Hallgrímspassía Sigurðar Sævarssonar.
Flytjendur eru Kór Hallgrímskirkju og Kammersveit Reykjavíkur, með Unu Sveinbjarnardóttur, konsertmeistara ásamt einsöngvurum.
Steinar Logi Helgason stjórnar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel.
Einsöngvarar eru:
Jóhann Smári Sævarsson bassi
Fjölnir Ólafsson barítón
Stefán Sigurjónsson bassi
Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór
Þorbjörn Rúnarsson tenór
Hildigunnur Einarsdóttir alt
Miðasala í Hallgrímskirkju og á tix.is
Aðgangseyrir 5.400 kr.
Hallgrímspassía er 75 mínútna óratoría samin árið 2007 af íslenska tónskáldinu Sigurði Sævarssyni.
Sigurður Sævarsson
tónskáld
Sigurður Sævarsson stundaði söngnám við Tónlistarskóla Keflavíkur hjá Árna Sighvatssyni. Þaðan lá leiðin í Nýja tónlistarskólann þar sem kennarar hans voru Sigurður Demetz Franzson og Alina Dubik. Árið 1994 hóf Sigurður söng- og tónsmíðanám við Boston University og lauk þaðan mastersgráðu í báðum greinum 1997. Við komuna heim hóf hann störf við kennslu þar til hann var ráðinn skólastjóri Nýja tónlistarskólans. Helstu viðfangsefni Sigurðar í tónsmíðunum hafa tengst mannsröddinni. Hann hefur samið fjölda kórverka, allt frá stuttum a cappella verkum yfir í óratoríur. Mörg þeirra hafa verið gefin út á plötu. Má þar nefna Hallgrímspassíu. Upptakan var tilnefnd sem besta platan í flokki klassískrar og samtímatónlistar. Árið 2022 kom út plata frá Harmonia Mundi útgáfunni þar sem flutt voru Requiem, Magnificat og Nunc dimittis eftir Sigurð. Platan fékk lofsamlega dóma gagnrýnanda, fékk meðal annars fimm stjörnur frá Freya Parr gagnrýnanda BBC Music Magazine. Rick Anderson hjá AllMusic endar gagnrýni sína: And I simply can't praise Sævarsson's Requiem setting highly enough; although the piece is thoroughly modern, it nevertheless invokes a timeless sense of reverence, regret, and devotion. A must-have for all library collections.
Kór Hallgrímskirkju
Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú tæplega 60 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Á síðustu tónleikum sínum, sem haldnir voru á pálmasunnudag, flutti hann til dæmis ný verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Finn Karlsson, auk eldri meistaraverka á borð við föstumótettur Francis Poulenc.
Kammersveit Reykjavíkur
Una Sveinbjarnardóttir
konsertmeistari
Heiðursforseti: Rut Ingólfsdóttir
Umsjónarmaður útgáfu: Rut Ingólfsdóttir
Verkefnastjórn/Verkefnavalsnefnd: Áshildur Haraldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Matthías Birgir Nardeau, Richard Korn, Rúnar Óskarssonog Una Sveinbjarnardóttir
Una er fiðluleikari og tónskáld. Hún hefur unnið með Björk, Jóhanni Jóhannssyni og Atla Heimi Sveinssyni auk fjölda annarra listamanna. Una er stofnfélagi Siggi String Quartet og eigin tónsmíðar heyrast á öllum hennar plötum. Sem einleikari og í samstarfsverkefnum og sem konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og SÍ leggur hún áherslu á flutning nýrrar tónlistar, sinnar og annarra. Hún sækir hugmyndir í tungumál og ljóð, hrynjandi og hreyfingu orða og setninga sem svo sameinast andrúmsloftinu. Verk hennar eru mínímalísk en samt ekki.
www.unasmusic.com
Jóhann Smári Sævarsson
bassi
Jóhann Smári Sævarsson hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London.
Að námi loknu réði Jóhann Smári sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg. Jóhann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu: Köln, Bonn, Nürnberg, Saarbrücken, Würzburg, Regensburg, Kaiserslautern, Passau, Berlinar Fílharmoníuna, Prag, Bregenz, Glyndbourn, Royal Albert Hall, Sadlers Wells Theater í London, Dublin Grand Opera, Scottish Opera, Borgarleikhúsið í Reykjavík, Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna. Hann hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum, meðal annarra Bernard Haitink, Kent Nagano, James Conlon og Gennadi Rozhdestvensky, og þekktum hljómsveitum á borð við London Philharmonic, BBC Concert Orchestra, Gurzenich Orchester, Berliner Sinfonie og WDR útvarpshljómsveitina í Köln. Jóhann hefur sungið óperuhlutverk í 85 óperuuppfærslum á ferlinum. Meðal verka á tónleikum eru Requiem Verdis, Requiem Mozarts, 9. sinfónía Beethovens, 8. sinfónía Mahlers og Sköpunin eftir Haydn.
Jóhann hefur haldið ljóðatónleika hérlendis og erlendis. Jóhann Smári var tilnefndur sem rödd ársins 2010 til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir söng sinn í Vetrarferðinni og sem Hallgrímur í Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar með Schola Cantorum og Caput hópnum undir stjórn Harðar Áskelssonart. Árið 2008 hlaut Jóhann starfslaun listamanna í eitt ár og nú 2023 í 6 mánuði. Jóhann Smári er kórstjóri Karlakórs Keflavíkur, Söngsveitarinnar Víkingar og Hátíðarkórs Norðuróps. Jóhann hefur verið virkur í Íslensku sönglífi frá því hann kom heim 2008, sungið mörg hlutverk í Íslensku óperunni, sungið einsöng með Kammersveit Reykjavíkur, Caput hópnum, óperukórnum í Reykjavík, Háskólakórnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og á Listahátíð svo eitthvað sé nefnt. Sem stjórnandi hefur Jóhann Smári stýrt fluttningi á óperunum „Cunning litle Vixen“ og „Brúðkaupi Figarós“ Þá stjórnaði Jóhann flutningi á Mozart Requiem 2022 og Verdi Requiem 2023 með Hátíðarkór Norðuróps. Jóhann hefur einnig leikstýrt fjölda óperusýninga, Brúðkaup Fígarós, Toscu, Eugine Onegin, Cunning litle Vixen og Fiðlarinn á þakinu.
Jóhann Smári er listrænn stjórnandi óperufélagsins Norðuróp.
Fjölnir Ólafsson
barítón
Fjölnir Ólafsson barítón hóf nám í klassískum gítarleik 10 ára gamall en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus-gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014.
Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika, hérlendis og erlendis. Hann hefur sungið einsöngshlutverk í fjölda óratoría og tónleikaverka, svo sem Messíasi og Júdasi Makkabeusi eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu Bachs og sálumessum Brahms og Faurés. Þá hefur Fjölnir komið að frumflutningi nýrrar tónlistar, auk þess sem hann hefur lagt mikla rækt við ljóðasöng. Á óperusviðinu hefur hann farið með fjölda hlutverka, m.a. við Saarländische Staatstheater og hjá Íslensku óperunni.
Fjölnir vann til verðlauna í keppnunum „International Richard Bellon Wettbewerb 2011“, „International Joseph Suder Wettbewerb 2012“ og „Walter und Charlotte Hamel
Stiftung 2013“. Hann var valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2013."
Stefán Sigurjónsson
bassi
Stefán Sigurjónsson lærði söng hjá Jóni Þorsteinssyni við Söngskóla Sigurðar Demetz og við Tónlistarháskólann í Utrecht. Hann hefur sungið með atvinnukórum og ýmis einsöngsverkefni í Hollandi, Bandaríkjunum og Íslandi.
Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór
Þorbjörn Rúnarsson tenór
Þorbjörn Rúnarsson tenór, hóf söngferil sinn barn að aldri í Skólakór Garðabæjar og hefur alla tíð síðan verið syngjandi. Sumurin 1989-1992 var hann einn af fulltrúum Íslands í Heimskór æskufólks, World Youth Choir, þar sem ungir söngvarar alls staðar að úr heiminum koma saman og syngja.
Þorbjörn hóf söngnám hjá Sigurði Demetz og síðar hjá W. Keith Reed á Egilsstöðum. Þorbjörn söng Almaviva greifa í Rakaranum í Sevilla og Beadle Bamford í Sweeney Todd hjá Íslensku Óperunni. Einnig söng hann Tamínó í Töfraflautunni, og Ferrando í Cosi Fan Tutte hjá Óperustúdíói Austurlands. Þorbjörn hefur sungið hlutverk guðspjallamannsins í Jólaóratoríu og Jóhannesarpassíu Bachs með fjölda kóra, bæði á Íslandi og erlendis. Hann hefur einnig sungið einsöngshlutverk í ýmsum kórverkum, messum og óratoríum.
Þorbjörn hefur sungið með fjölda kóra og sönghópa, s.s. Kór Íslensku Óperunnar, Cantoque Ensemble, Schola Cantorum, Hljómeyki, Mótettukórnum, Söngsveitinni Fílharmóníu, Kór Langholtskirkju, Kammerkór Austurlands og svo mætti lengi telja.
Þorbjörn er einn stofnfélaga Kórs Hallgrímskirkju.
Hildigunnur Einarsdóttir
alt
Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir söng ársins í flokknum sígild og samtímatónlist.