Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin? Hádegistónleikar

Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?

Á þessum kyrrðartónleikum í desemberhádegi flytja Tómas Guðni Eggertsson organisti og Davíð Þór Jónsson píanisti valda aðventu- og jólasálmforleiki eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750). Forleikina er að finna í handritinu Orgelbüchlein, eða Lítil orgelbók, sem Felix Mendelssohn lét prenta á fyrri hluta 19. aldar. Í þeim má m.a. heyra óminn af þekktum jólasálmum á borð við Sjá, himins opnast hlið, Af himnum ofan boðskap ber og Oss barn er fætt í Betlehem.

Sálmforleikir hins mikla meistara eru hér fluttir á nýstárlegan máta sem spilafélagarnir tveir hafa þróað á undanförnum árum, en í því felst að Davíð Þór spinnur á flygil kirkjunnar í kringum forleikina sem Tómas Guðni leikur á Klais-orgelið. Þá er registeringum orgelsins einnig breytt, miðað við hefðbundinn flutning. Hvergi er þó hvikað frá virðingu við verkin sjálf og upphaflegt erindi þeirra.

Yfirskrift tónleikanna ber með sér að tónlist Bach sé ómissandi í aðdraganda jóla – ár hvert – og þannig eru áhorfendur boðnir velkomnir í ferðalag þar sem hið gamla verður nýtt og nýtt gamalt.

Hægt er að fá miða við innganginn og á tix.is 

Miðaverð er 2000 krónur, ókeypis fyrir börn, 16 ára og yngri.