Best að Bach-a fyrir páska!
Laugardaginn 1. apríl 2023 kl. 12 í Hallgrímskirkju
Tómas Guðni Eggertsson, orgel
Davíð Þór Jónsson, píanó
Miðar fást við innganginn og á https://tix.is/is/event/14819/
Miðaverð: 2500 kr.
Á þessum kyrrðartónleikum í aðdraganda dymbilviku flytja Tómas Guðni Eggertsson organisti og Davíð Þór Jónsson píanisti föstusálmforleiki eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750). Forleikina er að finna í handritinu Orgelbüchlein, eða Lítil orgelbók, sem Felix Mendelssohn lét prenta á fyrri hluta 19. aldar.
Sálmforleikir meistara Bachs eru hér fluttir á nýstárlegan máta sem spilafélagarnir tveir hafa þróað á undanförnum árum – og er enn í þróun – þar sem Davíð Þór spinnur á flygil kirkjunnar í kringum forleikina sem Tómas Guðni leikur á Klais-orgelið. Þá er registeringum orgelsins einnig breytt miðað við hefðbundinn flutning. Hvergi er þó hvikað frá virðingu við verkin sjálf og upphaflegt erindi þeirra.
Davíð Þór Jónsson (f. 1978) er meðal fremstu og fjölhæfustu tónlistarmanna landsins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið á tónlistarhátíðum víða um heim, gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda sviðsverka, kvikmyndir, útvarpsverk og sjónvarpsþætti og starfað náið með fjölda listamanna úr ólíkum geirum, má þar nefna náið samstarf hans og Ragnars Kjartanssonar. Davíð Þór hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin sem og alþjóðleg verðlaun fyrir kvikmyndatónlistina úr Hross í oss og Kona fer í stríð.
Tómas Guðni Eggertsson (f. 1974) lauk prófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum vorið 1996 og hélt í kjölfarið til framhaldsnáms við Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow. Heimkominn lauk hann einleiksáfanga í orgelleik og kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hann hefur starfað sem tónlistarkennari, kórstjóri og organisti. Samstarf við tónlistarmenn á borð við Dimitri Ashkenazy, Ólaf Kjartan Sigurðarson og Svein Dúu Hjörleifsson hefur leitt Tómas Guðna um ýmsar lendur, og á síðustu árum hefur samvinnan við Davíð Þór Jónsson stækkað og breikkað sviðið á alla kanta.