka við texta Hallgríms; sýningunni Hallgrímshorfur þar sem horft er á kirkjur sem tengjast skáldinu; nýjungum í fræðslu um skáldið og nýrri uppfærslu á Jólunum hans Hallgríms sem þúsundir barna hafa heimsótt á aðventunni síðastliðinn tíu ár.

Sunnudaginn 12. maí nk. kl. 14:00, klukkan tvö, verður haldin útgáfuhóf í Norðursal Hallgrímskirkju í tilefni af endurútgáfu á danskri þýðingu séra Björns heitins Sigurbjörnssonar á Passíusálmunum. Þýðingin kom fyrst út á vegum Hallgrímskirkju 1995 og hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið. Þýðingarverk Björns einkennist bæði af listfengi og skýrleika og því fylgir ítarlegur formáli af hans hendi sem ber vott um næman skilning á efninu og ævintýralegu lífi skáldsins og eiginkonu hans, Guðríðar Símonardóttur.

Passíusálmarnir á dönsku eru nú gefnir út, í samvinnu kirkjunnar og Skálholtsútgáfunnar, í veglegri kilju sem skreytt er með myndstefjum úr steindum glugga Leifs Breiðfjörð yfir aðaldyrum, auk forma og mynda úr kirkjunni sem Sigurður Árni Þórðarson, fyrrverandi sóknarprestur tók. Einkennislitur þessarar útgáfu er blár og tekinn úr litapallettu áðurnefnds glugga. Hönnuður bókarinnar er Halla Sólveig Þorgeirsdóttir.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið!

HALLGRÍMSKIRKNA – ÞINN STAÐUR!