Málþing og leiðsögn um HALLGRÍMSHORFUR, myndlistarsýningu Hallgerðar Hallgrímsdóttur
Miðvikudaginn 23. október kl. 12
Myndlistarsýning á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur, unnin út frá lífi og list Hallgríms Péturssonar og samþætt sex kirkjustöðum sem tengjast honum. Augnablik sem veita áhorfendum aðgang að hugleiðingum um líf og list tveggja einstaklinga mjög svo ólíkra tímaskeiða þar sem Hallgrímur er fæddur á 17. öld en Hallgerður 310 árum síðar. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir.
Hallgrímskirkja í Reykjavík er helguð minningu prestsins og listaskáldsins Hallgríms Péturssonar. Minningarár – 350 er yfirskrift dagskrár í kirkjunni sem heldur á lofti þeim arfi sem Hallgrímur hefur skilað til samfélagsins en 27. október eru 350 ár liðin frá dánardægri hans. Arfleifð hans birtist á endurnýjaðan hátt í fjölbreyttri miðlun.
Einn liður þessarar dagskrár er myndlistarsýning á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur sem falið hefur verið að vinna verk út frá líf og list Hallgríms Péturssonar og samþætta sýninguna öllum kirkjustöðunum sem tengjast lífi Hallgríms. Hún ferðast innanlands til þeirra staða og kirkna sem sterklega eru tengdar Hallgrími Péturssyni, en þær eru Grafarkirkja á Höfðaströnd þar sem Hallgrímur fæddist, Hóladómkirkja í Hjaltadal þar sem hann ólst upp, Hvalsneskirkja á Reykjanesi þar sem hann fékk sitt fyrra prestsembætti, Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem var hans síðara brauð og Hallgrímskirkja sem áður stóð í Saurbæ en er nú í Vindáshlíð í Kjós. Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti sem helguð er minningu Hallgríms Péturssonar verður umgjörðin um sýninguna sem sett verður upp í fordyri og kirkjuskipi hennar. Hallgerður er mjög meðvituð um eiginleika ljósmyndunar sem miðils, sögu hennar og tækifærin sem tæknin veitir. Af tilfinninganæmi, látleysi og einlægni fangar hún augnablik með ljósmynd sem hún útfærir á sinn hátt og veitir áhorfendum aðgang að hugleiðingum um líf og list tveggja einstaklinga mjög svo ólíkra tímaskeiða þar sem Hallgrímur er fæddur á 17. öld en Hallgerður Hallgrímsdóttir 310 árum síðar. Verk Hallgríms lifa enn með þjóðinni og mörg ljóða hans hafa verið tónskáldum innblástur til
tónsmíða, en nú er sjónum beint að því hvernig líf hans og list endurspeglast í myndlist á 21. öld. Einnig verður gefin út sýningarskrá, vitnisburður um metnaðarfullt framlag til 350 ára ártíðar Hallgríms, sem lifa mun sýninguna. Sýningin verður opnuð sunnudaginn 8. september að lokinni messu kl. 11:00. Á
Hallgrímshátíð 21. – 27. október verður efnt til málþings í hádeginu þriðjudaginn 23. október þar sem Hallgerður mun meðal annars segja frá sýningunni og svara spurningum. Sýningin mun standa fram að aðventu.
Hallgerður lauk MA gráðu í myndlist frá Valand listaháskólanum í Gautaborg og hafði áður lokið námi frá listaháskólanum í Glasgow með áherslu á ljósmyndun.
Hallgerðar Hallgrímsdóttir, myndlistarkona
Inga Jónsdóttir, sýningarstjóri
HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR!